It’s the umhverfismálin, stupid!

Það er pólitík í loftinu. Stjórnmálamenn til sjávar og sveita, hvort sem þeir eru nýskriðnir úr ungliðahreyfingum flokkana eða steingráir embættismenn eru nú sýnilegri og brosmildari en almenningur á að venjast og allir reyna þeir að þefa uppi málin sem eru heit og fersk – það sem menn eru að smjatta á í heitu pottunum og á kaffihúsunum. Og í augnablikinu rekst maður varla á stjórnmálamann sem er ekki endurfæddur áhugamaður um umhverfismál.

Það er pólitík í loftinu. Stjórnmálamenn til sjávar og sveita, hvort sem þeir eru nýskriðnir úr ungliðahreyfingum flokkana eða steingráir embættismenn eru nú sýnilegri og brosmildari en almenningur á að venjast og allir reyna þeir að þefa uppi málin sem eru heit og fersk – það sem menn eru að smjatta á í heitu pottunum og á kaffihúsunum. Og í augnablikinu rekst maður varla á stjórnmálamann sem er ekki endurfæddur áhugamaður um umhverfismál.

Það vakti nokkra athygli fyrir um 30 árum þegar Jimmy Carter bauð sig fram til forseta Bandaríkjanna að gamli hnetubóndinn virtist hafa orðið fyrir trúarlegri upplifun skömmu áður en að hann tilkynnti um framboð sitt. Hann var orðinn trúaður og var jafnvel talað um að hann væri „re-born Christian“ á alveg ótrúlegum heppilegum tíma en Guð kann jú að tímasetja sig. Þess háttar trúarupplifanir eru raunar ekki óþekktar í tengslum við forsetakjör hér á landi.

Sannir pólitíkusar endurfæðast oft og mörgum sinnum á ferlinum í mörgum málaflokkum. Í þeirri prófkjörsbylgju sem nú ríður yfir virðist endurfæðingin vera hvað tíðust í umhverfismálunum. Það er varla sá stjórnmálamaður hér á landi sem lætur það ekki fylgja með í fréttatilkynningunni um framboð sitt –eftir að hann segist hafa fengið gríðarlega mikla og víðtæka hvatningu til að gefa kost á sér – að viðkomandi vilji nú gjarnan leggja áherslu á umhverfismálin. Setja umhverfismálin á dagskrá.

En hvert leiðir þessi umhverfisumræða okkur? Eru þetta innihaldslausir frasar eða megum við eiga von á einhverjum stefnubreytingum á næstunni varðandi mál sem eru fyrirferðarmikil í tengslum við umhverfisumræðuna, s.s. virkjanir og álver?

Það eru í raun ýmsar nálganir uppi á ólíkum vængjum stjórnmálanna. Illugi Gunnarsson stal senunni nú í sumar, vinstrimönnum til mikillar gremju, með því að ræða og rita um umhverfismál út frá hægri lausnum og titla sig „hægri grænan“. Það fór meira að segja svo fyrir brjóstið á grænustu vinstrimönnum að þeir töldu sérstaka ástæðu til að minna á einkarétt vinstrimanna í þessum málum. Þegar auglýsing, sem Morgunblaðið hafði látið gera um grein Illuga í blaðinu, var lesin upp í Ríkisútvarpinu í sumar trúði þulurinn greinilega ekki eigin augum og leiðrétti málin á svipstundu – Illugi var hægri krati, en ekki hægri grænn.

Illugi segir í stuttu og eflaust nokkuð einfölduðu máli að ríkið eigi ekki að reka stóriðjustefnu, heldur setja almennar leikreglur, selja Landsvirkjun og eftirláta einkaaðilum alfarið framkvæmdir, svo fremi sem þær uppfylli almenn skilyrði. Þ.e. að stjórnvöld dragi sig alfarið út úr ákvarðanatöku í þessum málum og eftirláti hana einkaaðilum en sjái þess í stað um almennt eftirlit með þessum málum. Þetta er ákveðin markaðsnálgun en þó þannig að stjórnvöld hlytu að hafa umtalsvert eftirlit og stýringu á því hve mikið væri virkjað og með hvaða hætti. Aðalatriðið er að stjórnvöld, þ.m.t. taldar sveitarstjórnir, færu úr því hlutverki að taka ákvarðanir um hvort það eigi að virkja og yfir í að vera eftirlits- og formaðili málsins.

Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins í gær eru umhverfismálin til umfjöllunar og er þar lagt út frá „stóra hrafntinnumálinu“ sem virðist samkvæmt leiðarahöfundi skekja þjóðfélagið bókstaflega til grunna. Hvort það sé rétt mat eða ekki skal ósagt látið en í bréfinu er vakin athygli á því að ákvarðanir um virkjanir og álver sé heppilegast að setja í dóm íbúanna en ekki stjórnvalda. Þar er talað af talsverðri skynsemi.

Hin harðvítuga umræða undanfarinna missera um Kárahnjúka hefur ekki síst snúist um ákvarðanatökuferlið og „herför valdsins“ eins og einhverjir vilja kalla framkvæmdina. Með því að kjósa um slík mál með tilheyrandi umræðu og umfjöllun fyrirfram væri erfitt að halda því fram að stjórnmálamenn hefðu þröngvað slíkum málum í gegn með valdi, þó atkvæðagreiðslur sem þessar séu sennilega ekki hafnar yfir allan vafa. Til að mynda má efast um hvort það væru fullkomlega jafnsterkir kostir í boði í atkvæðagreiðslunni ef þorri kjósenda á viðkomandi svæði liti svo á að virkjun og álver væri eina atvinnutækifærið sem byðist fyrir viðkomandi landsvæði. Hættan er sú að menn litu á mótatkvæði sem atkvæði gegn atvinnuuppbyggingu frekar en sem prinsipp-atkvæði gegn virkjun eða álveri. Hliðstætt vandamál gæti komið upp ef haldin yrði þjóðaratkvæðagreiðsla um virkjanaframkvæmdir. Atvinnuávinningurinn af framkvæmdinni er eitthvað sem stór hluti kjósenda fengi ekki í sinn hlut. En það er nú auðvitað undir hverjum og einum komið hvernig hann hagar sínu atkvæði og eflaust fjölmargar forsendur sem kjósendur velja eftir.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur um árabil haft nokkra forystu í umræðu um umhverfismál. Á heimasíðu flokksins er stefna hans í málefnum náttúru og umhverfis lýst og kemur þar m.a. fram að VG vilji sjálfbæra orkustefnu, skattkerfi sem taki mið af umhverfisvernd og að náttúruauðlindir séu sameign landsmanna. Flokkurinn leggst gegn mengandi stóriðju og stórvirkjunum sem valda mikilli röskun á náttúru landsins en af lestri stefnunnar er ekki fyllilega ljóst hve stórar eða umfangsmiklar slíkar virkjanir þurfi að vera.

Samfylkingin kynnti á dögunum stefnu sína í umhverfismálum undir yfirskriftinni Fagra Ísland. Þar kennir ýmissa grasa og meðal annars má nefna að öllum stóriðjuáformum verði slegið á frest, unnin verði rammaáætlun um náttúruvernd og töluvert af náttúruminjum friðað auk þess sem unnið verði að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda t.d. með því að úthluta mengunarkvótum til fyrirtækja.

Pólitíkusarnir virðast sum sé margir hverjir hafa lagt höfuðið í bleyti og velt upp nýjum leiðum og nálgunum. Það sem er kannski rauður þráður í nýlegum skrifum um þessi mál er að það vill enginn fara í gegnum mál eins og Kárahnjúka aftur. Sú leið sem farin var í því máli hefur reynst pólitískt nokkuð dýr, svo ekki sé sterkar að orði kveðið. Kárahnjúkavirkjun byggði auðvitað fyrst og fremst á byggðasjónarmiðum og loforðum stjórnmálamanna um að fjölga störfum á Austurlandi. Það hefur hins vegar ekki gengið áfallalaust fyrir sig að koma jafnumfangsmiklu máli í gegnum kerfið og mæta þeirri umræðu og gagnrýni sem upp hefur komið.

Stjórnmálamennirnir virðist því kannski fyrst og fremst tala fyrir breyttri aðferðafræði en ekki því að stóriðju sé alfarið hætt. Í því felst að ríkið dragi sig út úr beinni ákvarðanatöku um virkjanir og eftirláti það markaðnum eða almenningi eftir atvikum að taka ákvarðanirnar. Hvort sem það yrði almenningur eða markaðurinn sem fengi ákvarðanatökuvaldið í sínar hendur væri með því stigið það skref að fjarlægja möguleika landsbyggðarþingmanna á að nota álver sem tæki til atvinnuuppbyggingar.

Þeir sem lengst ganga tala í raun þannig að fái þeir ráðið verður nánast ekkert virkjað hér frekar næstu árin. Tækið til að tryggja að svo sé verður þá að vera í höndum ríkisins, en ekki einkaaðila.

Hver sem niðurstaðan verður er ljóst að nýjar nálganir í virkjana- og umhverfismálum eru væntanlegar. Svo er bara spurningin á hvaða málefnasviði næsta bylgja pólitískrar endurfæðingar verði.

Árni Helgason skrifar

Árni hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.