Ögmundur, stéttarfélög og fjármál stjórnmálaflokkanna

Í samráði, sátt og sérhagsmunabaráttu hefur verið ákveðið að ríkisvæða að stórum hluta þá stjórnmálaflokka sem nú eru starfandi á Íslandi. Á það hefur verið bent víða að vægi hliðarsamtaka sem berjast fyrir sameiginlegum hagsmunum eða í þágu ákveðinna stjórnmálaflokka muni nú aukast. Ögmundur Jónasson þarf að minnsta kosti ekki að hafa neinar áhyggjur. Hann er með landssamtök launafólks ríkisins á bakvið sig. Þau nýtir hann sér óspart.

Félagafrelsi er tryggt í 74. gr. stjórnarskrár íslenska lýðveldsins. Það er einnig tryggt í 11. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu sem Ísland er aðili að og lögleiddur hefur verið hér á landi. Í félagafrelsinu felst ekki einungis rétturinn til að stofna og vera aðili að félögum með lögmædd markmið heldur einnig að fá að standa utan hvers kyns félaga – hið svokallaða neikvæða félagafrelsi.

Um 85% íslendinga voru í stéttarfélögum árið 2002 samkvæmt Hagstofunni. Það er afar hátt hlutfall sem líklega kemur til þess að stéttarfélögin hafa með samningum komið á nauðungarkerfi. Viljir þú vinna á ákveðnum vinnustað, eða svæði, við ákveðna vinnu verður þú að vera í tilteknu stéttarfélagi. Þetta kalla forkólfar stéttarfélaga forgangsréttarákvæði. Viljir þú standa utan félagsins er í flestum tilfellum leyfilegt að greiða „vinnuréttargjald“ fyrir að standa utan stéttarfélagsins, sem er jafn hátt hefðbundnu iðgjaldi. Þetta greiða menn fyrir að láta aðra semja fyrir sig um kaup og kjör. Því samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 55/1980 eru launagreiðendur skyldugir til að greiða iðgjald af launum starfsmanns til „viðkomandi stéttarfélags“, jafnvel þótt það sé án vilja launþegans. Engu skárri er „skatturinn“ sem innheimtur er til að fjármagna Samtök Iðnaðarins.

Íslendingar virðast nokkuð vanir því að þurfa sækja upphefð sína og réttindi til útlanda. Svo verður væntanlega einnig með þau sjálfsögðu mannréttindi að geta staðið utan stéttarfélags. Í janúar féll dómur í máli tveggja Dana fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. Annar þeirra hafði verið neyddur til að greiða gjald til stéttarfélags sem hafði pólitísk afskipti, líkt og þau íslensku. Þeim pólitísku afskiptum var hann ekki fylgjandi. Hinn var ekki fylgjandi aðferðum stéttarfélagsins, en ágreiningslaust var að hann myndi missa vinnuna ef hann reyndi að skipta um stéttarfélag. Dómstólinn taldi um brot 11. gr. sáttmálans að ræða. Í rökstuðningi sínum gerir dómstóllinn ekki greinarmun á félagaskyldu eða forgangsréttarákvæðum. Hann telur einnig að ekki sé tækt að menn séu látnir greiða til félaga sem síðan reka áróður sem greiðendurnir eru ósammála.

Samkvæmt 47. gr. laga nr. 70/1996 eru það stéttarfélög eða samtök þeirra sem gera kjarasamninga við ríkið um laun félagsmanna sinna. Ekki þeir sjálfir. Í forsvari fyrir samtök stéttarfélaga opinberra starfsmanna er Ögmundur Jónasson þingmaður Vinstri Grænna. Erfitt fyrir er fyrir hið óháða og meðvirka auga að sjá hvar þingmaðurinn Ögmundur endar og formaður BSRB byrjar. Kannski fyrir hann sjálfan og starfsmenn BSRB líka? Fyrir okkur hinum er þetta sami maðurinn.

Í hverri viku fæ ég sent fréttabréf Ögmundar. Þau eru nú orðin 122. tbl. Þau tilgreina hans pólitísku sjónarmið sem einnig má finna á www.ogmundur.is, heimasíðu og málgagns Ögmundar Jónassonar. Fréttabréf þessi, sem mér hafa borist, eru þó ávallt send frá Sigurði Á. Friðþjófssyni (safi@bsrb.is). Á heimasíðu BSRB – www.bsrb.is – undir starfsmenn, má sjá að Sigurður Á Friðþjófsson er upplýsinga og fræðslufulltrúi BSRB. PR-maður eins og það heitir á silkijakkafatamáli. Hvernig stendur á því að starfsmaður BSRB er að vinna fyrir þingmanninn Ögmund Jónasson? Eru allir greiðendur nauðungargjalda BSRB sáttir með það að fé þeirra sé eytt í pólitískan áróður fyrir Ögmund og Vinstri Græna? Í nýjasta fréttabréfinu er deilt á Sturlu Böðvarsson samgönguráðherra, bankanna, Ísrael og fleira. Ég efa það að allir félagsmenn BSRB séu sammála þessum sjónarmiðum. Fyrst Ögmundur notar PR mann BSRB án þess að skammast sín, hvar stoppar hann þá? Hversu mikið af vinnu BSRB og Vinstri Grænna má tengja saman að hans mati? Ögmundur er gjarn á að segja frá að hann taki ekki krónu fyrir störf sín fyrir BSRB. Það má vera og göfugt er það. Stundum er samt betra að fá annað en krónur og aura.

Í síðustu Alþingiskosningum árið 2003 fengu Vinstri Grænir 16.129 atkvæði. Félagar BSRB voru í ársbyrjun 2006 um 18.000 í 28 aðildarfélögum. Svo að nokkuð ljóst er að Ögmundur talar ekki fyrir munn allra félagsmanna BSRB þegar hann notar samtökin til að dreifa pólitískum boðskap sínum. Jafnvel þótt allir kjósendur VG væru félagar BSRB.

Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp um fjármál stjórnmálaflokka. Sumt verður þó að öllum líkindum áfram löglegt, en siðlaust.

Ekki skiptir öllu máli hvað lögin segja á hverjum tíma. Í grunninn er þetta spurning um réttlæti og tillitssemi. Ögmundur, forsvarsmenn Samtaka Iðnaðarins og forsvarsmenn ASÍ vita að í þeirra röðum er fólk sem er ekki sammála þeirra pólitísku skoðunum. Sama hversu sannfærðir menn geta verið um eigin réttmæti pólitískra sjónarmiða þá verða þeir að virða afstöðu annarra. Menn geta rökrætt og rifist en það verður að stoppa þar. Þegar menn hafa búið svo um hnútanna að taka þá minnihlutavernd úr félögum sínum sem mestu máli skiptir, þ.e. réttinn til að taka ekki þátt í félagi, finnst þeim þá eðlilegt kóróna óréttlætið með því að ganga erinda stjórnmálaflokks, nú eða stjórnmálamanns?

Áhugaverðir vefir:

http://www.bsrb.is
http://www.ogmundur.is
http://www.althingi.is
http://www.vg.is
http://www.asi.is

Latest posts by Ásgeir H. Reykfjörð (see all)