Verður lífið aftur samt?

Og það sem skiptir mestu máli út frá spurningunni um endurkomu eðlilegs lífs—þá sést það á hafnaboltaleikjunum og víðar að fólk langar ekki að lifa í ótta lengur en nauðsynlegt er. Lífið heldur áfram og gleðin finnur sinn farveg.

Nú þegar flest bendir til þess að mjög stytti í annan endann á því undarlega skeiði að heimsfaraldur kórónaveirunnar haldi heiminum í heljargreipum velta margir því fyrir sér hvort allt sé breytt, og ekkert verði aftur eins og það var.

Mjög snemma í faraldrinum sá ég á Facebook uppfærslu frá sagnfræðningnum góðkunna, Stefáni Pálssyni, þar sem hann hélt því fram að reynsla mannkyns af svona ástandi væri sú að jafnvel þrátt fyrir að farsóttir setji allt í tímabundið uppnám, þá fari heimurinn býsna fljótt aftur í eðlilegt horf að þeim loknum. Allt fer þetta jú einhvern veginn á endanum, þótt margir efist um það á tímabili.

Mér hefur verið hugsað oft til þessarar uppfærslu Stefáns og get játað að þótt hún hafi vakið með mér von á sínum tíma—þá hef ég einmitt stundum efast um hana. Getur það verið að eftir allt þetta umrót þá muni veröldin falla aftur í skorður sem líkjast þeim sem hún hvíldi í fyrir covid? Ég hef lengi vitað að Stefán Pálsson er býsna vitur náungi—þannig að þessi spádómur hans hefur líka verið ákveðin huggun.

Og margvíslegar spár hafa líka heyrst um að allt verði einmitt gjörbreytt. Við munum öll þurfa að vera með bólusetningarskírteini á okkur, heimila stjórnvöldum aðgengi að smitrakningarforritum í símunum; að við þurfum að vera með grímur þegar við förum innan um annað fólk. Allir hætti að heilsast með handabandi og unga fólkið hætti að draga sig saman í mökunarhugleiðingum af ótta við smitsjúkdóma.

En nú þegar eru farnar að koma fram vísbendingar um að Stefán Pálsson hafi einmitt haft á réttu að standa. Dæmið sem ég fylgist með er í Bandaríkjunum þar sem sum ríkin hafa gengið mjög langt í afnámi ýmis konar sóttvarnaaðgerða—jafnvel gegn gríðarlegum mótmælum. Í Texas—gat það nú verið—afnam ríkisstjórinn allar takmarkanir með pennastriki fyrir nokkrum vikum. Þar hópast nú tugsþúsundir manna að horfa á Charlie Culberson og félaga í Texas Rangers, og þótt sumir setji á sig grímu í upphafi leiksins, þá virðist sem samneytisfeimnin sé fljót að fara þegar leikar æsast og ölið flæðir.

Kannski opnaði Texas of fljótt en sem betur fer virðist enn sem komið er að faraldurinn sé þar hættur að vera samfélagsleg ógn. Innlögnum fækkar hratt og bólusetningin hefur náð tökum á vandamálinu. Og það sem skiptir mestu máli út frá spurningunni um endurkomu eðlilegs lífs—þá sést það á hafnaboltaleikjunum og víðar að fólk langar ekki að lifa í ótta lengur en nauðsynlegt er. Lífið heldur áfram og gleðin finnur sinn farveg, og sá farvegur er óbreyttur. Maður er—og verður—manns gaman.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.