Skutullinn brýndur

Sjávarútvegsráðherra hefur tilkynnt að hann hafi heimilað hvalveiðar í atvinnuskyni á nýjan leik. Ljóst er að þessi ákvörðun vekur misjöfn viðbrögð, tilfinningasamir Ameríkanar fella tár en hvalveiðihaukarnir brýna skutulinn. Flestir sjá þó rök með og á móti þessari ákvörðun ráðherrans sem hefur raunar legið í loftinu um nokkurt skeið. En hvaða áhrif ætli þetta hafi á ferðamennaiðnað hér á landi og kynningu á íslenskum vörum erlendis? Og er markaður fyrir hvalkjötið?

Sjávarútvegsráðherra tilkynnti í gær að Íslendingar hygðust hefja hvalveiðar í atvinnuskyni á nýjan leik. Alþjóðlegt bann við hvalveiðum hefur verið í gildi frá árinu 1986 og frá árinu 1989 hafa hvalveiðar svo að segja ekkert verið stundaðar hér við strendur, þótt teknar hafi verið upp vísindaveiðar árið 2003 en með þeim stóð til að veiða alls 200 hvali á fjórum sumrum.

Nú hefur hins vegar ráðherra tekið af skarið, eins og hann hafði raunar áður lýst yfir að vilji hans stæði til, og ákveðið að leyfa hvalveiðar í atvinnuskyni. Hvalur 9 er kominn á miðin og sótthreinibrúsinn kominn á loft í hvalstöðinni í Hvalfirði.

Hvað þýðir þessi ákvörðun í raun? Þótt um sé að ræða tiltölulega fá dýr, níu langreyðar og 30 hrefnur miðað við þá tugi þúsunda hvala sem eru í sjónum er þetta stórt mál, pólitískt séð. Okkur Íslendingum ætti að vera ljóst að hvalveiðar eru umdeildar víða um heim og hjartans mál fyrir marga. Á sama hátt ætti það að vera ljóst að Íslendingar hafa lengi byggt afkomu sína á veiðum. Það skýtur að mörgu leyti skökku við að taka hvali sérstaklega út fyrir sviga varðandi þau dýr sem við veiðum og í raun mætti segja sem svo að hin eðlilega niðurstaða hlyti að vera á þá leið að við ættum að veiða hvali, nema sérstök rök leiði til annarrar niðurstöðu. Umræður hér heima varðandi hvalveiðar hafa í raun minnst snúist um eiginlegt réttmæti veiðanna heldur miklu frekar um áhrif slíkrar ákvörðunar varðandi annars vegar ferðamannaiðnaðinn hér á landi og hins vegar sölu á öðrum íslenskum sjávarafurðum á erlendum mörkuðum.

Ferðamönnum hefur fjölgað hér á landi undanfarin ár – og það þrátt fyrir að við höfum stundað vísindaveiðar á hvölum. Ferðamenn sækja líka Noreg og Japan heim, þótt báðar þessar þjóðir hafi stundað hvalveiðar í atvinnuskyni um árabil. Auðvitað eru þeir til sem haga ferðalögum sínum um heiminn út frá því hvaða þjóðir veiði hvali og hverjar ekki en almennt er það fjarstæðukennt að ætla að þorri heimsbyggðarinnar velji sér áfangastað út frá því hvort einstakar þjóðir veiði hval eða ekki. Flestir þeirra sem lesa þennan pistil hafa sennilega ferðast til landa þar sem stundaðar eru mun ógeðfelldari athafnir en hvalveiðar – ef þær teljast yfirhöfuð ógeðfelld athöfn. Staðreyndin er sú að flestir ferðamenn velja sér áfangastaði eftir áhugasviði sínu. Þeir sem vilja sjá norðurljósin og náttúru koma áfram til Íslands þó það fækki um 30 hrefnur á hafsvæðinu í kringum landið.

En setjum við viðskiptahagsmuni okkar í hættu, t.d. hvað varðar íslenskar sjávarafurðir á erlendri grundu, með því að hefja hvalveiðar í atvinnuskyni? Er líklegt að náttúruverndarsamtök í Evrópu beiti sér í þá veru? Eitthvað hefur verið um slíkar tilraunir en það er umhugsunarefni að hve miklu leyti við eigum að láta það stýra ferðinni hjá okkur. Aftur má benda á að bæði Norðmenn og Japanir hafa í mörg ár stundað hvalveiðar í atvinnuskyni án þess að bíða hnekki. Í leiðara Morgunblaðsins fyrir nokkrum vikum var lagt út frá því að við ættum ekki að storka alþjóðlegum umhverfisverndarsamtökum og þar af leiðandi láta hvalveiðar í atvinnuskyni eiga sig. Það verður auðvitað hver og einn að meta hve áhrif hugsanlegs þrýstings slíkra samtaka eigi að vera en gengur það upp að þau valdi því að þjóð eins og við geti ekki stundað eðlilegar veiðar? Það er að minnsta kosti hæpið.

Enn ein rökin gegn hvalveiðum sem stundum heyrast eru að það sé enginn markaður fyrir hvalkjöt, það seljist hreinlega ekki og engin ástæða til að fara út í hvalveiðar fyrst enginn vilji nú borða kjötið. Þessi rök ganga tæplega upp. Spurningin um hvort markaður sé fyrir ákveðinni vöru er eðli málsins samkvæmt ekki hægt að svara fyrirfram af embættismönnum og það þarf ef til vill ekki að undra að ákveðinn tíma taki að kynna aftur vöru sem ekki hefur verið í boði í um 20 ár. Ef ekki er markaður fyrir hvalkjöt, kemur það í ljós eftir að veiðar eru komnar í eðlilegt horf og sé ekki markaður fyrir þeim er engin ástæða til að halda þeim úti. Það mun einfaldlega ekki vera arðbært.

Það er hins vegar skynsamlegt hjá stjórnvöldum að fara varlega og halda fjölda hvalanna í lágmarki. Ætlunin er ekki að valda óþarfa moldviðri heldur einfaldlega að nýta sér sjálfsagðan rétt okkar til veiða í eigin lögsögu.

Árni Helgason skrifar

Árni hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.