Fækkum umferðarslysum!

En eru hraðatakmarkarar eina lausnin?

Staðreyndin er líklega sú að vegakerfið á Íslandi er löngu orðið úrelt miðað við þá bílaumferð sem fer um þjóðvegi landsins. Þungaflutningar hafa t.a.m. stóraukist á undanförnum árum og auk þess hlutfall stórra og þungra bíla, s.s. jeppa í umferðinni. Stór hluti banaslysa verður einmitt þegar misþungir bílar rekast á úr gagnkvæmri átt.

Nýlega fylgdi Morgunblaðinu aukakálfur um umferðamál sem gefinn var út á vegum Umferðarstofu. Í þeim kálfi fjallar samgönguráðherra, Sturla Böðvarsson, enn á ný um þá hugmynd sína að setja hraðatakmarkara í bíla. Á orðum hans má skilja að tæknilega sé ekkert þessu til fyrirstöðu og fái hann einhverju um þetta ráðið sé einungis tímaspursmál hvenær þetta komi til framkvæmda.

Meginástæða þessarar hugmyndar ráðherra er vafalaust fjöldi alvarlegra umferðarslysa á Íslandi. Það er hárrétt hjá honum að fjöldi þeirra er allt of mikill og mikilvægt er að reyna að draga úr slysum eins og mögulegt er. Skoðun ráðherra er klárlega sú að hraði í umferðinni sé of mikill og að hann sé helsta ástæða slysa. Vissulega er það augljóst að því hraðar sem ökutæki fer því alvarlegri verða afleiðingarnar ef eitthvað óvænt gerist. Það er hins vegar að mínu mati, full mikið einblínt á hraðann sem orsakavald í þessu samhengi. Nú hefur t.a.m. alvarlegum slysum á Reykjanesbrautinni fækkað mjög mikið eftir að hluti hennar var tvöfaldaður. Ætli sami árangur hefði náðst með því að lækka leyfðan hámarkshraða í 75 km/klst? Það er erfitt að svara því en maður ímyndar sér að meðalhraði á tvöfaldaðri Reykjanesbraut hafi hækkað eftir breytingarnar frekar en hitt.

Staðreyndin er líklega sú að vegakerfið á Íslandi er löngu orðið úrelt miðað við þá bílaumferð sem fer um þjóðvegi landsins. Þungaflutningar hafa t.a.m. stóraukist á undanförnum árum og auk þess hlutfall stórra og þungra bíla, s.s. jeppa í umferðinni. Stór hluti banaslysa verður einmitt þegar misþungir bílar rekast á úr gagnkvæmri átt. Ökumaður á smábíl má sín því miður ekki mikils þegar tvöfalt þyngri og stærri bíll lendir á honum úr gagnstæðri átt. Væri þá kannski betra að banna jeppa á Íslandi í stað þess að setja hraðatakmarkara í bíla? Hugsanlega myndi það skila sama, ef ekki betri árangri í að draga úr alvarlegum umferðarslysum og í eðli sínu er þetta ekki verri hugmynd en hugmynd ráðherra.

Í öðru lagi má nefna að margir þessara jeppa eru búnir stálgrindum á húddinu sem veita enga eða í besta falli, margfalt minni fjöðrun en án grindanna. Hugmyndin er sú að skrokkurinn á bílum eigi að draga úr höggþunganum sem lendir á farþegum. Af þeim sökum stuðlar búnaður, eins og áðurnefndar grindur, einfaldlega að því að höggið verður miklu meira á þá bíla sem lenda framan á svo útbúnum jeppum. Hvað með þá að banna svona grindur sem í flestum tilvikum í dag eru eflaust settar upp af útlitslegum ástæðum? Enda má segja að um drápstól sé að ræða sem upphaflega voru hugsuð til að verja bíla þegar ekið er á búfénað á ferð.

Það er allavega ljóst að vegakerfið á Íslandi þarfnast stórkostlegra endurbóta. Það er einfaldlega ekki ásættanlegt fyrir ökumenn að keyra í mikilli umferð á þjóðvegum landsins á vegum sem eru í besta falli 1,5 faldir að breidd að vegöxl meðtalinni. Með hliðsjón af stórauknum þungaflutningum er ljóst að gera þarf stórátak í vegamálum og nauðsynlegt er að tvöfalda, a.m.k. helstu akbrautir til og frá höfuðborginni, s.s. Vesturlandsveginn að Borgarnesi og Suðurlandsveginn að Selfossi. Á öðrum stöðum sem tíð slys hafa orðið mætti hugsanlega setja vegrið milli akreina, með þeim hætti væri komið í veg fyrir að bílar sem koma úr gagnkvæmri stefnu rekist á. Þrátt fyrir að hraðatakmarkarar færu í bíla verður ekki hægt að forðast slysin meðan hætta er á því að misþungir bílar úr gagnkvæmri stefnu rekist á nema að leyfður hraði væri þeim mun minni.

Það skal heldur ekki draga úr því að ávallt má rekja ákveðinn fjölda slysa til hraðaksturs þar sem ökumenn keyra einfaldlega of hratt miðað við aðstæður. Því væri ekki ástæða til þess, þrátt fyrir áðurnefndar betrum bætur á vegakerfinu, að hækka leyfðan umferðarhraða.

Mikilvægi þess að draga úr alvarlegum umferðarslysum er einfaldlega ómetanlegt. Ökumenn verða að bera ábyrgð sem einstaklingar í umferðinni og sýna að þeir geti staðið undir þeim kröfum. Hraðatakmarkarar í bíla eru leið til að svipta einstaklinga þeirri ábyrgð. Það er rétt hjá ráðherra að þeir myndu vafalaust leiða til einhverrar fækkunar alvarlegra umferðarslysa. Þetta er hins vegar vond leið og afar varhugaverð og síst betri en sú leið að banna jeppa í umferðinni. En eru hraðatakmarkarar kannski fýsilegur kostur að mati ráðherra því hann vill ekki horfast í augu við hversu lélegt þjóðvegakerfið á Íslandi er?

Er ekki kominn tími til að ökumenn, sem greiða mikla fjármuni til ríkisins í formi innflutningsgjalda af ökutækjum og af bensíni, fái til baka stærri hlut af þeim peningum í formi bætts vegakerfis en verið hefur?

Latest posts by Þórður Heiðar Þórarinsson (see all)