Ruglað í ríminu og ráfað á milli

Í Helganesti dagsins verður komið víða við. Hryðjuverkaógnin er komin til Danmerkur. Níu manns voru handteknir í vikunni og tveir úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Hinum sjö var sleppt þar sem ekki var talið að lögreglan hefði sýnt nægilega fram á tengsl þeirra við meinta skipulagningu hryðjuverka svo að unnt væri að úrskurða þá í gæsluvarðhald. Það er gott til þess að vita að danska lögreglan fylgist með og rannskar ábendingar sem hún fær um meinta skipulagningu hryðjuverka.

Í Helganesti dagsins verður komið víða við.

Hryðjuverkaógnin er komin til Danmerkur. Níu manns voru handteknir í vikunni og tveir úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Hinum sjö var sleppt þar sem ekki var talið að lögreglan hefði sýnt nægilega fram á tengsl þeirra við meinta skipulagningu hryðjuverka svo að unnt væri að úrskurða þá í gæsluvarðhald. Það er gott til þess að vita að danska lögreglan fylgist með og rannskar ábendingar sem hún fær um meinta skipulagningu hryðjuverka.

Enn þá betra er til þess að vita-á tímum hryðjuverkaógna-að dómstólar í Danmörku hafa ekki hnikað hársbreidd frá grundvallar mannréttindum borgaranna og slaka ekki á kröfunum til lögreglu um beinar sannanir. Fréttir síðustu daga-þar sem Bandaríkjastjórn hefur viðurkennt að hafa starfrækt leynileg fangelsi handan laga og réttar-að tilgangurinn er farinn að helga meðalið þegar kemur að réttarríkinu og meintri skipulagningu hryðjuverka í heiminum. Slík þróun er varhugaverð. Lýðræði tapast ekki einungis í einu vetfangi-heldur einnig smátt og smátt.

En heimur versnandi fer.

Samkvæmt fréttum NFS var tæplega áttræð kona handtekin í Chicago fyrir tilraun til bankaráns. Gekk konan upp að gjaldkera otaði að viðkmandi byssu og krafðist 30 þúsunda bandaríkjadala. Gjaldkerinn-ókvalráður með endemum-gekk hins vegar á brott, eftir að hafa þrýst á neyðarbjöllu. Var konan handtekin skömmu síðar og reyndist vopn hennar vera stórhættuleg leikfangabyssa.

Nú er skálmöld og skeggöld og æskan virðist vera að fara til andskotans. Verða nefnd þrjú dæmi því til stuðnings.

Tvær stúlkur, 12 og 13 ára, voru fluttar á lögreglustöð eftir að hafa staðið að ólátum fyrir utan fjölbýlishús í Reykjavík. Meðan á ferðinni á lögreglustöð stóð hótuðu stúlkurnar lögreglumönnum öllu illu og viðhöfðu munnsöfnuð sem ekki er hægt að hafa eftir. Hefði þó verið bæði fróðlegt og skemmtilegt ef munnsöfnuður stúlknanna hefði verið hafður eftir og til mikillar eftirbreytni. Foreldrum var gert að sækja stúlkurnar til lögreglu

Ellefu ára piltur var handtekinn með fíkniefni í fórum sínum nánar tiltekið kannabisefni. Fyrst hélt piltur því fram að hann hefði fundið fíkniefnin og ráðlagði að selja þau áfram, en bætti svo hróðugur við eftir að efnin og hann voru haldlögð að hann gæti sko auðveldlega reddað meiri svona efnum. Aðspurð kváðust barnaverndaryfirvöld ekki óttast að fíkniefnasalar hefðu breytt markaðssetningu sinni og höfðuðu nú til yngri hópa. Ber að fagna því.

Í 74 gr. stjórnarskrár segir að lögreglu sé heimilt að banna mannfundi undir berum himni ef uggvænt þykir að af þeim leiði óspektir. Óspektir urðu á laugardaginn þegar trylltur skríll* unglinga gerði uppreist* og aðsúg að lögreglunni í Skeifunni eftir að unglingasamkvæmi lauk. Urðu nokkur átök og voru nokkrir unglingar teknir höndum og fluttir á lögreglustöð. Virðist einn unglingur hafa handleggsbrotnað í átökum. Forsvarsmenn lögreglu telja að virðing fyrir aga og yfirvöldum hafi minnkað svo að til vandræða horfir.

Vargöld, véöld?

Verður ekki tekin afstaða til þessa, en minnst á að á gamlárskvöld upp úr miðri síðustu öld þótti skemmtilegt að velta bifreiðum á gamlárskvöld, brjóta rúður í miðbænum og kasta molatoffkokteilum í lögreglustöðina í Pósthússtræti.

Til er þáttur sem heitir Rockstar Supernova og fjallar um reynda tónlistarmenn sem halda dans-og sönglagakeppni til þess að finna sér söngvara. Tekur Íslendingur þátt í þessari keppni fyrir hönd lands og þjóðar-og heitir piltur Magni Ásgeirsson og er að austan. Er um græskulaust fjör og skemmtun hina bestu að ræða og syngja ungmennin sönglög eftir nánari ákvörðun hljómsveitarinnar. Hafa nú leikar magnast og ræðst í næstu viku hver vinnur dans-og sönglagakeppnina og hlýtur titilinn eftirsótta söngvari Supernovu. Er um heilbrigða fjölskylduskemmtun að ræða og hvet ég alla lesendur til þess að fylgjast með afrekum Magna í næstu viku og styðja við bakið á piltinum. Það er skylda okkar sem þjóðar að gera svo.

,,Góðir hlustendur. Kvöldgestur minn í kvöld er Magni Ásgeirsson hljómlistarmaður og söngvari. Segðu mér Magni, varstu oft einn sem barn?*”

Góða helgi!

* Orðalag er fengið úr fyrirsögn Morgunblaðsins fimmtudaginn 31. marz 1949 um mótmæli á Austurvelli deginum áður.
* Uppreist getur staðið sjálfstætt og í annarri merkingu en uppreist æru eða holds.
*Hugsanleg byrjun á viðtali við Magna Ásgeirsson í viðtali í þætti Jónasar Jónassonar Kvöldgestum.

Latest posts by Ari Karlsson (see all)

Ari Karlsson skrifar

Ari hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2005.