Þú fórst fram úr fjárlögum – Þú ert rekinn

FjárhundurÍ fréttum á dögunum var fjallað um gengdarlausa framúrkeyrslu opinberra stofnana á fjárlögum. Viðbrögð nýs fjármálaráðherra vegna málsins gáfu ekki von um breytta hætti enda taldi ráðherra „ekki þörf á því“ að taka harkalega á málum, en verið væri að skoða málið. Það er miður að heyra þetta frá þessum ágæta ráðherra sem miklar vonir eru bundnar við og ekki hægt annað en að skammast út í þessa linkind og vanvirðu gagnvart skattpeningum.

Fjárhundur

Samkvæmt fréttinni virðist það regla frekar en undantekning að opinberar stofnanir fari fram úr fjárlögum, enda engin viðurlög þar við. Á ráðherra mátti skilja að þetta væri slæmur ávani sem venja þyrfti menn af en hins vegar teldi hann ekki ástæðu til að taka harkalega á málinu. Hvaða skilaboð eru það til forsvarsmanna stofnana?

Það er ekki flókið mál að koma í veg fyrir að opinberar stofnanir fari fram úr fjárlögum (án sérstakra heimilda þess efnis). Hinn frjálsi markaður fann þá leið fyrir nokkur þúsund árum og hún er einfaldlega sú að finna þá sem er ábyrgir og refsa þeim. Í nútímanum myndi það útleggjast sem svo að forstöðumönnum þeirra stofnana sem fara fram úr fjárlögum verði umsvifalaust sagt upp störfum. Ef ráðherra myndi senda frá sér slík skilaboð yrði það sennilega í síðasta sinn sem minnst yrði á framúrkeyrslu hjá hinu opinbera.

En við vitum að slík skilaboð eru ekki að fara að heyrast – og af hverju ekki? Af hverju er það „tabú“ að ríkið segi einhvern tíma upp starfsfólki? Er ekki ríkið rekið fyrir skattpeninga, blóðstrit almennings, og ætti þ.a.l. að gera meiri kröfur til sinna starfsmanna um ráðstöfun þeirra fjármuna?

Á tímum „óðaverðbólgu“ þegar ítrekað er búið er að vara ríkið við framúrkeyrslu og tyggja það ofan í ráðamenn að hið opinbera verði að draga saman seglin til þess að koma í veg fyrir ofþennslu fáum við þær fréttir að forstöðumenn stofnana stundi það að fara fram úr fjárlögum, einfaldlega vegna þess að þeir komast upp með það. Slíkt ætti að vera með öllu ólíðandi.

Jack Welch, fyrrverandi forstjóri GE og einn árangursríkasti stjórnandi í heimi, var með eina einfalda reglu sem fróðlegt er að rifja upp í tengslum við uppsagnir. Hann rak 10% af öllum stjórnendum fyrirtækisins sem stóðu sig „verst“ á hverju ári. Þetta gerði hann til þess halda mönnum við efnið og gefa um leið undirmönnum tækifæri. Þetta er umdeild en athyglisverð regla og gaman að uppfæra hana á hið opinbera: 10% af þeim stjórnendum opinberra stofnana sem ná minnstum sparnaði á hverju ári verður sagt upp störfum og undirmönnum þeirra gefin tækifæri til þess að sanna sig.

Það vita allir að þessi regla myndi skila fjárhagslegum árangri, og það miklum – það vita líka allir að hún verður aldrei sett.

Hið opinbera virðist aldrei spara fjármuni, kann það ekki, og þenst út eins og alheimurinn. Það frestar e.t.v. framkvæmdum og heldur að í því felist sparnaður en sparar sjaldan nokkuð. Það má ekki minnast á það en eitt það besta sem hið opinbera gæti gert í núverandi þensluástandi er hreinlega að fækka fólki, sérstaklega nú þegar atvinnuleysi er lítið sem ekkert. Miklu nær væri að reikna varanlegan sparnað inn í framtíðina af því að leggja niður stofnanir/deildir og fækka forstöðumönnum í stað þess að reikna sífellt áhrif þess að fresta framkvæmdum um 1-2 ár. En þetta má ekki tala um því þá yrði allt vitlaust í þjóðfélaginu og kaldræðið fordæmt, sérstaklega af þeim fjölmörgu sem aldrei virðast þreytast á að skamma ljónin fyrir að borða apana.

Með þessu er ekki verið að gera lítið úr störfum ríkisstarfsmanna hjá hinu opinbera eða segja að þeir vinni ekki mikilvæg störf. Hjá einkafyrirtækum er ekki spurt að því hvort fólk vinni vinnuna sína vel þegar nauðsyn krefur þess að seglin séu dregin saman. En stundum þarf því miður að draga saman í rekstri og segja upp fólki. Nú er sá tími hjá hinu opinbera og réttast væri að byrja á þeim forstöðumönnum sem eyða umfram gefnar heimildir.

Latest posts by Davíð Guðjónsson (see all)