Góð niðurstaða í varnarviðræðum

Bandarískir hermenn við heræfingar á Íslandi.Í gær undirrituðu íslenskir ráðamenn samkomulag við Bandaríkjamenn um fyrirkomulag á framkvæmd varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna. Í samkomulaginu felst ítrekun á þeim skuldbindingum sem Bandaríkjamenn hafa undirgengist gagnvart Íslandi. Þessi skuldbinding er mikilvægasta vörn landsins og gerir það að verkum að hið herlausa Ísland er í raun betur varið en flest ríki heims.

Bandarískir hermenn við heræfingar á Íslandi.Samkomulagið sem Ísland og Bandaríkin gerðu í gær um varnarsamning ríkjanna er mikil gleðifrétt. Með henni er ákveðinni óvissu aflétt og – það sem mun meira máli skiptir – fram er komin yfirlýsing sem felur í sér að bandarískur herafli muni tryggja varnir landsins eftir því sem þörf krefur.

Mjög lengi hefur flestum verið ljóst að föst viðvera smáræðis herafla Bandaríkjanna á Miðnesheiði var orðin tímaskekkja. Það viðkvæði íslenskra stjórnvalda, að heimta „sýnilegar“ varnir í formi fjögurra herþotna, hefur hins vegar tafið fyrir því að skynsamleg niðurstaða næðist um framkvæmd varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna og það var óheppilegt að Íslendingar hefðu ekki frumkvæði að áframhaldandi þróun samstarfsins en létu þess í stað koma til þess að Bandaríkjamenn tækju einhliða ákvörðun um brottflutning herliðsins. Auðvitað áttu íslensk stjórnvöld að fagna því að ekki væri lengur þörf á fastri viðveru herliðs á Íslandi – og grípa tækifærið til þess að ráða fram úr málinu í uppbyggilegu samstarfi við Bandaríkjamenn. Þess í stað lenti málið í þeim hnút sem leystist í gær.

Þegar Bandaríkjamenn tilkynntu ákvörðun sína um lokun herstöðvarinnar í Keflavík varð uppi fótur og fit, enda umhverfðust íslensk stjórnvöld lengi um veru hersins og margir helstu forystumenn stjórnmálanna í dag hlutu pólitískt uppeldi á tímum kalda stríðsins, þegar miklar tilfinningar blönduðust umræðunni um utanríkismál. Sú skoðun heyrðist víða að líta bæri á ákvörðun Bandaríkjamanna sem svik og því ætti að segja samningnum upp. Sem betur fer var það ekki viðhorfið sem réð ferðinni í þeim vandasömu viðræðum sem Íslendingar hafa síðan átt við Bandaríkin. Slík tilfinningasemi á ekki erindi í viðræður um landvarnir.

Herþoturnar sem hér voru staðsettar voru vissulega sýnilegar – en augljóst er að ef raunveruleg hætta skapast þá þyrfti miklum mun meiri herafla til þess að bregðast við og áframhaldandi samstarf við Bandaríkjamenn á sviði varnarmála er langbesta leiðin til að tryggja raunverulega varnir. Og það eru raunverulega varnir sem öllu skipta – hvort sem þær eru sýnilegar á friðartímum eða ekki.

Raunverulegar varnir okkar Íslendinga eru aðild okkar að Nató og það loforð Bandaríkjamanna að verja landið ef hættuástand skapast. Öruggt má telja að flest ríki heims, myndu glöð skipta út eigin her gegn loforði öflugasta herveldis heims um að vernda landið gegn utanaðkomandi ógn. Augljóst er að fælingarmátturinn sem felst í loforði Bandaríkjamanna er margfaldur á við viðveru nokkurra herþotna. Eða hvort ætli hafi meiri fælingarmátt fyrir líklegan innrásarher – íslenskt varnarlið með fjórar þotur, eða loforð frá Bandaríkjunum um beitingu eigin herafla til að verja Ísland? Og væri þá virkilega góð hugmynd að segja upp varnarsamningnum?

Það, að henda slíku loforði út um gluggann í reiðikasti, hefðu ekki verið ábyrg viðbrögð af hálfu íslenskra stjórnvalda. Þess vegna er niðurstaðan sem fékkst í gær sú rétta.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)