Íslenska leyniþjónustan

Nýlega var fjallað um stofnun íslenskrar leyniþjónustu á fundi Samtaka um vestræna samvinnu og Varðbergs. Þessar hugmyndir eru áhugaverðar en að ýmsu þarf að hyggja ef veita á stjórnvöldum slíkt vald.

Á fundi Varðbergs og Samtaka um vestræna samvinnu, sem haldinn var þann 11. september sagði Stefán Eiríksson, skrifstofustjóri í dómsmálaráðuneytinu, að eftirlit af því tagi sem fella mætti undir leyniþjónustustarfsemi væri nauðsynlegt hér á landi sem annars staðar og spurði hvort rétt væri að setja hér á landi sérstök lög um leyniþjónustustarfsemi íslenska ríkisins. Svipuð ummæli hafa verið höfð eftir Sólveigu Pétursdóttur, dómsmálaráðherra. Það er því greinilegt að í Dómsmálaráðuneytinu eru menn orðnir mjög spenntir fyrir þessari hugmynd.

Verði íslensk leyniþjónusta stofnuð og löggjöf sett um málaflokkinn mun margt breytast í eftirliti hins opinbera með hinum almenna borgara. Leyniþjónustur flestra landa eru svo til undanþegnar upplýsingaskyldu um rannsóknir sínar, notkun þeirra á opinberu fjármagni o.s.frv. Þetta er gert í nafni þjóðaröryggis. Ef leyniþjónustur þurfa síðan að upplýsa um eitthvað þá er það gert inni hjá lokuðum rannsóknarnefndum og ekkert sem þar fer fram fær að líta dagsins ljós. Þetta gengur svo langt að í sumum nágrannaríkjum okkar getur leyniþjónustan bannað fréttaflutning af málum sem henni tengjast.

Hugmyndin um stofnun leyniþjónustu á Íslandi er réttlætur með hryðjuverkaógn. Þetta er göfugur tilgangur sem gæti hugsanlega réttlætt stofnunina ef hægt væri að treysta því að íslensk leyniþjónusta yrði ekki notuð í vafasömum tilgangi. Sagan hefur nefnilega kennt okkur að það er auðveldlega hægt að misnota slíkar stofnanir til að traðka á mannréttindum borgaranna.

Þar stendur hnífurinn í kúnni. Eftir Falun Gong málið í sumar er einfaldlega erfitt að treysta íslenskum stjórnmála- og embættismönnum fyrir eigin leyniþjónustu og því gífurlega valdi sem henni fylgir. Íslensk stjórnvöld komu á fót fangabúðum í Njarðvík, stöðvuðu ferðamenn á grundvelli litarhafts, bönnuðu fólki að koma inn í landið á grundvelli trúar og lífsskoðana o.s.frv. o.s.frv. Þessi hegðun gefur ekki góð fyrirheit um starfsemi íslenskar leyniþjónustu ef af verður.

Samkvæmt málflutningi íslenskra stjórnvalda réttlættust aðgerðir þeirra í sumar af þjóðaröryggi og vernd allsherjarreglu. Ef íslensk stjórnvöld hefðu haft leyniþjónustu þegar kínverski forsetinn kom til landsins í sumar er hægt að fullyrða að henni verið beitt gegn iðkendum Falun Gong. Iðkendur Falun Gong ógnuðu nefnilega þjóðaröryggi! Í þessu sambandi er kaldhæðnislegt að Stefán Eiríksson skuli koma með tillögu um stofnun leyniþjónustu. Stefán var einmitt sá maður sem gekk einna harðast fram í Falun Gong málinu fyrir hönd stjórnvalda. Hann kom margoft fram í fjölmiðlum og reyndi að sannfæra íslensku þjóðina um það að Falun Gong iðkendur væru í raun og veru stórhættulegir og íslenska ríkinu stafaði ógn af nærveru þeirra.

Með leyniþjónustu hefði allt verið miklu auðveldara fyrir íslensk stjórnvöld. Þau hefðu t.d. getað látið „kínversku“ listana yfir Falun Gong meðlimi koma til lögreglu og tollgæslu í gegnum íslensku leyniþjónustuna. Þá hefði engin geta grennslast fyrir um uppruna listana í krafti leyndar vegna þjóðaröryggis. En eins og frægt er orðið þá voru „kínversku“ listarnir notaðir til að handtaka eða meina iðkendum Falun Gong inngöngu inn í landið. Þeir hefðu einnig getað látið íslensku leyniþjónustuna stjórna öllum vafasömu aðgerðunum gegn Falun Gong og komið þannig í veg fyrir fjölmiðlaumfjöllun um málið.

Því verður ekki neitað að það er hægt koma með ágætis rök fyrir leyniþjónustu hér á landi. Menn verða þó að gæta stillingar og yfirvegunar varðandi allar hugmyndir sem stórauka heimildir stjórnvalda til að ráðast eftirlitslítið inn í einkalíf borgaranna. Í því sambandi megum við ekki falla í sömu gryfju og Bandaríkin þar sem heimildir löggæslustofnanna til marvíslegra innrása í einkalíf borgaranna hafa verið auknar upp úr öllu valdi vegna hryðjuverkanna 11. september 2001. Er nú svo komið að Bandaríkin eru farin að minna illþyrmilega á gamla Austur-Þýskaland hvað snertir eftirlit með eigin ríkisborgurum og útlendingum.

Við megum ekki kalla yfir okkur slíkar takmarkanir á friðhelgi einkalífs eða öðrum réttindum nema af mjög gaumgæfðu máli. Slíkar takmarkanir ganga sjaldnast til baka. Það er hins vegar alveg ljóst að ef yfirvöld geta ekki komið fram við grundvallarmannréttindi af meiri virðingu en raun ber vitni þá er stofnun leyniþjónustu ekki áhættunnar virði. Hættan á misnotkun í framtíðinni er einfaldlega allt of mikil!

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.