Meiri máfaplága

Máfaplágan gerir nú vart við sig að nýju, sem venjan er orðin á þessum árstíma. Máfurinn kemur þó óvenjulega sterkur inn þetta árið, enda er af óþekktum ástæðum afskaplega lítið að finna af náttúrulegri fæðu sílamáfsins í sjónum. Banhungraður lætur fuglinn varpið þetta árið lönd og leið, en sækir þess í stað í miklum mæli inn í borgina þar sem hann leitar matar af áfergju.

Máfaplágan gerir nú vart við sig að nýju, sem venjan er orðin á þessum árstíma. Máfurinn kemur þó óvenjulega sterkur inn þetta árið, enda hefur af óþekktum ástæðum náttúruleg aðalfæða sílamáfsins, sandsílið, verið af skornum skammti í sjónum síðan síðasta sumar. Fuglinn er því banhungraður og lætur varpið þetta árið lönd og leið. Þess í stað sækir hann í miklu meira mæli inn í borgina, enda er þar fæðu að finna sem hann reynir með áfergju þess sveltandi að klófesta.

Þegar svona er ástatt éta þeir næstum hvað sem kjafti kemur, en helst er það sem fyrr atlaga þeirra að brauðgjöfum til andanna á Tjörninni sem farið hefur fyrir brjóstið á borgarbúum, – þó svo einnig hafi frést af kótilettu sem hvarf á dularfullan hátt af grilli í Breiðholtinu.

Lífríki Tjarnarinnar hefur því heilmikið breyst, og sannarlega er ágangur máfanna slíkur að vart verður við unað. En það er ekki hlaupið að því að skipuleggja árangursrík inngrip í náttúruna. Í liðinni viku náðist þverpólítísk samstaða í umhverfisráði um það að grípa skuli til hertra aðgerða til að reyna stemma stigu við svonefndri máfaplágu sem pistlahöfundur hefur áður ritað um. Það er sjálfsagt og eðlilegt að brugðist sé við kröfum borgarbúa sem hafa samkvæmt umhverfisráði verið háværar.

Það er líklega heilagleiki æskuminningarinnar um „brabra“ og brauð, ásamt gífurlega neikvæðri ímynd máfsins sem okkur hefur verið innrætt frá blautu barnsbeini sem tvinnast saman í þessari heitu umræðu. Menn segja hann varg og sýklabera. Rétt er að hann dritar salmonellu ef hann kemst í þannig smitaðan úrgang á annað borð, en það gera stokkendurnar okkar líka. Fuglinn er mjög frekur og duglegur og ætlar sér auðvitað að lifa. Manni virðist stundum af umræðunni að ekki sé bara um verulega hungraðan fugl að ræða heldur stjórnlaust óargardýr. En það gildir svo sem einu, því það er ekki almennur vilji fyrir uppgangi hans í tjarnarsamfélaginu.

En hvað skal til bragðs taka? Það virðist ljóst að það sé til lítils að hlaupa í stórkostlegar fækkunaraðgerðir á máfastofninum. Pistlahöfundi skilst á sérfróðum að skjóta þyrfti þá um 30 þúsund fugl árlega í tíu ár til að eitthvað myndi á sjá, en undanfarið hafa 7000 fuglar verið skotnir niður árlega. Auðvitað væri hægt að reyna að fæla fuglinn frá Tjörninni með því einfaldlega að skjóta á hann þar, en það hljómar í meira lagi ósmekklega að brytja alúðlega brauðmola í endurnar í sama mund og máfurinn væri skotinn niður. Þó hljómar tillaga umhverfisráðsins um að beina tilmælum til almennings um að missa sig ekki í brauðgjöfum og ganga snyrtilega um einna best. Bót í málinu verður að minnsta kosti ekki fengin á þessu eina sumri.

Auðvitað er óskandi að ótruflaðar samverustundir barna og anda við Tjörnina verði endurheimtar. En það skýtur óneitanlega skökku við í þessu máli öllu hversu fyrirferðarlítil umræðan er um ástæðu þess að máfurinn er sveltandi. Það hlýtur að vera alvarlegra mál að það hefur eitthvað gerst í sjónum sem veldur því að sandsílið er beinlínis horfið. Sílamáfurinn er vitanlega ekki eina dýrategundin sem stólað hefur á þá fæðuuppsprettu. Nú þegar er ljóst til dæmis að 2 – 4 ára þorskur er að léttast og fyrstu athuganir á stofnum sjófugla í kjölfar þessa gefa ekki góða mynd. Við erum andavinir jú en þó fyrst og fremst fiskveiðiþjóð. Eða hvað?

Latest posts by Ásdís Rósa Þórðardóttir (see all)

Ásdís Rósa Þórðardóttir skrifar

Ásdís Rósa hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2003.