Stórkostlegt tækifæri
fyrir þá sem þora

Hvernig stendur á því að kerfi sem upphaflega átti að styðja við landbúnaðarframleiðslu í landinu hefur orðið helst það hlutverk að halda matvælaverði uppi og bændum niðri? Hvers vegna hefur þetta kerfi ekki verið afnumið? Stjórnmálamenn verða að fara að átta sig á því að í landbúnaðarmálum felast ekki bara erfiðleikar og svartnætti heldur stórkostlegt tækifæri til að stokka upp í ónýtu kerfi og nýta þá miklu fjármuni sem í það fara á miklu uppbyggilegri hátt.

Það er sennilega að bera í bakkafullan lækinn að skrifa pistil um landbúnaðarkerfið. Á undanförnum árum hafa verið skrifaðir svo margir skjámetrar af texta um galla þessa kerfis að ég er ekki í nokkrum vafa um að nánast hver einasti lesandi þessa vefrits er fullkomlega sannfærður um að afnema þurfi þetta kerfi og það sem fyrst. En eftir hverju bíðum við? Hvers vegna er það svo að kerfi sem heldur matarverði uppi og bændum niðri er enn við lýði?

Ábyrgð stjórnmálamannanna er mikil. Þeir hafa alltof lengi heykst á að leggja út í þá vinnu sem til þarf að koma þessu kerfi frá. En því má ekki gleyma að þrýstingurinn á breytingar og umbætur verður að vera stöðugur og í þessu máli er hans ekki síst að leita meðal ungs fólks. Ungt fólk verður að vera óhrætt við að stíga fram af fullum þunga í þessu máli á komandi vetri.

Stjórnmál snúast öðrum þræði um framtíðina og þær ákvarðanir sem teknar eru hverju sinni hafa áhrif á framtíð okkar. Sú áskorun sem felst í landbúnaðarkerfinu er einmitt af þeim toga. Ef við leggjum í þá vegferð að afnema kerfið mun það leiða til þess að samfélagið verður kraftmeira. Það kann að taka einhvern tíma – kannski 20 og kannski 30 ár, að koma þessari breytingu endanlega í gegn ef farin verður sú leið sem oftast hefur verið nefnd að kaupa bændur út úr kerfinu. En því lengur sem við frestum að hefjast handa, þeim mun lengur frestum við framtíðinni.

Það felast gríðarleg vannýtt verðmæti í íslenska landbúnaðarkerfinu og þau má mæla á ýmsa vegu. Fyrir það fyrsta fer mikið af beinum styrkjum til bænda. Með einföldum samasemreikningi af fjárlagasíðu landbúnaðarráðuneytisins virðast um 10 milljarðar fara í beina styrki af ýmsum toga. Í öðru lagi er bændum og framleiðslu þeirra veitt vernd með háum tollum. Hvort tveggja veldur því svo að matvælaverð hér á landi er svo hátt að það slær jafnvel harðsvíruðustu hagfræðinga út af laginu. Matvælaverð er svo auðvitað stór áhrifavaldur í verðlagi og verðbólgu sem svo aftur hefur áhrif á t.d. höfuðstól íbúðalána í gegnum verðtrygginguna og leiðir til þess að afborganir af lánum eru hærri en ella. Víða liggja þræðir.

En það skal ekki vanmeta mannlega þáttinn í málinu. Með því að viðhalda kerfinu, eða varðveita landbúnaðinn eins og það er stundum kallað, eru stjórnvöld að tryggja að næstu kynslóðir bænda muni ganga inn í kerfi hafta og forsjár. Margir þessara manna streða í dag við fátæktarmörk undir kerfi sem enginn man lengur hvers vegna var komið á upphaflega. Á meðan samkeppnin hefur á nánast öllum öðrum sviðum samfélagsins drifið menn af stað og bætt lífskjör og afkomu íslenskra athafnamanna- og kvenna eru bændur fastir í faðmi ríkisins. Með því að skera upp landbúnaðarkerfið myndi ekki aðeins losna um ákveðna fjármuni, heldur myndi eðlileg og heilbrigð samkeppni leiða til uppstokkunar í bændastéttinni. Hún myndi tryggja að í stað þess að búa við sultarmörk gæfist komandi kynslóðum bænda tækifæri til að starfa í landbúnaði á eigin verðleikum og þeim sem bregða vilja búi færi á að finna sér ný störf í þjóðfélaginu.

Talandi um komandi kynslóðir og samfélag framtíðarinnar. Ég hef stundum saknað þess að heyra stjórnmálamenn tala meira um framtíðina. Hvernig sjá þeir fyrir sér að fjármunirnir sem fara í landbúnaðarkerfið gætu nýst í önnur verkefni? Ein hugmyndin væru skattalækkanir. En ekki síður athyglisverð væri sú hugmynd, og táknræn upp á framtíðina að gera, að þessir peningar rynnu inn í menntakerfið með það að leiðarljósi að leggja undirstöðuna að þekkingarsamfélagi 21. aldarinnar, sem oft er rætt um á tyllidögum en minna unnið að á virkum dögum.

Reynsla Finna gæti verið okkur leiðarljós í þessum efnum en þar fóru stjórnmálamenn fyrir um 15 árum, skömmu eftir að Sovétríkin liðuðust undir lok, út í stefnumörkun af þessu tagi, þ.e. að byggja upp þekkingarsamfélag og lögðu meðal annars áherslu á að efla menntakerfið. Þetta hefur skilað sér margfalt til baka, finnska skólakerfið þykir eitt það besta í heiminum og uppgangur þekkingariðnaðarins hefur verið gífurlegur. Þar dregur að sjálfsögðu vagninn stígavélaframleiðandinn gamli, Nokia, sem er nú leiðandi fyrirtæki á heimsvísu í framleiðslu farsíma.

Breytingar á landbúnaðarkerfinu eiga ekki að vera eitt þessara mála sem verða rædd í nefnd og hugsanlega fjallað um í skýrslu. Gott atvinnuástand og traust staða ríkissjóðs þýðir að að íslenskir stjórnmálamenn standa núna beinlínis frammi fyrir stórkostlegu tækifæri til þess að leggja niður gagnslaust kerfi hafta og kyrrstöðu og taka upp stefnumörkun til framtíðar. Frumkvæði manna, áræðni og hæfileikar fá aldrei að njóta sín jafnríkulega og þegar dregið er úr höftum og samkeppni komið á og þar á íslenskur landbúnaður, ekki síður en íslenskt samfélag, mikil sóknarfæri. Tækifærið er fyrir þá sem þora.

Árni Helgason skrifar

Árni hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.