Áframhaldandi óþarfar fórnir á Suðurlandsvegi?

Ég hef líklega ekki verið meira en ellefu ára gömul þegar ég skrifaði undir minn fyrsta undirskriftarlista. Krafan hljóðaði upp á tvöföldun Suðurlandsvegar og ég var þess fullviss að vegurinn yrði tvöfaldaður, upphitaður og upplýstur áður en blekið þornaði á undirskriftalistanum. Síðan eru liðin ellefu ár og enn er safnað undirskriftum til stuðnings þessu máli.

Ég hef líklega ekki verið meira en ellefu ára gömul þegar ég skrifaði undir minn fyrsta undirskriftarlista. Krafan hljóðaði upp á tvöföldun Suðurlandsvegar og ég var þess fullviss að vegurinn yrði tvöfaldaður, upphitaður og upplýstur áður en blekið þornaði á undirskriftalistanum. Síðan eru liðin ellefu ár og enn er safnað undirskriftum til stuðnings þessu máli.

Á þeim tíma sem liðinn er hafa þúsundir slysa orðið á Suðurlandsveginum og hundruð vegfaranda slasast þar, margir mjög alvarlega. Samkvæmt opinberum tölum hafa 52 Íslendinga beðið bana í slysum á Suðurlandsveginum frá árinu 1972. Á síðustu 16 árum hafa 1222 einstaklingar slasast í samtals 2576 umferðarhópum á þessum hættulega vegkafla. Þessi háa slysatíðni er ekki tilviljun. Suðurlandsvegurinn er fjölfarnasti fjallvegur Íslands og þótt víðar væri leitað. Þar eru veður oft válynd og aðstæður til akstur mjög erfiðar.

Umferðin á veginum hefur aukist gríðarlega frá ári til árs og hefur á síðustu þremur árum aukist um 20-30%. Nú fara um 11000 bílar á dag um Suðurlandsveg yfir sumartímann. Þegar ákveðið var að ráðast í tvöföldun á Reykjanesbrautinni fyrir fimm árum fóru að meðaltali 8000 bílar á dag um þann veg. Umferðin um Suðurlandsveg nú er því 35% meiri en hún var á Reykjanesbrautinni þegar tvöföldun hennar var ekki talin þola neina bið.

Á sama tíma og samgönguyfirvöld neita að horfast í augu við staðreyndir málsins og tryggja öryggi vegfaranda, eru milljarðar settir í framkvæmdir sem engin réttlæting er fyrir. Þeir sjö til átta milljarðar sem nú á að setja í Héðinsfjarðargöng myndu nægja til að tvöfalda Suðurlandsveginn og bæta umferðaröryggi þar stórkostlega.

En á meðan ríkisvaldið dregur lappirnar draga einkaaðilar vagninn í þessu máli. Sjóvá hefur ásamt sveitarfélögum á Suðurlandi stofnað einkahlutfélagið Suðurlandsvegur ehf. með það markmiði að tvöfalda og lýsa upp Suðurlandsveg í einkaframkvæmd. Ein leið í þeim efnum er að ríkisvaldið fjármagni framkvæmdina með svonefndum skuggagjöldum, þ.e. að framkvæmdaraðilinn fái greiðslur frá ríkinu miðað við umferð um veginn. Ásetningur Sjóvár segir sína sögu um hagkvæmni þessarar framkvæmdar, því fyrirtæki í samkeppnisrekstri eru ekki áfjáð í að leggja í óarðbærar fjárfestingar. Hefur eitthvert einkafyrirtæki lýst yfir áhuga sínum á að koma að fjármögnun Héðinsfjarðargangna?

Aðkoma Sjóvár, undir forystu Þórs Sigfússonar forstjóra, sýnir líka þá trú sem einkaaðilar hafa á framtíðaruppbyggingu á Suðurlandi. Tvöföldun Suðurlandsvegar er ekki forsenda þeirrar uppbyggingar – hún er þegar hafin af miklum krafti – heldur óhjákvæmileg afleiðing. Sístækkandi atvinnusvæði suðvesturhornsins er staðreynd og engin byggðasjónarmið breyta nokkru þar um. Fyrirtæki á Suðurlandi munu eflast og umferð um Suðurlandsveg mun halda áfram að aukast. Ólíklegt er hins vegar að Hellisheiðin taki miklum breytingum á næstu árum og telja verður hæpið að íslenskt veðurfar á fjöllum batni mikið.

Þetta þýðir einfaldlega að ef ekkert verður aðhafst verða fórnir vegfarenda um Suðurlandsveg enn meiri á næstu ellefu árum en þær hafa verið frá því að ég og fleiri skrifuðum undir kröfu um úrbætur fyrir réttum ellefu árum.

Ég bendi á vefinn sudurlandsvegur.is fyrir þá sem vilja kynna sér málið frekar.

Latest posts by Kristín Hrefna Halldórsdóttir (see all)