Út yfir allan þjófabálk

Skýrsla nefndar um fjármál flokkanna var kynnt í gær. Lagt er til að nánast verði skrúfað fyrir styrki einstaklinga og fyrirtækja til flokka og stjórnmálamanna og ákveðið með lögum hvað megi eyða miklu í prófkjör. Núverandi stjórnmálamenn styrkja stöðu sína verulega samkvæmt reglunum en þeim sem á eftir koma er gert erfitt um vik. Aðdragandinn að þessum breytingum vekur spurningar – hvað hefur nefndin fyrir sér í því að auðmenn sæki í auknum mæli í áhrif í stjórnmálalífinu? Engin dæmi eru nefnd – nefndinni finnst það bara liggja í augum uppi. Þeir eru margir sem telja að einhverjar reglur eigi að gilda um fjármál flokka. En tillögur nefndarinnar taka út yfir allan þjófabálk.

Skýrsla nefndar um fjármál stjórnmálaflokkanna var kynnt í gær. Óhætt er að taka undir þau orð sem forsætisráðherra lét falla að skýrslan og það samkomulag sem náðst hefur marki nokkra grundvallarbreytingu í þessum málum hér á landi. Við höfum nánast engar reglur haft um fjármál stjórnmálaflokka og skerum okkur úr hvað það varðar. Flest ríki Evrópusambandsins hafa slíkar reglur og strangar reglur um framlög til stjórnmálamanna- og flokka eru í gildi í Bandaríkjunum.

Í stuttu máli felur niðurstaða nefndarinnar og frumvarpsdrög sem fylgja með að nánast er skrúfað fyrir framlög einstaklinga og fyrirtækja til stjórnmálaflokka og sett hámark á kostnað í prófkjörum. Í staðinn fá stjórnmálaflokkar hækkuð framlög úr ríkissjóði.

Í jafnstuttu máli má segja að reglurnar styrki stórkostlega stöðu þeirra flokka og stjórnmálamanna sem nú sitja á þingi eða í sveitarstjórnum á kostnað væntanlegra keppinauta. Reglurnar eru lýðræðinu ekki til framdráttar.

Flokkarnir njóta samkvæmt tillögunum opinberra styrkja í auknum mæli. Sitjandi stjórnmálamenn geta andað léttar fyrir næstu hrinu prófkjöra, því þeir geta treyst því að atlögurnar að þeim verða máttlausari, verr auglýstar og líklegri til að mistakast, enda hafa þeir sem bjóða sig fram í fyrsta sinn eða sækjast eftir aukinni ábyrgð færri tækifæri til að auglýsa, kynna sig, gefa út blöð og bæklinga, hringja í kjósendur, reka kosningamiðstöð, standa fyrir atburðum, halda úti heimasíðu og svo framvegis enda kostar þetta allt saman peninga. Í frumvarpsdrögum nefndarinnar hefur verið sett upp reikningsformúla fyrir hámark á kostnað í prófkjörum, sem er svo flókin að harðsvíruðustu skriffinnar ríkisins ættu að roðna, en í henni felst að hámarkskostnaður við prófkjör í Reykjavík verður um 7,5-8 milljónir en nokkru lægri í öðrum kjördæmum. Hið opinbera hefur þannig ákveðið í eitt skipti fyrir öll hvað slík prófkjörsbarátta megi kosta og það verður beinlínis lögbrot að eyða umfram þetta hámark. Og hvað ætli gerist ef frambjóðandi eyðir of miklu í baráttuna sína? Ef hann t.d. ákveður í hita leiksins að kaupa heilsíðuauglýsingu í dagblaði daginn fyrir prófkjör og fari þar með yfir hin leyfilegu mörk kostnaðar? Missir hann sætið sitt – eða verður honum stungið í fangelsi? Hann er jú orðinn lögbrjótur…

Þeir stjórnmálamenn sem gegna trúnaðarstörfum núna fá hins vegar sterkari vígstöðu. Við getum því búist við því þegar dregur að prófkjörum muni ráðherrar og rótgrónir stjórnmálamenn verða duglegri en nokkru sinni fyrr við að setja skattfé okkar borgaranna í hin ýmsustu gæluverkefni á sínum vegum og kynna á vandlega úthugsuðum tímapunktum. Með því móti fá þeir nafnið sitt í fjölmiðlum með jákvæðum formerkjum – verðmæti sem skipta miklu máli í slíkri baráttu.

Með sama móti styrkist staða þeirra stjórnmálaflokka sem fyrir eru. Framlög til þeirra hækka verulega. Þetta felur í sér að auglýsingaherferðir flokkanna í kosningum, barmmerkin, kaffið, fría kexið og allt hitt verður enn í meira mæli fjármagnað af skattféi allra landsmanna. Að sama skapi skekkist staðan fyrir ný framboð og flokka. Flokkar og félög, sem huga að framboðum, eins og t.d. Framtíðarlandið, mega núna búa við ríkisstyrkta keppinauta í stjórnmálum. Verði t.d. af framboði félagsins til þings í vor mun mikill tími og orka fara í að safna fjármagni til að standa undir kostnaði við kosningabaráttuna – vinna sem aðrir flokkar þurfa ekki að fara út í. Auglýsingaherferð Framsóknarflokksins á Austurlandi fyrir næstu kosningar mun trúlega ganga út á að auglýsa gagnsemi og kosti Kárahnjúkavirkjunar og menn geta velt því fyrir sér hvort þar með verði ekki náð nýjum hæðum í pólitískri fyrirgreiðslu og sjálftöku – ríkisstyrkt kosningabarátta flokks sem stærir sig af ríkisstyrktum iðnaði. Aumingja Andri Snær.

Það sem kannski stingur mest í augu við þetta mál allt saman er aðdragandinn. Ekki eru mörg ár síðan sambærileg nefnd var starfandi og komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri tilefni til að setja reglur um fjármál flokkanna. En nú kveður við nýjan tón – jafnvel svo nýjan tón að Kjartan Gunnarsson, varaformaður nefndarinnar, sem hefur löngum talað gegn reglusetningu af þessu tagi, kom fram í fjölmiðlum í gærkvöldi og kvað mikilvægt að reisa skorður að „ofursterk fyrirtæki fjárhagslega og ofurefnaðir einstaklingar geti með fjárframlögum haft veruleg áhrif á stjórnmálalífið og stjórnmálastarfsemi í landinu“. Í viðtali við Morgunblaðið fyrir rúmum fimm árum sagði Kjartan hins vegar: „Ég hef verið þeirrar skoðunar lengi að það þurfi ekki að setja neinar sérstakar reglur eða lög um fjármál stjórnmálaflokka. Fjármál þeirra lúta sömu reglum og fjármál annarra fjöldasamtaka í landinu.“

Hvers vegna þessi stefnubreyting núna? Þessi spurning á raunar við um alla flokkana – þurfa þeir ekki að útskýra hvers vegna þörf sé á þessari kúvendingu? Hvers vegna skiptum við úr ástandi þar sem engin lög gilda yfir í regluverk sem setur geysilega stífar skorður við framlögum til stjórnmálaflokka- og manna? Munu stjórnmálamenn, sem eru svona áfjáðir í að losna undan þessu fargi peningamanna, stíga fram í kjölfar þess að lögin taka gildi og gera okkur grein fyrir því hverjir hafi verið að bera á þá fé og hverjum þeir hafi verið að gera greiða í staðinn? Trúlega ekki. Engin slík dæmi liggja til grundvallar niðurstöðu nefndarinnar. Það eina sem við getum byggt á er að nefndin telur að sífellt fleiri fyrirtæki og einstaklingar hafi fjárhagslega burði til að kosta baráttu flokka eða einstaklinga. Raunar tekur nefndin einnig fram í skýrslu sinni að með þeim lagabreytingum sem orðið hafa hér á landi undanfarin ár, m.a. með því að skera á tengsl viðskiptalífsins og stjórnmála hafi dregið stórlega úr hættu á spillingu tengdri stjórnmálastarfsemi. En samt er þetta niðurstaðan.

Frelsi manna til að styrkja stjórnmálaflokka og stjórnmálamenn á að vera mikið. Stjórnmálamenn og flokkar hafa hvað sem öðru líður mikil völd og áhrif og við eigum að geta haft sem mest áhrif á hverjir sitja í okkar umboði. Út frá hættu á hagsmunaárekstum kann vissulega að vera réttlætanlegt að takmarka þetta frelsi að einhverju leyti, t.d. með því að gera framlög upplýsingaskyld. En þegar jafnmikilvæg réttindi borganna eru skert – og það með jafnviðamiklum hætti og nefndin leggur til – verður raunveruleg ástæða að búa þar að baki og útfærslan að vera í einhverju samhengi við tilefnið.

Árni Helgason skrifar

Árni hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.