Íran horfir í austur

Íran hefur tekið þá strategísku ákvörðun að efla samskiptin við nágrannaríki sín í austri. Mahmoud Ahmadinejad telur að öflugri tengsl Írans við ríki á borð við Kína, Rússland og Indland geti orðið til þess að Íran þurfi ekki að taka tillit til Vesturveldanna. Það er aðeins óskhyggja hjá honum.

Það eru rúmlega tíu ár síðan Bandaríkin settu viðskiptabann á Íran (og reyndar Lýbíu einnig, sem síðar var aflétt). Vorið 1995 tilkynnti Bill Clinton að verið væri að undirbúa allsherjar viðskiptabann á Íran sem bandaríska þingið samþykkti síðan í ágúst 1996. Viðskiptabannið fól í sér refsiaðgerðir gegn öllum fyrirtækjum sem fjárfestu fyrir meira en 20 milljónir dollara í Íran og var sett á einhliða af Bandaríkjunum; hvorki Evrópa, Japan né Rússland höfðu minnsta áhuga á að taka þátt í þessum aðgerðum Bandaríkjastjórnar.

Aukin samskipti Írans á sviði efnahagsmála við m.a. þjóðir Evrópu, Rússland, Kína, Indland og Japan grófu hins vegar verulega undan markmiði viðskiptabannsins, þ.e. að einangra Íran efnahagslega frá umheiminum. Þetta var samt mjög einkennandi fyrir það ósamræmi sem var annars vegar í stefnu Bandaríkjanna stærstan hluta tíunda áratugarins og hins vegar Evrópu; á meðan Bandaríkin höfðu mestan áhuga á að refsa Írönum voru Evrópuþjóðirnar nánast alltaf tilbúnar að bjóða gulrætur – alveg sama hvað Íran gerði. Öfugt við skoðun Bandaríkjastjórnar þá taldi Evrópa að ekki væri rétt að líta á Íran sem meiriháttar ógn við öryggi og stöðugleika í alþjóðakerfinu.

Þetta hefur aftur móti breyst breyst á undanförnum árum í kjölfar kjarnorkudeilunnar við Íran, sem nú hefur staðið yfir síðan 2003. Enda þótt Bandaríkin og bandamenn þeirra í Evrópu (Bretland, Frakkland og Þýskaland), séu ekki fullkomlega sammála um hversu langt eigi að ganga til að stöðva kjarnorkuáætlun Írana, eru Vesturveldin hins vegar sammála um þá miklu hættu sem stafar af framferði klerkastjórnarinnar í Teheran. Í þjóðaröryggisáætlun Bandaríkjanna 2006 (e. National Security Strategy 2006) er Íran sérstaklega nefnt sem það ríki sem „[Bandaríkjunum] stafi einna mest hætta af.“ Og Segolene Royal, nýkjörinn formaður franska Sósíalistaflokksins sagði fyrir skemmstu í ferð sinni til Mið-Austurlanda að það „yrði að stöðva [Íran] frá því að framleiða úran til kjarnaorkunotkunar […] Ég hef í langan tíma staðhæft að kjarnorkuvopnavætt Íran sé ekki aðeins ógn við Ísrael heldur einnig fyrir allan heiminn.“ Komandi frá forsetaframbjóðanda franskra sósíalista, eru þessi ummæli eftirtektarverð.

En á meðan kjarnorkuuppbygging íranskra stjórnvalda heldur áfram að gnæfa yfir öllum öðrum málefnum – og það skiljanlega – í samskiptum Vesturveldanna við Íran, á hið sama hins vegar alls ekki við í samskiptum Írans við mörg nágrannaríki sín. Íran hefur tekið þá strategísku ákvörðun að efla tengsl sín – einkum á sviði orkuöryggis- og efnahagsmála – við ríki á borð við Kína, Rússland, Indland og Japan. Þessi stefnubreyting Írana er þó ekki alveg einstök fyrir ríki í Mið-Austurlöndum. Almennt séð hafa viðskipti milli Mið-Austurlanda og Asíu vaxið mikið á undanförnum árum; þau tvöfölduðust frá 2000 til 2005, upp í samtals 240 milljarða dollara. Og ástæðuna er ekki eingöngu hægt að skýra vegna aukinnar orkuneyslu stórþjóða Asíu og hás olíuverðs, heldur einnig – og ekki síður – þrefaldri aukningu sem hefur orðið í útflutningi frá löndum líkt og Kína, Indlandi og Pakistan til Persaflóaríkjanna.

Þeir strategísku hagsmunir sem liggja að baki þessari ákvörðun Írana eru augljósir; með því að efla samskipti sín við Rússland og Kína verður mun erfiðara en ella fyrir Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna að ná samstöðu um til hvaða aðgerða eigi að grípa til að refsa Írönum fyrir kjarnorkuáætlun sína. Og þrátt fyrir að samstaða muni nást að lokum – líkt og flest bendir núna til – er sennilegt að þær aðgerðir Öryggisráðsins muni breyta litlu um hvort ráðamenn í Teheran ákveði að láta af kjarnorkuuppbyggingu sinni: Hin sterku tengsl sem Rússar og Kínverjar eiga orðið við Íran, – auk þeirrar nýtilkomnu öflugu stöðu sem Íran skynjar að það njóti í Mið-Austurlöndum – kemur í veg fyrir það að refsiaðgerðirnar verði nokkurn tíma árangursríkar.

Sú tilhneiging er oft rík á Vesturlöndum þegar fjallað er um kjarnorkuáætlun Írana að gera skilyrðislausa kröfu til þess að Kína og Rússland fallist á sjónarmið Bandaríkjanna og Evrópu þegar kemur að því að setja viðskiptabann á Íran. Samkvæmt þessu sjónarmiði er nánast gengið út frá því að hagsmunir þessara ríkja séu að mestu leyti hinir sömu og Vesturveldanna. Svo er vitaskuld ekki. Og þess vegna er nauðsynlegt – bæði til að skilja hinn nýja veruleika í Mið-Austurlöndum og ekki síður til að geta lagt raunsætt mat á kjarnorkudeilu Vesturveldanna við Íran – að greina frekar þau margþættu og oft á tíðum flóknu samskipti sem Íranir hafa komið á við Kína, Rússland (og einnig Indland).

Íran og Kína
Hvernig er tengslum Írans og Kína eiginlega háttað? Utanríkisstefna Kína hefur á síðustu árum verið drifin áfram af þeirri gegndarlausu orkuþörf sem kínverska hagkerfið þarfnast; það var því rökrétt ákvörðun hjá Kínverjum að rækta samskiptin við það ríki sem á um 11% af olíubirgðum heimsins og hefur yfir að ráða næst stærstu gasauðlindunum (á eftir Rússlandi). Í janúar 2006 var innflutningur Kína á olíu frá Íran samtals 14% af heildarolíuinnflutningi þess og hafði Íran þar með tekið við af Sádi-Arabíu sem stærsti olíuinnflytjandi Kína.

Samvinna Írans og Kína í málefnum tengdum orkuöryggi er mikil. Á árinu 2004 skrifuðu ríkin undir tvo samninga upp á samtals 120 milljarða dollara. Samningarnar kveða á um að Kína muni flytja inn gas frá Íran næstu 25 árin, auk þess sem kínverska ríkisfyrirækið Sinopec fékk 50% hlut í að þróa og vinna Yadavaran olíusvæðið, sem talið er að geti framleitt innan tíðar um 300.000 tunnur af olíu á dag. Næsta hugsanlega skref – sem Kína hefur sýnt mikinn áhuga á – er að leggja olíuleiðslu inn í Íran sem gæti flutt olíu til Kaspíahafs og þannig tengst annarri olíuleiðslu í Kasakstan sem kínversk stjórnvöld hafa áform uppi um að reisa. (Bandarísk stjórnvöld hafa eindregið lagst gegn þessum áætlunum).

Efnahagssamskipti þjóðanna hafa einnig vaxið hratt; árið 1998 voru tvíhliða viðskipti Írans og Kína aðeins 1,2 milljarður dollara. Í lok 2005 höfðu viðskipti landanna hins vegar margfaldast og voru orðin samtals 10 milljarðar dollara. Þrátt fyrir þessa miklu aukningu í tvíhliða viðskiptum ríkjanna, eru þau engu að síður ósköp lítilfjörleg borin saman við t.d. viðskipti Kína og Bandaríkjanna 2005, sem voru rétt yfir 285 milljarða dollara.

Stjórnmálasamskipti milli Peking og Teheran hafa sömuleiðis verið að styrkjast. Ákveðin tímamót urðu sumarið 2000 þegar Mohammad Khatami, þáverandi Íransforseti, kom í opinbera heimsókn til Kína og ríkin sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu. Og nú síðast í júlí 2005 var Írönum veitt áheyrnarstaða – með fyrirheit um fulla aðild síðar meir – hjá Shanghai samtökunum, sem er formlegur samstarfsvettvangur Kína, Rússlands og fjögurra Mið-Asíu ríkja. Ef samskipti Írans og Kína munu þróast út í nánara öryggisbandalag – sem ekki margt bendir til á þessari stundu – er líklegast það muni eiga sér stað á vettvangi Shanghai samtakanna, þar sem þau hefðu mesta möguleika á að ná fram sameiginlegu markmiði sínu um að minnka áhrif Bandaríkjanna í Mið-Asíu.

Íran og Rússland
Íran er mikilvægasti bandamaður Rússlands í Mið-Austurlöndum. Eftir nokkuð sveiflukennd samskipti á níunda og í byrjun tíunda áratugarins, hefur strategískt bandalag ríkjanna aftur verið endurvakið til fulls.

Þrátt fyrir að Rússland sé stærsti vopnasali Írans eru tvíhliða viðskipti landanna í raun sáralítil; árið 2005 voru þau samtals 2,4 milljarður dollara. Stjórnvöld í Kreml gera þó ráð fyrir að viðskiptin muni aukast upp í 10 milljarða á næstu árum. Mikilvægasti þátturinn í samskiptum Rússland og Íran er því ekki á efnahagssviðinu, heldur fyrst og fremst í kjarnorkumálum. Hornsteinninn í kjarnorkusamstarfi þjóðanna er kjarnorkuverið í Bushehr.

Ávinningur rússneskra stjórnvalda af þessu kjarnorkusamstarfi hefur þó verið mjög lítill – aðeins 800 milljónir dollara – ef miðað er við þann kostnað sem þau standa frammi fyrir: Rússland vill ekki þurfa að velja á milli þess að fara algjörlega að kröfum Vesturveldanna um hvaða refsiaðgerðum skuli beita Íran til að spilla ekki fyrir starfhæfum samskiptum við Bandaríkin og Evrópu, né heldur vilja ráðamenn í Kreml skaða strategískt samband sitt við Teheran. Það sáttasemjarahlutverk sem Rússland hefur reynt að spila í kjarnorkudeilunni við Íran er farið að reynast þeim sérstaklega erfitt eftir því sem lengra líður á deiluna. Að lokum er sennilegast – líkt og fréttir gefa núna til kynna – að niðurstaðan verði sú að Rússland muni gangast við nýrri ályktun Öryggisráðsins sem kveður á um mun bitlausari refsiagerðir gegn Íran heldur en Bandaríkin og Evrópuríkin lögðu upphaflega með.

Íran og Indland
Til að leitast við að tryggja orkuöryggi sitt – og þar með forsendu fyrir áframhaldandi efnahagsuppgangi næstu árin – hafa indversk stjórnvöld leitað til Írans, sem þau telja að geti veitt þeim aðgang að orku til lengri tíma litið. Þrátt fyrir mótmæli Bandaríkjastjórnar skrifaði Indland nýlega undir 22 milljarða dollara samning við Íran, sem kveður á um að Íran muni sjá Indlandi fyrir fimm milljónum tonna af gasi árlega yfir tuttugu ára tímabil.

Þessi orkusamningur breytti þó ekki því að Indland ákvað nokkuð óvænt, – undir mikilli pressu frá Bandaríkjunum – að styðja ályktun Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar (IAEA) fyrr á þessu ári, þar sem Íran var fordæmt fyrir að halda áfram kjarnorkuáætlun sinni. Þessi ákvörðun Indverja fór mjög fyrir brjóstið á stjórnvöldum í Teheran, sem höfðu bundið vonir við að Indland mundi standa með Írönum í kjarnorkudeilunni við Vesturlönd.

Það er hins vegar einnig athyglisvert, eins og tímaritið Foreign Policy greindi frá í vikunni, að tvö indversk fyrirtæki voru beitt refsiaðgerðum af hálfu Bush stjórnarinnar í júlí á þessu ári, fyrir að hafa veitt Írönum tækniaðstoð sem gerði þeim auðveldara fyrir að þróa gereyðingarvopn. Fleiri dæmi eru um á síðustu tveimur árum, að hvort tveggja indverskir vísindamenn og fyrirtæki hafi gerst sek um að hafa veitt stjórnvöldum í Teheran tækniaðstoð sem hefur hjálpað þeim að þróa enn frekar kjarnorkuáætlun sína. Mun meira hefur farið fyrir samskonar fréttum í fjölmiðlum af fyrirtækjum í Kúbu, Norður-Kóreu og Rússlandi.

Þarfnast Íran ekki Vesturlanda?
Fyrir Mahmoud Ahmadinejad Íransforseta og hina nýju kynslóð harðlínuafla í Íran, sem hefur smátt og smátt verið að seilast til valda, skipta Bandaríkin (og Vesturlönd almennt) ekki jafn miklu máli og þau gerðu að áliti t.d. Ayatollah Khamenei og Hashemi Rafsanjani fyrrrverandi Íransforseta. Hvort sem Bandaríkin var rót allra vandamála Írans eða lausnin á þeim, þá var Bandaríkin alltaf þungamiðjan í írönskum stjórnmálum fyrir þessa menn. Ahmadinejad virðist hins vegar ekki vera sammála því. Hann sagði meðal annars nýlega að Íran muni „halda áfram í átt til framfara og á þeirri vegferð hefur [Íran] enga verulega þörf fyrir Bandaríkin.“ Að mati Ahmadinejad og skoðanabræðra hans, þarf þátttaka Írans í alþjóðvæðingunni alls ekki að þýða að Íran þurfi að fara að kröfum Bandaríkjanna og annarra Vesturvelda. Íran geti í stað þess horft til austurs og tryggt sér viðskipti og fjárfestingar frá stórþjóðum eins og Kína, Indlandi og Rússlandi, eins og fjallað var um hér að ofan.

Eru þetta raunhæfar hugmyndir hjá forseta Írans? Eitt af helstu dagblöðum Írans, Eqbal, er ekki á sama máli og Ahmadinejad, líkt og kom fram í skrifum blaðsins á síðasta ári:

„Iran has less bargaining power in the global markets because America has left its economic equation. In other words, it is impossible for a country to achieve its minimum interests without considering America in today’s world. In the circumstances of globalization, not having relations with America is tantamount to isolation in the world and wasting the interests of the country.“

Eins og Ray Takeyh og Kenneth Pollack hafa bent á (Foreign Affairs maí/júní 2005), þá getur hvorki kínverska, indverska né hið rússneska hagkerfi, skilað því fjármagni sem Íran þarfnast til að halda efnahagnum á floti næstu tíu árin eða svo. Og Evrópa er núna langstærsti viðskiptaaðili Írans (33%) á meðan Japan er sá annar stærsti (15%). Viðskipti Írans við Kína telja hins vegar um 9% og enn minna þegar kemur að Rússlandi, eða aðeins um 2%. Hvað Indland varðar, þá á Íran sem stendur í meiri viðskiptum við Sameinuðu arabísku furstadæmin – og það segir margt. Að ætla að segja algjörlega skilið við Vesturlönd er því aðeins óskhyggja hjá Ahmadinejad. Hvað svo sem mikilvægi Indlands og Kína líður í alþjóðahagkerfinu, – núna eða í náinni framtíð – þá eru það Bandaríkin sem eru efnahagsstórveldi heimsins (ásamt Evrópusambandinu). Það eru enn áratugir – frekar en ár – þangað til að það mun breytast.

Það gætir einnig mikils misskilnings hjá sumum háttsettum írönskum ráðamönnum, sem virðast vanmeta stórlega – ef marka má ummæli þeirra – hversu langt kínversk stjórnvöld (og rússnesk) eru tilbúin til að ganga í stuðningi sínum við Teheran (meðal annars í kjarnorkudeilunni), á kostnað samskipta Kína við Bandaríkin. Það ríki í alþjóðakerfinu er vandfundið (fyrir utan Ísrael, vitaskuld) sem framfylgir utanríkistefnu sem mótast jafnmikið af raunsæishyggju líkt og Kína. Og þess vegna munu stjórnvöld í Peking aldrei láta hugmyndafræðilegar ástæður – eins og Ahmadinejad virðist ætla að gera hvað varðar stefnu Írans – ráða för sinni þegar kemur að samskiptum þess við Bandaríkin. Þau vita sem er, að góð og friðsöm samskipti við Bandaríkin eru lykilforsenda fyrir áframhaldandi uppgangi Kína á alþjóðavettvangi.

Íran ætti að fylgja fordæmi Kína.