Hvað er háskóli?

Á haustdögunum sem núna eru að ganga í garð eru þúsundir stúdenta við það að byrja í háskóla. Núna er því góður tími til að spyrja sjálfan sig, stjórnvöld og samfélagið í heild: Hvað er háskóli og hvað þýðir háskólamenntun?

Á haustdögunum sem núna eru að ganga í garð eru þúsundir stúdenta við það að byrja í háskóla. Núna er því góður tími til að spyrja sjálfan sig, stjórnvöld og samfélagið í heild: Hvað er háskóli og hvað þýðir háskólamenntun?

Ástæða þess að undirritaður spyr sig þessarra spurninga er sú mikla umræða sem fram hefur farið í þjóðfélaginu undanfarið um íslenska háskóla. Stjórnmálamenn, prófessorar, nemendur og ýmsir aðrir keppist um að koma skoðunum sínum á framfæri og það virðist vera góður almennur meðbyr með háskólunum í landinu. Að vissu leyti telur undirritaður þó að sú umræða sem hefur verið í gangi á mörgum stöðum sé á nokkrum villigötum. Menn hafa keppst við að skapa innlenda samkeppni í háskólamenntun og fjölga valmöguleikum sem er gott og vel. En jafnframt þessu hafa menn viljað fjölga háskólum og lögð hefur verið meiri áhersla á innlenda samkeppni heldur en erlenda.

Þær ranghugmyndir sem undirritaður telur að séu í gangi á ýmsum vígstöðum kristallast líklega í orðum Guðna Ágústssonar, landbúnaðarráðherra, sem sagði á dögunum “Það er talið að hægt sé að efla skólann með því að gera hann að löglegum háskóla” og átti þar við Hólaskóla – háskólann á Hólum. Gott og vel, að sjálfsögðu er góður möguleiki á því að hægt sé að bæta skólann, og aðra skóla, með því að “uppfæra” þá upp í háskóla. En ættum við ekki frekar að “uppfæra” skóla þegar þeir hafa sýnt fram á að uppfylla fyrirfram ákveðin gæðaviðmið fyrir háskóla í landinu. Það hefur lengi verið vöntun á því á Íslandi að skilgreina hvað felst í háskólamenntun og hvaða kröfur háskólar og kennarar þeirra þurfa að uppfylla til að skóli standist alþjóðleg gæðaviðmið og geti kallast háskóli.

Það virðist stundum eins og skólar á íslandi geti fengið að kalla sig háskóla eftir hentugsemi. Erlendis þurfa skólar að standast strangar kröfur, bæði hvað varðar námsframboð, menntun kennara, fjölda útskrifaðra framhaldsnema ásamt öðrum þáttum til að geta kallað sig Háskóla. Á Íslandi eru til dæmis fleiri Háskólar en í Noregi! Eins og allir vita eru þó margfalt fleiri íbúar í Noregi auk þess sem landið sjálft er stærra en Ísland að flatarmáli. Hvernig stendur á því að einungis örfáir skólar í Noregi fái að vera Háskólar, en nánast allir skólar á Íslandi? Jú, á Íslandi vantar gæðaskilgreiningu á því hvaða kröfur skóli þarf að uppfylla til þess að verða Háskóli.

Það er alveg ljóst að mati undirrataðs að á Íslandi er að verða mun auðveldara að fá “ódýrari” háskólagráður en áður var sem erfitt er að segja til um hvernig samfélagið mun meta. Það er því gríðarlega mikilvægt fyrir unga námsmenn og þjóðfélagið í heild að mótuð verði skýr stefna í menntamálum háskólastigsins og faglegar kröfur og reglur settar um starfsemi háskóla. Þetta skref er nauðsynlegt svo námsmenn framtíðar viti að hverju þeir ganga þegar þeir velja sér háskólanám.

Latest posts by Andri Heiðar Kristinsson (see all)