Hugsmunir og hagsjónir

Auðvitað meina ég hagsmunir og hugsjónir en þessi tvö orð eru oft svo saman snúin í hugum margra að vart má á milli sjá um hvað um ræðir, hvenær hvað á við, hvort er hænan og hver sauð eggið, svo engan skal undra að stafsettingin flækist fyrir manni. Svo ekki sé minnst á þegar eiginhagsmunapot er farið að flækja málið, þá er erfitt jafnvel erfitt að stafsetja einföldustu orð eins og staða eða land og svo ekki sé minnst á flóknari orð eins peningar og eignarhald.

Auðvitað meina ég hagsmunir og hugsjónir en þessi tvö orð eru oft svo saman snúin í hugum margra að vart má á milli sjá um hvað um ræðir, hvenær hvað á við, hvort er hænan og hver sauð eggið, svo engan skal undra að stafsettingin flækist fyrir manni. Svo ekki sé minnst á þegar eiginhagsmunapot er farið að flækja málið, þá er erfitt jafnvel erfitt að stafsetja einföldustu orð eins og staða eða land og svo ekki sé minnst á flóknari orð eins peningar og eignarhald.

Gunna kýs sér fulltrúa til þess að hún þurfi ekki að taka ákvarðanir um öll mál í samfélagi sínu og geti sinnt því göfuga starfi að kenna börnum. Hún vill ekki þurfa að taka ákvarðanir um það í hvað fjármunir samfélagsins sem hún býr í fara í hverju sinni.

Gunna hefur þær skoðanir að allir eigi að vera jafnir og hún er tilbúin að greiða hátt hlutfall tekna sinna í skatt því hún treystir þeim fulltúrum sem hún hefur valið sér til þess að ráðstafa stórum hluta tekna sinna. Þess vegna kýs Gunna vinstri-sinnaðan flokk sem hafur það í stefnuskrá sinni að jafna kjör borgaranna og stuðla að velferð þeirra. Flokkurinn, sem nefnist Vinstri-rauðir, hefur það einnig ritað í stefnuskrá sína að hann vilji eigur ríkisins og sveitarfélagsins sem mestar.

Það er nú bara eins og það er og jafnvel hörðustu frjálshyggjumenn sætta sig við það að það eru ekki allir sömu skoðunar og þeir.

Gunna, sem og aðrir samborgarar hennar, verða að geta treyst því að
stefnuskrár flokka breytist ekki á miðju kjörtímabili og allt í einu taki flokkurinn upp á því að selja grunnskólann sem Gunna kennir í. Þetta gengur þvert á hugsjónir Vinstri-rauðra. Það eru svik við Gunnu og kjósendur alla.

Þetta á ekki bara við um uppspunna flokkinn Vinstri-rauða, heldur alla kjörna fulltrúa. Þeir eru kjörnir af einherjum ástæðum. Hugsjónir þeirra voru svipaðir hugsjónum kjósenda og samræmdust hagsmunum þeirra og þeir völdu sér þessa stjórn.

Eiginhagsmunapot er hins vegar ófyrirgefanlegt og kjörnir fulltrúar eiga ávallt að hafa hagsmuni heildarinnar og þær hugsjónir sem þeir voru kosnir til þess að halda á lofti að leiðarljósi.

Vonandi fara þær hugsjónir svo saman við hagsmuni stjórnmálamannanna og það er líklega þess vegna sem þeir aðhyllast þessar hugsjónir eða stefnu. Stefnan á ekki að breytast ef eiginhagsmunir stjórnmálamannanna breytast. En spurningin er kannski frekar sú, eiga stjórnmálamennirnir að breyta eða bregða út af hugsjónum sínum ef hagsmunir heildarinnar breytast?

Við þessu er ekki til neitt einfalt svar. Machiavelli segir til dæmis í Furstanum að í utanríkismálum eigi ríki að miða við hreina valdahagsmuni og virða að vettugi allt sem heitir hugsjónir eða siðalög.

Ef Vinstri rauðir kæmust í ríkistjórn ættu þeir þá að gera hvað sem er til þess að þjóna hagsmunum Íslendinga sem best en horfa framhjá allri jafnaðarhugsjón og því sem flokkurinn var kosinn út á í ríkistjórn. Allt með það að markmiði að þjóna hagsmunum Íslendinga sem best.

Það er ekki víst að lögmál Machiavellis eigi við í dag. Þeir sem hugsa ekki um annað en alþjóðasamfélag eru líklega mjög á móti honum. Það er samt athyglisvert að velta því fyrir sér hvar mörkin liggja.

Almennt séð fylgja íslenskir stjórnmálaflokkar hugsjónum sínum ekki eins fast eftir og víða annars staðar. Það er til dæmis fáheyrt að flokkurinn sem er lengst til hægri starfi með þeim flokki sem er lengst til vinstri. Ef maður rýnir í stefnu flokkana ætti það ekki að vera hægt en eru það kannski hagsmunir sem stjórna ferðinni í því tilfelli á kostnað hugsjónanna?

Ef maður les stefnu Framsóknarflokksins er hún í fyrsta lagi dálítið loðin. Í öðru lagi lítið í takt við þær ákvarðanir sem teknar eru til dæmis í sveitarstjórnum víða um landið, þó loðin sé. Þannig að hugsjónirnar eru ekki beint fyrirferðamiklar hjá framsókn og svo er þeim síður en svo fylgt eftir. Eftir hverju fara þá kjörnir fulltrúar framsóknar?

Nú, hagsmunum heildarinnar auðvitað, munu margir líklega segja. Hættan er auðvitað sú að stutt sé á milli eiginhagsmunapots og heildarhagsmuna því línan þar á milli er ansi fín. Sérstaklega þegar ekki er skýr stefna sem hægt er að fylgja og hugsjónirnar lítilfjörlegar og líkar einhverskonar hentistefnu.

Eiga þeir sem eru kosnir til valda þá ekki að þjóna hagsmunum þeirra sem kusu þá? Jú, það er ekki nokkur vafi. Aðalatriðið er líklega að einhverjir stjórnmálamenn geta ekki gert upp við sig hvort þeir eru að þjóna hagsmunum heildarinnar, með þær hugsjónir sem þeir voru kosnir út á að leiðarljósi, eða þjóna eiginhagsmunum með lítilfjörlegar hugsjónir að leiðarljósi. Slíkir stjórnmálamenn ættu kannski að velta því fyrir sér hversu góðir fulltúrar þeir eru fyrir þá sem völdu sér annað hlutskipti í lífinu en að stjórna samfélaginu.

Latest posts by Kristín Hrefna Halldórsdóttir (see all)