Síðustu Sósíalistanir – Heilbrigðiskerfið?

Ísland hefur á undanfarinni öld stigið hvert skrefið á fætur öðrum í átt til velsældar og hagsældar. Flest skrefin hafa falist í því að ganga í burtu frá höftum og miðstýringu í átt að frelsi og einstaklingsframtaki. Það eru ekki stjórnmálamenn heldur fólkið í landinu sem hafa fært okkur velferðina. Stjórnmálamennirnir gáfu fólkinu athafnafrelsið sem það svo nýtti til góðra verka.

Ísland hefur á undanfarinni öld stigið hvert skrefið á fætur öðrum í átt til velsældar og hagsældar. Flest skrefin hafa falist í því að ganga í burtu frá höftum og miðstýringu í átt að frelsi og einstaklingsframtaki. Það eru ekki stjórnmálamenn heldur fólkið í landinu sem hafa fært okkur velferðina. Stjórnmálamennirnir gáfu fólkinu athafnafrelsið sem það svo nýtti til góðra verka.

Af einhverri ástæðu voru nokkur svið undanskilin. Eitt alvarlegasta dæmið er hvernig íslenska heilbrigðiskerfinu hefur verið haldið niðri af metnaðarleysi og hræðslu við hið óþekkta.

Lykilástæða óhagræðis í íslenska heilbrigðiskerfinu er hversu mikið það er byggt upp á miðstýringu. Miðstýringin hefur frekar farið vaxandi undanfarin ár heldur en hitt. Sjúkrastofnanir á landsbyggðinni hafa þannig misst sjálfsákvörðunarvald sitt til einhvers konar innkaupastofnunar íslenska ríkisins sem er farin að mótast. Umræðan er fangi þeirrar hugmyndar að án nauðsynlegrar aðkomu ríkisins geti landsmenn ekki notið heilsugæslu. Hvar annars staðar tala menn svona?

Hvernig hafa menn síðan tekið á vandamálinu undanfarin ár? Jú með því að sameina stofnanir! Sameiningar eru einhverjar mögnuðustu ekki-lausnir sem hafa komið upp í vestrænu samfélagi á undanförnum árum (og nær ávallt talað um þær sem “töfralausnir”).

Nú þegar öll sjúkrahús á höfuðborgarsvæðinu hafa verið sameinuð án þess að nokkuð beri á þeirri hagræðingu sem fylgja átti í kjölfarið er komin fram ný töfralausn: Hátæknisjúkrahús! Núna ætla menn að sitja á allri framþróun meðan beðið er eftir að nýtt hátæknisjúkrahús (sem væntanlega mun lækna hátæknisjúkdóma) verði tekið í notkun. Í það eru nokkrir áratugir og mörg hundruð prósenta framúrkeyrsla (gleymum ekki hver verður byggingastjóri).

Íslenska heilbrigðiskerfið er mannað af gríðarlega hæfileikamiklu og duglegu fólki. Vandamálið er ekki fólkið heldur það kerfi sem það vinnur í. Kerfi sem vinnur gegn framtakssemi og letur fólk til að koma með tillögur að breytingum á kerfinu. Leiðin fram á við til þess að nýta þennan gríðarlega mannauð þjóðarinnar felst í því að draga úr miðstýringu, auka sjálfstæði stofnanna og opna fyrir einkarekstur á ákveðnum sviðum.

Róbert Kennedy mun einu sinni hafa sagt að framþróun sé ágætt orð en breyting sé hvati hennar og að breyting hafi sína óvini. Þetta er hvergi sannara en í íslenska heilbrigðiskerfinu. Það er komin tími á breytingar. Landsmenn þurfa að leggjast á eitt að um þrýsta á breytingar sem verða til þess að hæfileikar og kraftar fólks sem vinnur að heilbrigðismálum verði nýttir, ekki einungis fyrir betri heilsu landsmanna, heldur einnig sem drifkraftur hagvaxtar í framtíðinni.

Latest posts by Óli Örn Eiríksson (see all)

Óli Örn Eiríksson skrifar

Óli Örn hóf að skrifa á Deigluna í september 2004.