Styðjum stelpurnar

Í dag, fimmtudaginn 13. júlí, hefst eitt af stærri knattspyrnumótum landsins, mótið er kallað Símamótið (eflaust muna einhverjir eftir mótinu sem Gull- og silfurmótið) og fer fram á félagssvæði Breiðabliks í Kópavoginum. Þetta er í 22. skipti sem mótið er haldið og það er umfangsmesta knattspyrnumót ársins sem er einungis fyrir stúlkur.

Á hverju ári fara fram nokkur stór knattspyrnumót á vegum og fyrir yngri flokka knattspyrnufélaga landsins. Helsti munurinn á þessum mótum er sá að mismunandi aldursflokkar taka þátt í hverju móti, auk þess sem að sum þeirra eru fyrir stelpur en önnur fyrir stráka.

Símamótið er, eins og áður sagði, fyrir stelpur og er mjög stórt og veglegt mót. Flestir gera sér líklega ekki alveg grein fyrir því hversu stórt “umfangsmikið” yngri flokka mót er og til þess að kasta ljósi á það er hér smá tölfræði. Á Símamótinu munu rétt um 1600 stúlkur á aldrinum 5-16 ára (3., 4., 5., 6., og 7. flokkur) leika listir sínar á félagssvæði Breiðabliks. Enn fremur þá munu rétt um 100 þjálfarar auk liðlega 300 fararstjóra og leiðbeinenda fylgja liðunum og reyna sjá til þess að allir njóti tímans til fullnustu. Öllum ætti að vera ljóst að mót sem tekur á móti þvílíkum fjölda þarf einnig veglegan fjölda starfsmanna að halda svo að allt fari vel fram. Því munu á Símamótinu starfa alls ríflega 100 sjálfboðaliðar til þess að tryggja að allt gangi vel og að móti verði hið ánægjulegasta. Sá fjöldi fólks sem tekur þátt í því að gera þetta mót að veruleika er því á bilinu 2100-2300.

Það sem er líklega einna ánægjulegast við mót af þessu tagi er að á þessum vettfangi mætast ekki bara stóru félögin sem eru vön að etja kappi í eldri flokkum Íslandsmótanna. Á Símamótinu má finna jafnt stærri félög sem minni og allir mæta á völlinn sem jafningjar, enda smærri liðin oft sýnd veiði en ekki gefin. Dæmi um þau félög sem taka þátt í mótinu eru Valur (Reykjavík), K.A. (Akureyri), Grundarfjörður, Álftanes, Ægir (Þorlákshöfn) og B.Í. (Ísafjörður). Í heildina taka þátt í mótinu 26 félög víðsvegar af landinu. Það sem meira er, þá senda þessi tuttugu og sex félög hvorki fleiri né færri en 160 lið til þátttöku í öllum aldursflokkum.

Þessar tölur og miklu heldur sú sjón að verða vitni af mótinu eru góður vitnisburður um öflugt yngri flokka starf margra félaga á landinu. Efnilegar knattspyrnustúlkur má finna hjá öllum félögum landsins og þess vegna er spennandi að bíða og sjá hvort hæfileikaríkar stúlkur muni blómstra á mótinu líkt og svo margar hafa gert í gegnum tíðina.

Svona í lokin vill undirritaður hvetja alla þá sem eiga einhvern frítíma frá föstudagsmorgni og fram á miðjan sunnudag til þess að gera sér ferð í Kópavoginn. Margir eiga eflaust systur, frænkur, dætur, ömmu/afa- og eða langömmu/afabörn sem munu taka þátt í mótinu. Það er því ekki eftir neinu að bíða enda felur heimsóknin á félagssvæði Breiðabliks í sér holla og heilsusamlega göngu í frjálslegu og skemmtilegu umhverfi. Einnig er um að gera að taka með sér önnur börn enda munu grasvellirnir minna á risastóran leikvöll. Svo er aldrei að vita nema sú kátína sem einkennir mót af þessu tagi geti verið innblástur fyrir þitt eigið barn.