Excel-ismi

Sumt fólk hefur gríðarlega mikla trú á sjálfu sér. Það er gott, ein verðmætasta eign hvers þjóðfélags er metnaðarfullt fólk uppfullt af óbeislaðri orku. En orkan er ekki alltaf vel nýtt.

Því miður gerist það stundum að klárt, metnaðarfullt fólk kemst að þeirri niðurstöðu að þeirra gáfur og orka sé best nýtt í það að ákveða fyrir aðra hvernig það getur haft það sem best. Þetta gerist iðulega án þess að viðkomandi hafi nokkurn tímann verið beðið um það.

Excelistar er nafn sem ég gef stundum ákveðnum hópi fólks sem ræðst gegn öllum vandamálum með excel töflureikni og fimm ára áætlanir að vopni í stað þess að gefa samkeppni og frelsi möguleika á að leysa sömu vandamál.

Excelistar eru nær allsstaðar. Í Alþjóðabankanum er fluggáfað hámenntað fólk með milljónir á mánuði í skrifstofum í Sviss að reikna út hvernig bæta skal hag fólks í fátækum löndum og verður svo undrandi þegar dæmið gengur ekki upp í raunveruleikanum.

Íslenska heilbrigðiskerfið er í gíslingu Excelista sem reyna hvað eftir annað að sannfæra fólk um að miðstýring sé eina stjórnleiðin og aukið frelsi muni leiða til þess að ríkt fólk muni njóta lúxus heilsugæslu í gullslegnum hátæknisjúkrahúsum í Grafarvogi á meðan fátækir íslendinar fara í leka hrörlega kofa í Breiðholtinu með nautheimskum læknum. Excel lausnin: sameinum spítala og byggjum risastórt miðstýrt sjúkrahús í miðri Vatnsmýrinni.

Það er hálfgerð Excel lykt af þeim rökum gegn hvalveiðum að það sé engin neysla á hvalkjöti í dag. Ætli sú staðreynd að það sé ekki veiddur hvalur hafi einhver áhrif á að menn neyti ekki hvals? Það var veiðibann á rjúpu fyrir skömmu síðan. Með sömu rökum (það borðaði enginn rjúpu á síðasta ári) hefði verið hægt að stinga upp á því að hefja ekki veiðar aftur?

Það sem Excelistar gleyma svo oft er að þrátt fyrir að þeim hafi tekist að reikna út endanlegt svar á ákveðnu dæmi miðað við stöðu og skoðanir á ákveðnum tímapunkti þá þýðir það ekki að fólk muni halda sínum skoðunum og áherslum í kjölfarið. Það er raunar nær alveg víst að skoðanir og smekkur fólks mun ávallt breytast og þróast. Fólki væri nær að vera ekki alltaf að reyna að ákveða fyrir hvort annað hvernig er best að lifa, til þess erum við of ólík.

Latest posts by Óli Örn Eiríksson (see all)

Óli Örn Eiríksson skrifar

Óli Örn hóf að skrifa á Deigluna í september 2004.