Áminning gærdagsins

Það sem af er þessum áratug hefur áróður um stríð gegn hryðjuverkum dunið sem síbylja í eyrum okkar. Svo mikið hefur verið rætt um yfirvofandi hryðjuverkaárásir að flestir eru hættir að hlusta, rétt eins og menn hættu að hlusta á hvern annan hræðsluáróður um fuglaflensu og aðra skaðlega heimsfaraldra fyrir löngu síðan. Ólíkt fuglaflensunni, sem heimsbyggðin hefur blessunarlega ekki enn séð mikið af, fáum við með reglulegu millibili áminningu um að hryðjuverkaógnin er raunverulega fyrir hendi. Í gær fékk almenningur slíka viðvörun svo um munaði.

Það sem af er þessum áratug hefur áróður um stríð gegn hryðjuverkum dunið sem síbylja í eyrum okkar. Svo mikið hefur verið rætt um yfirvofandi hryðjuverkaárásir að flestir eru hættir að hlusta, rétt eins og menn hættu að hlusta á hvern annan hræðsluáróður um fuglaflensu og aðra skaðlega heimsfaraldra fyrir löngu síðan. Ólíkt fuglaflensunni, sem heimsbyggðin hefur blessunarlega ekki enn séð mikið af, fáum við með reglulegu millibili áminningu um að hryðjuverkaógnin er raunverulega fyrir hendi.

Í fyrra var það London, í hittifyrra Madrid. Eina ferðina enn var almenningur áminntur um að umheimurinn er allt annað en öruggur þegar breskir og bandarískir ráðamenn tilkynntu í gær að komið hefði verið í veg fyrir stórfellda hryðjuverkaárás. Hópur manna, flestir af pakistanískum uppruna, hafði lagt á ráðin um að sjálfsmorðssprengjuárásir samtímis í tíu farþegaþotum á leið frá Bretlandi til Bandaríkjanna. Ef af hefði orðið er ljóst að við hefðum horft upp á annan 11. september. Umfangið hefði verið gríðarlegt. Á slíkum dögum er ekki annað hægt en að vera fegin að eftirlitið sé jafn gríðarlegt og raun ber vitni.

Flestir muna hvar þeir voru nákvæmlega staddir þegar árásirnar á tvíburaturnana í New York voru gerðar fyrir rétt um fjórum árum. Þann dag stóðu margir í þeirri trú að hér eftir yrði allt breytt. Og líf okkar flestra breyttist á vissan hátt. Öryggi þeirra sem hyggjast bregða sér eitthvað frá heimahögunum er ekki hið sama og áður og það fengu flugfarþegar gærdagsins að finna.

En lífið gengur sinn vanagang og maðurinn er ótrúlega fljótur að aðlagast. Fáa heyrir maður kvarta yfir því að þurfa að mæta fyrr á flugvöllinn, borða með plasthnífapörum eða geta ekki snyrt á sér neglurnar um borð í flugvél. Og nú lítur jafnvel út fyrir að skilja verði gosflöskurnar og linsuvökvann eftir í flugstöðvabyggingunum. Öll viljum við lifa eðlilegu lífi og hluti af því er að geta stigið um borð í flugvél. Hverjum tíma fylgir einhver ógn og hryðjuverkin eru ógn okkar tíma.

Verulega sláandi er að sjá lista sem breskir fjölmiðlar birtu með nöfnum og frekari upplýsingum um þá sem handteknir hafa verið vegna fyrirhugaðra árása í farþegaþotunum. Margir hverjir eru þeir fæddir og aldir upp í vestrænum ríkjum. En það sem slær mann mest er að flestir eru þeir fæddir eftir 1980 og sá yngsti árið 1989. Ljóst er að ný kynslóð hryðjuverkamanna er farin að láta til sín taka. Ef að líkum lætur megum við því búast við að hryðjuverkaógnin eigi eftir að fylgja okkur um langt skeið.

Latest posts by Fanney Rós Þorsteinsdóttir (see all)