Sérðu virkjun eða moldviðri?

Umhverfismál verða sífellt fyrirferðarmeiri í samfélaginu enda er málaflokkurinn viðamikill og mikilvægur. Á síðustu misserum hefur umræða um umhverfismál verið frekar einhæf og nær eingöngu snúist um virkjanir og álver. Við eigum að fagna þeirri umræðu sem fram fer um umhverfismál en jafnframt verðum við að gæta að því að gleyma ekki öðrum hliðum er snerta þennan mikilvæga málaflokk eins og til dæmis landgræðslu og landnotkun.

Umhverfismál verða sífellt fyrirferðarmeiri í samfélaginu enda er málaflokkurinn viðamikill og mikilvægur. Á síðustu misserum hefur umræða um umhverfismál verið frekar einhæf og nær eingöngu snúist um virkjanir og álver. Við eigum að fagna þeirri umræðu sem fram fer um umhverfismál en jafnframt verðum við að gæta að því að gleyma ekki öðrum hliðum er snerta þennan mikilvæga málaflokk eins og til dæmis landgræðslu og landnotkun.

Landgræðsla
Jarðvegsrof er eitt stærsta vandamál okkar Íslendinga í umhverfismálum. Þrátt fyrir mikið og öflugt starf Landgræðslunnar að uppgræðslumálum, með dyggum stuðningi bænda, fyrirtækja og einstaklinga er mikið verk óunnið. Víða á Íslandi er gróður enn að eyðast og mikið þarf til að ná því markmiði að klæða landið gróðri. Á komandi misserum verðum við því að styðja enn frekar við þá bændur sem eru í samstarfi við Landgræðslunni um að endurheimta landkosti á jörðum sínum. Jafnframt verður að virkja landsmenn alla til að taka þátt í þessu stærsta umhverfisverndarverkefni Íslandssögunnar.

Landnotkun
Með aukinni uppbyggingu og ásókn í land þurfum við að svara ýmsum spurningum varðandi landnotkun. Mikilvægt er að nýta landið okkar vel og gæta þess að setja ekki slík höft á landnotkun og sölu eigna að þau takmarki eignarrétt landeiganda. Stór verkefni eru einnig framundan varðandi sorp- og frárennslismál, aðgengi ferðamanna að náttúruperlum okkar og skipulagsmál á fjölförnum ferðamannastöðum svo sem í Þórsmörk. Þessi verkefni verðum við að leysa í sátt við náttúruna og með hagsmuni okkar til lengri tíma litið að leiðarljósi. Við þurfum að einbeita okkur að því að ganga vel um landið okkar til að tryggja lífsgæði, ekki aðeins í dag, heldur um alla framtíð.

Suðurkjördæmi og framtíðin
Eitt mikilvægasta verkefni næstu ára er að móta þá stefnu sem gilda á um umhverfið okkar. Nýting náttúrunnar og náttúruvernd verða að spila saman að því markmiði að afkoma þjóðarinnar verði tryggð til framtíðar. Suðurkjördæmi er ríkt af náttúrulegum auðlindum og við verðum að nýta þær af skynsemi og gæta þess að náttúruverndarsjónarmið gleymist ekki.

Í hnotskurn
Eitt helsta viðfangsefni nýrrar kynslóðar stjórnmálamanna er að ná jafnvægi á milli nýtingar náttúruauðlinda og náttúruverndar. Við verðum að ná tökum á því jarðvegsrofi sem enn á sér stað á Íslandi. Umhverfið er okkar og við eigum að nýta það en jafnframt gæta þess að geta stolt skilað landinu af okkur til komandi kynslóða.

Latest posts by Unnur Brá Konráðsdóttir (see all)

Unnur Brá Konráðsdóttir skrifar

Unnur Brá hóf að skrifa á Deigluna í október 2004.