Hver á að gæta varðanna?

Undirritun samkomulags við Bandaríkin um framkvæmd varnarsamningsins er merkilegur áfangi. Fyrir liggur að Íslendingar verða að axla meiri ábyrgð á eigin öryggi og það er sjálfsagt þegar í hlut á ein ríkasta þjóð heims. Eðlilegt er að slíkt kosti ríkissjóð einhver fjárútlát og umfangsmeiri stjórnsýslu. Samhliða vinnu við að samþætta verkefni lögreglu, landhelgisgæslu og fleiri hlutaðeigandi stjórnvalda er ekki síður mikilvægt að skýrar takmarkanir séu settar valdsviði nýrrar tegundar öryggisgæslu.

Hér má sjá rauðan fylgjast með gráum sem aftur fylgist með rauðum

Undirritun nýs varnarsamnings við Bandaríkin er áfangi sem vert er að fagna. Fyrir liggur að Íslendingar verða að axla meiri ábyrgð á eigin öryggi og það er sjálfsagt þegar í hlut á ein ríkasta þjóð heims. Eðlilegt er að slíkt kosti ríkissjóð einhver fjárútlát og umfangsmeiri stjórnsýslu. Samhliða vinnu við að samþætta verkefni lögreglu, landhelgisgælu og fleiri hlutaðeigandi stjórnvöld er ekki síður mikilvægt að skýrar takmarkanir séu settar valdsviði nýrrar tegundar öryggisgæslu.

Öldum saman hafa skipulögð þjóðfélög glímt við þann vanda sem felst í að þurfa hafa eftirlit með vörðunum. Hvernig á að tryggja að þeir sem hafa lögbundinn einkarétt á ofbeldi misnoti það vald ekki? Alltaf er sú hætta fyrir hendi að verðirnir sjálfir verði sú ógn sem borgurunum starfi mest hætta af. Slíkt gæti auðveldlega gerst hér á landi þrátt fyrir að lang flestir stjórnmálamenn eru velviljaðir og lögreglan heiðarleg miða við marga aðra starfsfélaga þeirra erlendis. Aldrei má það henda að aukin umsvif lögreglu verði réttlætt á þann hátt að tilgangurinn helgi meðalið.

Dómsmálaráðherra hefur kynnt á Alþingi nýtt frumvarp um að stofnuð verði öryggis- og greiningarþjónusta hjá embætti ríkislögreglustjóra. Það er eðlilegt að lögreglan takist á við breyttar aðstæður og sé skipulögð með þeim hætti að hún geti sinnt starfi sínu á sem árangursríkastan hátt. Vissulega stafar hætta af skipulagðri glæpastarfsemi og örugglega má færa rök fyrir því að meiri harka sé að færast í viðskipti með fíkniefni. Engin ástæða er heldur til að hunsa þá hættu sem einhvers konar hryðjuverkastarfsemi gæti falið í sér.

Dómsmálaráðherra gerir því rétt með því að taka á þessu máli núna meðan enn eru tök á því að ræða þetta af skynsemi og yfirvegun. Ef það er ekki gert er hætta á því að málið verði að einhverjum skrípaleik og skiptimynt í ódýrum hráskinnaleik með pólitísku ívafi. Aðalatriði er að öryggisgæsla ríkisins er lögreglumál en ekki verkefni leyniþjónustu eða hers. Það þýðir að þær valdheimildir sem lögregla getur fengið til að sinna umræddum verkefnum eru nákvæmlega þær sömu og hún hefur í dag. Stofnun öryggis- og greiningarþjónustu má ekki hafa það í för með sér að frelsisréttindi borgaranna séu fótum troðinn, nákvæmlega sömu réttindi og verið er að reyna að vernda.

Hættan er sú að lögreglan fari að kalla eftir árangursríkari aðferðum við að hlera borgaranna, fylgjast með mannaferðum og skrá niður óvenjuleg athæfi saklausra einstaklinga. Auknar heimildir til húsleitar og handtöku gætu auðveldlega fylgt í kjölfarið og þess jafnvel krafist að vopnabúnaður lögreglumanna verði aukinn. Vonandi er hér um ýkjur að ræða og skrattinn málaður óþarflega skýrt á vegginn. En þegar látið er undan fögrum fyrirheitum um öryggi heildarinnar í einu máli þá standa engin rök eftir gegn frekari öryggiskröfum á kostnað mikilvægra frelsisréttinda.

Áður en hægt verður að verjast utanaðkomandi ógnum verður fyrst að tryggja að velviljaðir verðir skapi ekki mestu hættuna, þá hættu að grundvallar réttindum verði fórnað í þágu ímyndaðs öryggis. Ef slíkt gerist þá er til lítils að verjast hryðjuverkum – þegar væri búið að vinna stórfelld hryðjuverk.

Latest posts by Teitur Björn Einarsson (see all)

Teitur Björn Einarsson skrifar

Teitur hóf að skrifa á Deigluna í febrúar 2006.