Sir Alex

Síðastliðin mánudag voru 20 ár frá því að maður að nafni Alexander Chapman Ferguson tók við stjórnartaumunum á hinu fornfræga enska knattspyrnuliði Manchester United. Liðið mátti muna sinn fífil fegurri og ljóst var að nýr framkvæmdastjóri átti ærið verk fyrir höndum. Nú tuttugu árum síðar er löngu orðið staðfest að Ferguson var svo sannarlega rétti maðurinn í starfið.

Síðastliðin mánudag voru 20 ár frá því að maður að nafni Alexander Chapman Ferguson tók við stjórnartaumunum á hinu fornfræga enska knattspyrnuliði Manchester United. Liðið mátti muna sinn fífil fegurri og ljóst var að nýr framkvæmdastjóri átti ærið verk fyrir höndum. Nú tuttugu árum síðar eru löngu orðið staðfest að Ferguson var svo sannarlega rétti maðurinn í starfið.

Þegar Alex Ferguson tók við Manchester United í nóvember 1986 lá liðið í neðri hluta deildarinnar. Það var greinilegt að mikilla breytinga var þörf, bæði á líkamlegu og hugarfarslegu ástandi leikmanna liðsins. Á þessu fyrsta tímabili náði Ferguson að stýra liðinu frá öldusjó fallbaráttunar og endaði liðið í 11. sæti. Það var þó ekki fyrr en eftir ríflega þrjú ár við stjórnvölinn sem áþreifanlegur árángur náðist er liðið vann ensku bikarkeppnina á vordögum 1990. Framhaldið er ævintýri líkast og er einhvert glæsilegasta sigurtímabil enskrar knattspyrnusögu.

Síðan Manchester United vann áðurnefndan bikarmeistaratitil árið 1990 hefur liðið landað hvorki fleiri né færri en 16 stórum titlum undir stjórn Ferguson. Átta sinnum hefur hann unnið ensku deildarkeppnina, fimm sinnum ensku bikarkeppnina (1990 titillinn meðtalinn), tvisvar sinnum enska deildarbikarinn, einu sinni Evrópukeppni Bikarhafa og rósin í hnappagatinu er að lokum sigur í Evrópukeppni Meistaraliða árið 1999. Þetta ár, þ.e. 1999, vann hann meðal annars hina eftirsóttu “þrennu” en þá stóð liðið uppi sem sigurvegari í ensku deildarkeppninni, enska bikarnum og Evrópukeppni Meistaraliða. Þessi ótrúlega sigurganga hefur tryggt Ferguson sæti sem sigursælasta framkvæmdastjóra enskrar knattspyrnusögu, til þessa tíma.

Þrátt fyrir sigursælan tíma þá hefur ferill Ferguson einnig verið þyrnum stráður. Í kjölfar þvílíkrar velgengni fylgja iðulega auknar kröfur og eiga aðdáendur Manchester United erfitt með að sætta sig við annað en titil á hverju ári. Einnig hefur hann verið gagnrýndur fyrir meðhöndlun á mörgum af stærstu stjörnum liðsins í gegnum árin. Frábærir leikmenn líkt og David Beckham, Roy Keane og nú síðast Ruud van Nistelrooy hafa yfirgefið félagið á heldur kaldranalegan hátt eftir að hafa átt í útistöðum við Ferguson. Með þessum rökum hafa margir haldið því fram að Sir Alex sé útbrunninn og undanfarin ár hafa gagnrýnendur hvatt hann til þess að setjast í helgan stein. Þessar mótbárur hafa þó hrundið af Ferguson líkt og vatn af gæs og ætíð hefur hann komið tvíefldur til baka. Sú staðreynd er góður vitnisburður um að hann hefur ávallt hugsað um hagsmuni heildarinnar í stað þess að einblína á einstaka stjörnuleikmenn liðsins. Yfirstandandi tímabil er góður vitnisburður um styrk Ferguson. Fyrir tímabilið var hann gagnrýndur harkalega fyrir söluna á Nistelrooy og töldu fróðir menn að liðið væri engan veginn í stakk búið til að gera alvarlega atlögu að enska meistaratitlinum. Það er skemmst frá því að segja að á þessari stundu trónir Manchester United á toppi ensku úrvalsdeildarinnar og hefur spilamennska liðsins verið með því allra besta sem sést hefur á undanförnum árum.

www.bbc.co.uk
http://en.wikipedia.org/wiki/Alex_Ferguson