Uppgjöf

Í dag var tekin sú ákvörðun að draga úr þjónustustigi Strætó til frambúðar. Jafnframt var tekin sú ákvörðun að borgin við Sundin skuli þróast áfram sem annars flokks borg. Jafnvel einnig til frambúðar.

Í dag var tekin sú ákvörðun að draga úr þjónustustigi Strætó bs. til frambúðar. Ferðatíðni hraðleiða Strætó verði því ekki á tíu mínútna fresti í vetur eins og þann síðasta. Leið S5 er víst endanlega „ekki á leið“.

Ákvörðunin var tekin af stjórn Strætó bs. Með ákvörðuninni á að spara um 340 milljóna rekstrarhalla sem hrjáð hefur Strætó síðasta árið. Rekstrarhalli sem orsakast af almennum launahækkunum, verðbólgu, hækkandi eldsneytisverði, gengisþróun og tekjutapi vegna fækkun farþega milli ára. Fækkun, sem þó dró úr síðasta vetur.

Með ákvörðuninni munu Reykvíkingar og íbúar höfuðborgarsvæðisins kveðja þann skammgóða vermi sem 10 mínútna ferðatíðni á álagstímum var. Aðalávinningnum af fækkun leiða í hinu endurskoðaða leiðarkerfi – aðaltrompinu fyrir aukinni samkeppnishæfni þeirra – hefur því verið kippt út.

Ákvörðuninni er ekki hægt að lýsa öðruvísi en beinni og algerlega ótímabærri uppgjöf. Afleiðingar hennar munu án efa fresta uppbyggingu á aukinni hlutdeild markaðar fyrir Strætó um mörg ár, ef ekki áratugi. Eins og fram kom í öðrum pistli eftir undirritaðan, þá benti ýmislegt til að viðsnúningur í hinni neikvæðu þróun undanfarinna ára gæti verið á leiðinni. Að endurbætt leiðarkerfi gæti verið að skila árangri, þótt viðsnúningurinn væri enn ekki kominn í plús. Lengri tíma þyrfti til að meta árangurinn. En það er víst úti um það.

Ákvörðunin er uppgjöf fyrir ótal þáttum. Þar á meðal er ákvörðunin uppgjöf fyrir gallaðri samgönguretórík, bjöguðum og miðstýrðum samgöngumarkaði, uppgjöf á skilvirku samgöngukerfi og uppgjöf á framtíð með lágmarks umferðarvandamálum. Hún er jafnframt uppgjöf á draum um lifandi borgarumhverfi, mannlíf og fjölbreytni því fátt hefur þýðingarmeiri áhrif á það en einmitt öflugur markaður fyrir almenningssamgöngur. Það skiptir nefnilega öllu máli fyrir form og virkni borgarinnar hvernig við kjósum að ferðast milli staða.

Ákvörðun dagsins snérist ekki einvörðungu um það að draga skyldi úr þjónustustigi Strætó bs. Ákvörðunin jafngildir nefnilega að mörgu leyti því að Reykjavík skuli til frambúðar vera annars flokks borg.

Tekin sú ákvörðun að til frambúðar skuli hreyfanleiki íbúa höfuðborgarsvæðisins afmarkast við eign og aðgang að eigin bíl eða bílstjóra. Svo virðist sem við trúum mjög fast og innilega á þá fyrirhyggjulegu retórík að draumur okkar allra felist í því að eiga og reka eigin bíl. Við höfum litla trú á að það finnist neinir Íslendingar sem finnst leiðinlegt að keyra bíl. Engir Íslendingar eru óöruggir bílstjórar. Engum okkar líður illa í umferðinni. Slíkir bílstjórar valda víst ekki fleiri óhöppum og slysum í umferðinni. Enginn mun kjósa hreyfanleika án þess að það sé hann felist í stýri og fjórum hjólum. Já, þjóðir hafa – eftir allt saman – eigin vilja, og það er hlutverk stjórnmálamannanna að hafa vit fyrir okkur. Það er ekki til neitt sem kallast fangelsi bílsins, bara frelsi bílsins.

Í dag var tekin sú ákvörðun að bruna framhjá hinum raunverulegu vandamálum…
Myndin er birt með leyfi Matthíasar Ásgeirssonar

Ákvörðun dagsins er uppgjöf fyrir miðstýrðum og brotakenndum samgöngumarkaði. Uppgjöf fyrir miðstýrðri og sóunarkenndri landnotkun. Uppgjöf fyrir öllum þeim markaðslegu ytri áhrifum sem þessi bjögun hefur á samgöngumarkaðinn. Áhrifum sem í rúma hálfa öld hafa sífellt kippt stoðunum undan samkeppnishæfni annarra farartækja en einkabílsins. Þetta eru hin raunverulegu vandamál. Ákvörðun dagsins snérist ekki um að ráðast gegn þessu meingallaða kerfi, heldur að láta undan því. Möguleikar á einkaframtaki í almenningssamgöngum og opnum samkeppnismarkaði verða því draumur til langrar framtíðar.

Ákvörðun dagsins er uppgjöf á framtíðarsýn um skilvirkt samgöngukerfi. Halda skal inn á vit hinna opinberu umferðarmannvirkja sem lausn að skilvirkum samgöngum. Og nú skal Reykjavík verða fyrsta borgin í heiminum sem nær að sameina það tvennt að vaxa hratt og byggja sig úr úr umferðarvandamálum. Nú skal láta hinar séríslensku aðstæður bjarga okkur fyrir horn. Við erum nefnilega svo sérstök. Við getum leyst vandamál sem aðrir hafa gefist upp á. Og íslenska ríkið á auðvitað að borga brúsann fyrir þá tilraun.

Já. Til hamingju Reykvíkingar. Við eigum bjarta framtíð fyrir höndum. Þökk sé miðstýringu, fyrirhyggju, þekkingarskorti, metnaðarleysi og skorti á raunverulegum lausnum.

Stuðningsrit:
Beimborn. Inside the blackbox: Making transportation models work for livable communities. 1996
Boarnet&Crane. Travel by design: The Influence of Urban Form on Travel. 2001
Levine. Zoned Out: Regulation, Markets, and Choices in Transportation and Metropolital Land Use. 2005.
Newman&Kenworthy: Sustainability and Cities: Overcoming Automobile Dependence. 1999
Marshall. How Cities Work: Suburbs, Sprawl and the Roads Not Taken. 2001
Ben-Joseph. Regulating Place. 2004

Latest posts by Samúel T. Pétursson (see all)

Samúel T. Pétursson skrifar

Sammi hóf að skrifa á Deigluna í maí 2005.