Fimleikar í fjölmiðlum

Upp á síðkastið hafa verið í fréttum ásakanir um harðræði fimleikaþjálfara á Íslandi. Ekki skal draga úr alvöru þess ef börn í íþróttum eru beitt harðræði og ber að taka öllum ábendingum um slíkt alvarlega. Hins vegar virðast næstum einu skiptin sem fjölmiðlar hafa fyrir því að fjalla um fimleika er þegar eitthvað slæmt kemur upp.

Upp á síðkastið hafa verið í fréttum ásakanir um harðræði fimleikaþjálfara á Íslandi. Ekki skal draga úr alvöru þess ef börn í íþróttum eru beitt harðræði og ber að taka öllum ábendingum um slíkt alvarlega. Hins vegar virðast næstum einu skiptin sem fjölmiðlar hafa fyrir því að fjalla um fimleika er þegar eitthvað slæmt kemur upp.

Hafa ber í huga að til að ná árangri í fimleikum þarf mikla þrautseigju og sjálfsaga. Línan milli harðræðis og aga getur því oft á tíðum virst óskýr fyrir þá sem ekki þekkja til. Í fimleikum læra börn að þekkja sína eigin styrkleika og að beita þeim sjálfsaga sem nauðsynlegur er. Að þessu búa börn í framtíðinni þegar þau þurfa að takast á við lífið.

Í ár eru 30 ár liðin síðan Ólympíuleikarnir voru haldnir í Montreal í Kanada. En á þeim leikum fangaði lítil 14 ára fimleikastúlka athygli fólks út um allan heim þegar hún skráði nafn sitt á spjöld sögunnar með frábærum æfingum sem tryggðu henni einkunnina 10 í fyrsta sinn í sögu fimleikanna.

Þessi stjarna Ólympíuleikanna 1976 var rúmensk stúlka að nafni Nadia Comaneci. Hún var alin upp í smábænum Onesti í Rúmeníu, þar sem tilvonandi þjálfari hennar, Bela Karolyi, uppgötvaði hana þegar hún var 7 ára gömul. Hann er í dag einn frægasti fimleikaþjálfari í heimi, en hann hefur auk Nadiu þjálfað margar skærustu stjörnunar í fimleikum.

Bela Karolyi hefur alla tíð verið þekktur fyrir þann járnaga sem hann beitir þær stelpur sem hann þjálfar og Nadia fór ekki varhluta af því. Langar og strangar æfingar þarf til að ná árangri og það var einmitt það sem hann lagði á Nadiu, enda átti hún eftir að uppskera í samræmi við það.

Nadia sló í gegn í leikunum og hafði undir lok þeirra fengið sjö tíur alls og varð hún alþjóðleg stjarna á einni nóttu. Henni reyndist þó erfitt að fylgja árangrinum eftir þar sem dýrmætur æfingatími fór í sjónvarps – og útvarpsviðtöl. Hins vegar eftir nokkur ár og slæmt gengi náði hún að rífa sig upp með mikilli þrautseigju og mætti sterk til leiks árið 1979 og endurheimti titil sinn sem skærasta stjarnan í fimleikum á þessum tíma.

Þessi örstutta frásögn af Nadiu Comaneci er til að benda á þá vinnu sem fimleikafólk víðsvegar um heim leggur á sig, þó að langfæstir fái nokkurn tímann að upplifa það að keppa á Ólympíuleikum. Mjög margir stunda fimleika á Íslandi í dag og er íþróttin í mikilli sókn. Íslenskir iðkendur leggja virkilega mikið á sig og er það miður þegar fjölmiðlar draga upp dökka mynd af því afreksfólki sem Ísland býr yfir eða fjalla hreinlega ekki um það.

Ekki þótti til dæmis sérstök ástæða til að fagna sérstaklega þeim stórkostlega árangri þegar Sif Pálsdóttir varð Norðurlandameistari í fimleikum kvenna fyrst Íslendinga fyrr á þessu ári. Eða þegar lið Gerplu náði öðru sætinu á Evrópumótinu í hópfimleikum nú fyrir skemmstu sem er besti árangur sem íslenskt lið hefur náð í hópfimleikum. Hins vegar er það sjálfsagt mál að taka á móti Unni Birnu fegurðardrottningu og Magna í Smáralindinni með pompi og prakt eftir afrek þeirra.

Latest posts by Helga Lára Haarde (see all)

Helga Lára Haarde skrifar

Helga Lára hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.