Þjóðkirkjan áfram ríkistrú

Það þykir ekki sérlega smart að fjalla um trú og trúarbrögð nema þá ef vera skyldi til þess að hallmæla hvoru tveggja. Þjóðkirkjan á í vök að verjast og fáir eru talsmenn hennar þó svo nær öll þjóðin sé í þjóðkirkjunni. Í þessum pistli verður hanskinn tekinn upp fyrir ríkistrúna og það rökstutt af hverju ekki á að skilja að ríki og kirkju. Rökstuðningurinn byggist á því að ríkisvaldið er slæmt en trúarbrögð enn verri.

Þessi kall er hress trúarleiðtogi með húmor

Kristnitakan og siðaskiptin voru mikið gæfuspor fyrir Íslendinga. Kristin gildi skópu menningu Íslendinga og siðferði öld eftir öld og gera enn. Kirkjan var fyrst og fremst valdastofnun en einungis trúarmiðstöð á sunnudögum. Kirkjan lagði grunninn að innviði samfélagsins, menntaði þjóðina og mótaði hin borgaralegu gildi sem mikilvæg eru því lýðræðisfyrirkomulagi sem Íslendingar búa við í dag.

En blessunarlega hefur þjóðin nær alltaf verið trúlaus í hefðbundinni merkingu þessa orðs og alvöru trúarlíf aldrei náð að blómstra. Trú er flókið fyrirbæri og erfitt að festa hendur á hvað átt er við með trú og trúarlífi. Það getur verið hvað sem er og hver og einn getur trúað hverju sem er. Trú skiptir í raun engu máli svo lengi sem fólk reynir ekki að þröngva sinni trú upp á náungann. Þá er voðinn vís því þannig verða trúarbrögð til og þau eru verkfæri djöfulsins, ef svo má að orði komast.

Með trúarbrögðum er hægt að hneppa fólk í andlegt fangelsi þar sem áhersla er lögð á að einstaklingar taki þegjandi og hljóðslaust við skipunum og valdboðum að ofan. Sannleikurinn er óumdeildur þar sem guð sjálfur færði sönnun fyrir honum (það er voða erfitt að eiga við slíka röksemdafærslu) og þar með er ekki hægt að efast um sannleikann né mótmæla orðum guðs þar sem þau orð eru sannleikurinn. Þannig rökstyðja nær öll trúarbrögð, sem gera kröfu um trú á æðra yfirvald, tilvíst sína og leggja mikla áherslu á að halda þegnum sínum við efnið, jafnvel margar Maríubænir á dag.

Þetta er stórhættulegt því ef völdum er náð yfir hugum fólks og trú þá er auðvelt að fá það til að gera hvað sem er í nafni guðs og trúarbragðanna. Þau eru ófá stríðin sem háð hafa verið og heygð eru í dag í nafni trúarbragða. Trúarofstæki er sérlega hættulegt þar sem öll verk verða réttlætt í nafni trúarinnar. Ódæðisverk eins og manndráp, pyntingar og aðrar ofsóknir verða nauðsynlegar til þess að þóknast kröfu trúarinnar um algildan sigur yfir öllu öðru.

Trúarbrögð eru því slæm og gegn þeim þarf að berjast. Þar með er ekki sagt að trú hvers og eins einstaklingas sé slæm, þvert á mót. Einstaklingar verða þannig að trúa á sjálfan sig til að ná þeim markmiðum sem þeir hafa kosið að stefna að. Hér er enginn mælikvarði lagður á hvað einstaklingar skulu stefna að. Það er undir hverjum og einum komið. Aðalatriði er að fólk gleypi ekki hugsunarlaust við tómum hugaburði annarra. Með öðrum orðum, láti ekki hafa sig að fíflum í nafni einhverra trúarbragða.

En hvernig tengist þetta allt Þjóðkirkjunni? Blasir ekki við að ríkisvaldið eigi losa sig við þessi trúarbrögð og láta fólk um að ákveða þetta sjálft án aðstoðar ríkisins? Á þann veg eru hin hefðbundnu og góðu rök fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju og þau eru vissulega réttmæt. En það eru til athyglisverð rök fyrir óbreyttu ástandi sem byggjast á því að ríkisvaldið er vel til þess fallið að koma í veg fyrir að hér á landi skjóti trúarlíf sterkum rótum.

Nokkrum sinnum hefur verið gerð tilraun á þessu vefriti til að sýna fram á að ríkisvaldið er ómögulegt og fátt fær þrifist undir þeim kæfandi faðmi svo vel sé. Þannig dregur miðstýring og reglugerðarbáknið stórlega úr sköpunarkrafti og hugmyndaauðgi hvers einstaklings og fátt skynsamlegt lítur dagsins ljós undir forystu misvitra stjórnmálamanna. Því er það alveg tilvalið að ríkið fóstri Þjóðkirkjuna sem ríkistrú.

Með því móti er tryggt að Þjóðkirkjan styrkist ekki í trúarmálum og fari að afla trúarbrögðunum vinsælda meðal almennings. Verði Þjóðkirkjan skilin frá ríkinu er hætt við því að Kirkjan fari að leggja sig fram við að öðlast hylli borgaranna. Það yrði stórkostlegt slys ef trúarlíf færi hér allt í einu að blómstra með tilheyrandi ranghugmyndum og öfgum. Þjóðkirkjan sem ríkistrú getur haldið aftur af öðrum trúfélögum og tryggt að Íslendingar verði áfram stoltir kristilegir guðleysingjar.

Latest posts by Teitur Björn Einarsson (see all)

Teitur Björn Einarsson skrifar

Teitur hóf að skrifa á Deigluna í febrúar 2006.