Hagsmunir „hópanna“

Fyrsti dómurinn í skaðabótamálum á hendur olíufélögunum vegna ólögmæts samráðs féll í síðustu viku. Ker hf. var sýknað af skaðabótakröfu Sigurðar Hreinssonar þar sem honum hafði ekki tekist að sýna með nægilegum hætti fram á tjón sitt. Neytendasamtökin, sem stóðu á bak við mál Sigurðar, hafa á undanförnum mánuðum bent á að á Íslandi skorti úrræði um hópmálssókn.

Fyrsti dómurinn í skaðabótamálum á hendur olíufélögunum vegna ólögmæts samráðs féll í síðustu viku. Ker hf. var sýknað af skaðabótakröfu Sigurðar Hreinssonar þar sem honum hafði ekki tekist að sýna með nægilegum hætti fram á tjón sitt. Neytendasamtökin, sem stóðu á bak við mál Sigurðar, hafa á undanförnum mánuðum bent á að á Íslandi skorti úrræði um hópmálssókn (e. class action). Er það mat samtakanna að slíkt úrræði hefði komið sér afar vel fyrir neytendur í olíumálinu.

Hópmálssóknir þekkjast sums staðar erlendis og þá einkum í skaðabótamálum þegar hópur fólks gerir skaðabótakröfu á hendur ákveðnum aðila. Úrræðið er án efa þekktast í Bandaríkjunum og hafa mörg stærstu skaðabótamála þarlendis verið rekin á grundvelli reglna um hópmálsókn.

Hópmálsóknir þar í landi í núverandi mynd byggjast á svokallaðri Reglu 23 í alríkislögum (e. Rule 23 of federal rules) frá árinu 1966, sem heimilar einum aðila eða fleirum að höfða mál fyrir hönd hóps manna ef um er að ræða „question of law or fact common to the class“. Að sjálfsögðu er einnig skilyrði um að aðilinn sem leiðir málsóknina eigi sjálfur hagsmuna að gæta. Sem fyrr segir eru mörg þessara stærstu skaðabótamála höfðuð á grundvelli þessara reglna, en úrrræðið hefur einnig komið við sögu í hinum ýmsu mannréttindamálum.

Þegar að um skaðabótamál er að ræða höfða nokkrir aðilar mál fyrir hönd hóps manna og krefjast bóta fyrir hönd alls hópsins. Kröfur aðilanna verða að vera af sömu rót runnar, til dæmis að þær sé að rekja til sama bótaskylda atvikisins. Nauðsynlegt er að láta allan hópinn vita en ekki þarf samþykki allra. Í þessum málum geta tjónþolar skipt þúsundum og kröfufjárhæðir verið gríðarlega háar. Dómstóll verður að samþykkja að umræddur hópur eigi eitthvað sameiginlegt til þess að geta höfðað mál í sameiningu. Þetta er oftast heimilað ef málsóknin leiðir til þess að einungis þurfi að skera úr um sönnunaratriði varðandi bótaskyldu gagnvart mörgum aðilum einu sinni – til dæmis mengunarslys sem veldur veikindum á fólki. Söguþráðurinn í hinni frægu kvikmynd um Erin Brockovich var einmitt eitthvað á þá leið, en sú mynd var byggð á sönnum atriðum og sýnir þetta úrræði á ágætan hátt.

Hópmálsókn er afar vandmeðfarið úrræði. Með slíku úrræði er óskipulögðum hópi manna, til dæmis reykingamönnum eða offitusjúklingum, fengið tæki í hendur til að höfða mál líkt og um skipulögð félög eða samtök væri að ræða. Mál þessi hafa reynst bæði flókin og erfið. Í Bandaríkjunum hefur það verið nokkrum erfiðleikum háð hvernig skilgreina eigi „hópinn“. Þá hafa verið nefnd vandkvæði við það að halda öllum meðlimum hópsins nægilega upplýstum um gang mála og hvernig aðkomu hvers og eins að málinu skuli háttað. Ennfremur hvað gera skuli við þá meðlimi hópsins sem neita að taka þátt í málsókninni og vilja jafnvel höfða mál á eigin spýtur.

Bandaríkjamenn hafa rökstutt reglur um hópmálsókn að með því sé komið í veg fyrir fjöldamörg mál þegar hægt er að skera úr álitaefninu á einu bretti. Þá er afar dýrt að höfða mál í Bandaríkjunum og ekki á færi allra, enda ber hvor aðili sinn málskostnað burtséð frá lyktum máls. Algengt er að lögmenn taki að sér mál sem þessi gegn vilyrði um stórt hlutfall af bótunum.

Undirrituð er ekki jafn sannfærð og Neytendasamtökin um að úrræði sem þetta eigi heima í íslensku réttarfari. Aðgangur fólks að dómskerfinu er ágætur. Þótt dómstólaleiðin sé kostnaðarsöm þá eiga Íslendingar eflaust langt í land með að ná öðrum þjóðum í þeim efnum. Hér á landi er þeim er málið vinnur oftast dæmdur málskostnaður, enda þótt raunverulegur kostnaður við málssókn sé jafnan mun hærri. Þá eru alltaf einhverjir sem falla undir skilyrðin um gjafsókn og ekki má heldur gleyma því að oft eru stórir bakhjarlar að baki málsaðilum í málum – til dæmis stéttarfélög eða önnur félög. Loks verður það að teljast afar ólíklegt fólksfæðarinnar vegna að svo mikill fjöldi samskonar mála flæði yfir dómstólana að það réttlæti úrræði um hópmálsókn.

Hitt er svo annað mál að vel getur verið að einstaka sinnum komi fram mál hér á landi þar sem réttast væri að óskilgreindur hópur manna gæti sótt málið. Slík heimild yrði þó að vera mjög þröng, enda viljum við væntanlega ekki fara að sjá holskeflu mála, þar sem hinir og þessir óskilgreindu „hópar“ teldu á rétti sínum brotið. Dómstólaleiðin á alltaf að vera síðasta úrræðið.

Latest posts by Fanney Rós Þorsteinsdóttir (see all)