Prófkjörslykt af hagsmunamati þingmanna

Pistlahöfundur gagnrýnir þá skerðingu fjárframlaga til æskulýðsmála sem fram kemur í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2007. Öflugt og spennandi æskulýðsstarf er besta forvarnarstarf sem völ er á. Því er dregið er í efa að skerðing sem slík, án þess að henni sé mætt með uppbyggilegum gagnaðgerðum, feli í sér sparnað ef til langs tíma er litið.

Í stefnuræðu forsætisráðherra sem flutt var á Alþingi á þriðjudagskvöld gætti mikillar bjartsýni í efnahagsmálum þjóðarinnar. Fram kom að aðhaldsaðgerðir ríkisstjórnarinnar hefðu skilað árangri og traust staða ríkissjóðs í dag skapi víða sóknarfæri. Hrein skuldastaða ríkisins sé nánast komin á núll og þeim fjármunum sem sparist vegna minni vaxtakostnaðar sé nú hægt að verja til mikilvægari verkefna. Þau verkefni sem forsætisráðherra m.a. minnist á eru aðgerðir til lækkunar matvælaverðs og framkvæmdir í samgöngumálum. Þá hefur verið lagt fyrir þingið frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2007, þar sem m.a. er gert ráð fyrir áframhaldandi aðhaldi í ríkisfjármálum.

Því verður ekki mótmælt að styrk efnahagsstjórn ríkistjórnarinnar og aðhald í ríkisfjármálum hefur gegnt lykilhlutverki í að bæta stöðu heimilana, styrkja rekstur fyrirtækja og sporna við þenslu á erfiðum tímum. Umfjöllunarefni þessa pistils er ekki að gagnrýna slíka aðhaldsstefnu þegar hennar er þörf. Þó er ljóst að gæta verður vel að því hvar slíkt aðhald á að koma niður og hvar ekki.

Í því fjárlagafrumvarpi sem nú liggur fyrir þinginu er gert ráð fyrir því að framlag til æskulýðsmála á árinu 2007 nemi kr. 133,6 milljónum króna. Er þar um að ræða 29 milljón króna lækkun frá fjárlögum 2006, áður en tillit er tekið til launa- og verðlagshækkana, svo sem fram kemur í frumvarpinu. Þá kemur fram að lækkunin komi til „vegna aðhalds í ríkisrekstri“. Um er að ræða lækkun á fjárframlögum til ungmennahreyfinga eins og Ungmennafélags Íslands, KFUM og KFUK og Bandalags íslenskra skáta. Allar gegna þær mjög virku og uppbyggilegu æskulýsstarfi fyrir fjölda barna og unglinga sem að langmestu leyti byggist upp á sjálfboðavinnu.

Það er alveg ljóst, og hefur komið skýrt fram í umræðu og auglýsingum undanfarið, að uppbyggilegt æskulýðsstarf gegnir gríðarlega mikilvægu hlutverki í félagslegri mótun barna og unglinga. Öflugt og spennandi æskulýðsstarf elur af sér sjálfstæða og ábyrga einstaklinga, hæfa til að taka virkan þátt í samfélaginu. Þessu til viðbótar er vert að minna á hversu mikil forvarnaráhrif þátttaka barna og unglinga í slíku skapandi starfi hefur og er það ekki síst mikilvægt í dag í ljósi aukinnar vímuefnaneyslu hér á landi og þeirrar skipulögðu glæpastarfsemi sem henni fylgir.

Það má spyrja sig hversu þungt það verður á vogarskálum efnahagslífsins að skera þennan kostnað niður um tæpar þrjátíu milljónir, sérstaklega á sama tíma og boðað er til stóraukinna útgjalda til dæmis í samgöngumálum. Það er hins vegar ljóst að samgöngumannvirki eru mun stærri hagsmunamál í huga þingmanna heldur en rekstur forvarnarstarfs. Þessu hagsmunamati er pistlahöfundur ekki sammála – enda er hún ekki á leiðinni í prófkjör. Pistlahöfundur styður þá stefnu að áframhaldandi aðhald í ríkisfjármálum sé nauðsynlegt til að viðhalda þeim stöðugleika sem náðst hefur í efnahagsmálum í landinu. Skerðing fjárframlaga með þessum hætti er hins vegar engum til gagns. Ríkisstyrkir fyrri ára hafa skapað rekstrargrundvöll fjölmargra samtaka. Ef það er stefna stjórnvalda að draga úr slíkum styrkjum er því eðlilegt að félagasamtök fái einhvern aðlögunartíma til að láta rekstur sinn standa undir sér. Jafnframt er rétt að ríkið noti þann aðlögunartíma til að mæta sparnaðaraðgerðum sínum með því að búa til lagaumhverfi sem gerir rekstur slíkrar starfsemi, byggða á frjálsum framlögum fyrirtækja og einstaklinga, að raunhæfum möguleika.

Ein leið til þess að stuðla að þessu markmiði væri að ríkið endurgreiddi í auknum mæli, í formi skattaívilnana, framlög til mannúðar- og góðgerðarmála. Þannig kæmist val á styrkþegum í hendur borgaranna sjálfra auk þess sem slíkt fyrirkomulag gæti virkað hvetjandi á starfsemi viðkomandi félaga, að þurfa að sækja um stuðning til almennings á grundvelli starfsemi sinnar. Loks ber að nefna að margir myndu líklegast fagna auknu ráðrúmi til að verja hluta fjár síns til góðgerðarmála.

Það kann að líta út fyrir að vera ágætis skammtímalausn að skerða þá litlu sneið sem þegar rennur til æskulýðsmála. Hins vegar er ljóst að slík skerðing getur haft langvarandi og alvarleg áhrif á starfsemi þeirra aðila sem fyrir henni verða en ekki síst þá sem ætlað er að njóta þeirrar starfsemi. Má jafnvel ímynda sér að aukið fjármagn til æskulýðsmála og þar með styrking forvarnarstarfs sé betri leið til sparnaðar til langs tíma litið.

Latest posts by Ásta Sóllilja Sigurbjörnsdóttir (see all)