Ímynd lands í mynd

Ímyndaðu þér ímynd. Ímynd lands sem hefur upp á óspillta náttúru að bjóða ásamt hreinu vatni, nægu landflæmi, góðu innra skipulagi og lítilli spillingu.

Ímyndaðu þér ímynd. Ímynd lands sem hefur upp á óspillta náttúru að bjóða ásamt hreinu vatni, nægu landflæmi, góðu innra skipulagi og lítilli spillingu. Landið er eyja, fjarri öðrum mannabyggðum og þar til fyrir nokkrum áratugum höfðu sárafáir utan innfæddra sótt það heim. Landið byggði lengi vel afkomu sína á auðlindum náttúrunnar og var háð fiskinum í hafinu í kringum eyjuna. Auk þess gátu landsmenn gengið að gnótt ómengaðs vatns og ódýrri orku úr vatnsaflsvirkjunum.

Það var eins og þetta land hafi verið leyndardómur sem aðrir íbúar hnattarins uppgötvuðu seint á síðustu öld þegar ferðamannastraumur til landsins jókst mikið. Landinu var jafnframt veitt sífellt meiri eftirtekt í erlendum fjölmiðlum ekki síst fyrir ómengaða náttúru og stórbrotið landslag, ólíku því sem þekktist annars staðar. Svo fór að landið komst í tísku. Ekki er ofsögum sagt að stór ástæða þess hafi verið jákvæð ímynd af landinu sem birtist í vinsælum kvikmyndum. Stórbrotið landslag fór ekki fram hjá neinum í 007 myndunum A View to a kill og Die another day auk þess sem myndir á borð við Tomb raider og Batman begins vöktu áhuga áhorfenda á því að kynnast þessu landi enn frekar. Á tiltölulega skömmum tíma varð til í hugum fólks um allan heim ímynd af landi sem þótti flott og öðruvísi. Svo sterk ímynd að jafnólík fyrirtæki og banki og plötuútgáfa frá landinu reiða sig á ímyndina til að selja sínar vörur. Annars vegar hávaxtainnlánsreikninga og hins vegar hljómplötur hnátubands.

Ímyndaðu þér ímynd. Ímynd lands sem í mynd ber ekki virðingu fyrir réttindum kvenna og fatlaðra. Land þar sem þjóðin sem það byggir lifir við sárafátækt, býr innan um húsdýr og fær ekki notið nýjustu tækni. Land sem fyrir 16 árum var ekki til og í dag margir vita sáralítið um annað en að þaðan kemur Borat Sagdiyev. Á mjög skömmum tíma varð til ímynd í mynd af landi sem þótti afturhaldssamt, sorglegt og afar fráhrindandi heim að sækja heim.

Lesendur hafa vafalaust glöggvað sig á því að fyrra landið sem vísað er í hér að ofan er Ísland og það seinna Kasakstan. En það eru ólík hlutskipti ríkisstjórna þessara landa í ímyndarmálum. Eðli málsins samkvæmt þarf ríkisstjórn Kasakstan að leggja sig alla fram við að rétta af ímynd landsins sem virðist alvarlega sködduð á alþjóðavettvangi. Hins vegar virðist ríkisstjórn Íslands taka sitt hlutverk lítt alvarlega og hefur sýnt litla tilburði við að styðja við ímynd landsins nema síður sé. Hjálpa þar ekki vafasamar ákvarðanir eins og að hefja hvalveiðar á nýjan leik og áframhaldandi stóriðjustefna sem að óbreyttu gæti gengið langt á ósnortna náttúru landsins auk þess að auka útblástur gróðurhúsalofttegunda stórkostlega.

Eða er kannski bara um ímynd í mynd að ræða sem skiptir engu máli í raunveruleikanum? Er það kannski algjör óþarfi hjá ríkisstjórn Kasakstan að telja heimsbyggðinni trú um að Kasakstan Borats sé fjarri hinu raunverulega Kasakstan? Er það á sama hátt óþarfa áhyggjur að ríkisstjórn Íslands sé að skerða ímynd landsins með ákvörðun um hvalveiðar og stóriðjustefnu? Pæling.

Latest posts by Þórður Heiðar Þórarinsson (see all)