Samgönguvika í Reykjavík

Nú stendur yfir Samgönguvika í Reykjavík. Hún gefur okkur kjörið tækifæri til að hugsa aðeins út í það hvernig við getum gert okkar til að bæta umhverfið og borgarbraginn í gegn um val okkar á ferðamáta.

Reykjavíkurborg og Hafnarfjörður taka þátt í Evrópskri samgönguviku þessa vikuna, fjórða árið í röð. Megintilgangur samgönguviku er að vekja fólk til umhugsunar um það hversu víðtæk áhrif það getur haft á bæði umhverfi, samfélag, eigin heilsu og jafnvel borgarbraginn hvernig við kjósum að ferðast milli staða.

Í samanburði við aðrar evrópskar borgir er Reykjavík og höfuðborgarsvæðið er í raun ekkert sérstaklega öfundsvert af hlutskipti sínu. Hin evrópska samgönguvika – sem er í raun hluti af annarri stórri baráttu gegn almennri notkun einkabílsins í borgalandinu – er því í raun ólíkleg til að skapa sér vinsældir í borgum þar sem samgöngukerfið hefur að mestu verið miðað við einmitt almenna notkun einkabílsins. Bílaborgin Reykjavík (og Hafnarfjörður) eiga því mikið hrós skilið fyrir að sýna áræði og taka ótrauð þátt.

Og það er ærin ástæða til. Þrátt fyrir að vera einhver mesta snilldaruppfinning síðustu (eða þarsíðustu réttara) aldar, þá eru bíllinn og þéttbýlið engir sérstakir mátar. Með framþróun og vexti leitast hinir mótandi markaðskraftar þéttbýlisins við að auka á hagkvæmni landnotkunar og þétta byggðina, á meðan bíllinn og almenn notkun hans sérstaklega leitast við að splundra henni. Afleiðingarnar eru þær sem blasa við okkur bæði hérlendis og víða hjá öðrum ungum borgum: dreifing og sérhæfing landnoktunar, lengri vegalengdir og ekki síst lítil samkeppnishæfni þeirra fararmáta sem eru borginni vinsamlegir, ef svo má að orði komast.

Þar að auki fylgja almennri notkun bílsins í borgarlandinu töluverð neikvæð bein umhverfisáhrif á borð við loftmengun og hljóðmengun, auk þess sem hrifning fólks fyrir stærri umferðarmannvirkjum er mismikil. Ekki síst ef planta á því í næsta garði.

Nú gefst því kjörið tækifæri til að kanna farvegi hinna ‘borgarvænu’ ferðamáta. Þeirra sem draga fram allt það besta sem unnt er að ná út úr borgarlífinu. Hvernig væri að smyrja hjólið og fjárfesta í regnbuxum (það er ótrúlega hressandi að hjóla í rigningu)? Hvernig væri að prófa gulu limmurnar, sem vonandi munu brátt standa undir nafni sem alvöru Limmur! Nú eða bara labba eða verða samferða í vinnuna? Þó ekki væri nema til að gefa álit sitt á þeim valkostum sem í boði eru. Því framtíð lífsgæða þess að búa á höfuðborgarsvæðinu er er undir því komið að þeir batni verulega á næstu árum.

Latest posts by Samúel T. Pétursson (see all)

Samúel T. Pétursson skrifar

Sammi hóf að skrifa á Deigluna í maí 2005.