Bindandi kosningaloforð

Í leikjafræði er vel þekkt að oft getur það skilað betri niðurstöðu ef leikmenn hafa þann möguleika að binda hendur sínar á trúverðugan hátt (credible commitment). Nú, þegar kosningar nálgast, og loforðaflaumurinn yfirtekur öldur ljósvakans er ástæða til að velta fyrir sér hvort stjórmálamenn eigi ekki skilið að hafa slíkan möguleika?

Í leikjafræði er vel þekkt að oft getur það skilað betri niðurstöðu ef leikmenn hafa þann möguleika að binda hendur sínar á trúverðugan hátt (credible commitment). Sem dæmi má nefna að ef aðilar í fákeppnisumhverfi ákvarða framleiðslu sína samtímis þá velja þeir allir að framleiða jafnmikið af vörunni. En ef einn aðilinn á kost á því að ákvarða framleiðslu sína á bindandi hátt og tilkynna hinum ákvörðunina áður en þeir taka sína ákvörðun, getur hann framleitt meira en hinir. Þótt verðið lækki við það hagnast hann þó meira en hann hefði gert ef allir hefðu valið samtímis.

Dæmið hér að ofan er svokallað Stackelberg fákeppnislíkan, og ávinningur þess sem getur tekið bindandi framleiðsluákvörðun byggir á því hvernig hagnaður ákvarðast í fákeppnisumhverfi. Engu að síður er það nokkuð algeng niðurstaða í leikjafræði, þótt hún virðist órökrétt í fyrstu, að ef einstaklingur á kost á því að gefa bindandi yfirlýsingar getur hann náð betri niðurstöðu en ef hann ætti ekki kost á því.

Það má því spyrja sig hvort ekki væri gott ef stjórnmálaflokkar gætu, til viðbótar við óbindandi yfirlýsingar, gefið yfirlýsingar sem þeir væru lagalega skyldaðir til að standa við að því gefnu að þeir kæmust í ríkisstjórn. Útfærslan gæti verið á ýmsan veg, en fyrsta skrefið er að átta sig á hvort þetta væri yfir höfuð heppilegt út frá leikjafræðilegu sjónarhorni. Niðurstaðan úr slíku mati fer eftir aðstæðum, og koma þrjú tilvik helst til greina.

1. Fólk er fífl
Þessu tilviki hefur einnig verið lýst með því að almenningur sé gleyminn, eða öðrum svipuðum orðatiltækjum. Megininntakið er samt það sama, nefnilega að fólk geri kerfisbundið þau mistök að trúa loforðum stjórnmálamanna, þrátt fyrir að engin rökrétt ástæða sé til að halda að þeir ætli sér að standa við þau. Ef þetta væri tilfellið gætu stjórnmálamenn sagt hvað sem er án þess að það hafa áhyggjur af afleiðingunum eftir kosningar.

2. Fólk trúir engu sem stjórnmálamenn segja
Hinar öfgarnar eru þær að fólk sé orðið svo þreytt á loforðagjálfri að það leiði yfirlýsingar stjórnmálamanna algerlega hjá sér. Ef þetta væri tilfellið gætu stjórnmálamenn líka sagt hvað sem án þess að hafa áhyggjur af afleiðingunum, því enginn væri að hlusta.

3. Fólk hefur efasemdir, en hlustar samt
Á milli öfganna eru þær aðstæður þar sem fólk hlustar á stjórnmálamenn, og þótt það trúi ekki öllu sem þeir segja lítur það á loforðin sem bjagað merki um hverjar fyrirætlanir stjórnmálamannsins eru. Stjórnmálamenn og kjósendur reyna að geta í eyðurnar og ákveða hvenær loforðasvik væru svo augljós að stjórnmálamenn myndu gjalda fyrir það.

Einungis í fyrsta tilfellinu myndi maður halda að stjórnmálamaður myndi afþakka þann valkost að geta gefið bindandi loforð til kjósenda. Í seinni tilfellunum (hvort sem fólk trúir engu eða fáu), hefði slíkur stjórnmálamaður forskot á aðra stjórnmálamenn, því fólk hefði mun ríkari ástæður til að trúa hans orðum en annarra. Ef allir stjórnmálamenn hefðu slíkan valkost er erfiðara að segja til um hverjir myndu hagnast – en þó er líklegast að þeir myndu hagnast mest sem segja oftast satt í dag. Þeir gætu gefið sömu loforð og í dag, en fólk myndi hlusta.

Hér hefur verið stiklað á stóru og lítið rætt um útfærslur. Eflaust velta einhverjir vöngum yfir því hver heppileg viðurlög væru við brotum á slíkum loforðum, og hegningarlagabálkurinn er að sjálfsögðu óheppilegur staður fyrir slíkar reglugerðir. En þó mætti hugsa sér leiðir til þess að refsingin hæfði glæpnum. Ein leið væri til dæmis sú að ef formleg, bindandi kosningaloforð væru svikin mætti krefjast kosninga eftir tvö ár í stað fjögurra. Aðrar útfærslur eru einnig hugsanlegar og auðvitað matsatriði að hversu miklu leyti stjórnmálamenn eiga að gjalda fyrir ósannsögli sína. En ef einhverjir stjórnmálamenn vilja virkilega taka ábyrgð á orðum sínum, hvers vegna ekki að leyfa þeim það?

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)