Vélarnar taka völdin

Þegar saga mannkyns er skoðuð þá blasir við ansi einsleit mynd (tölulega séð) í mjög langan tíma þar til ein uppfinning verður þess valdandi að þróun mannskyns fer af stöðnun inn á veldisvöxt. Það var beislun James Watts á gufuaflinu þar sem aldargömlum starfsháttum sem byggðust upp á nýtingu vöðvaafls (manns eða vinnudýra) voru loks aflögð. Það tók þessa uppfinningu nokkra áratugi að komast í almenna notkun en þegar það gerðist var það upphafið af tæknibyltingu sem olli svo miklum straumhvörfum að hún er kölluð iðnbyltingin.

Í bókinni „The second machine age“ skoðar Íslandsvinurinn (pabbi hans er frá Akureyri) Erik Brynjolfsson prófessor við MIT stöðu upplýsingatækninnar í dag og kemst að þeirri niðurstöðu að við séum á barmi nýrrar iðnbyltingar sem mun hafa gríðarleg áhrif á heiminn eins og við þekkjum hann.

Dæmin sem hann nefnir máli sínu til stuðnings hafa hingað til verið talin svo flókin að vélmenni geti ekki lært þau eins og að keyra bíl eða svara flóknum spurningum með orðaleikjum. Nú hafa sjálfvirkir bílar á vegum Google keyrt um vegi Kalíforníu í nokkur ár áfallalaust og IBM hefur búið til ofurtölvuna Watson sem sigraði árið 2011 bestu Jeopardy keppendur Bandaríkjanna.

Möguleikar þessara véla til þess að taka störf af fólki eru gríðarleg og alveg ljóst að það verða mikil átök þegar fyrirliggjandi starfsstéttir munu reyna að vernda sína stöðu. Í dag eru miklar deilur í fjölda borga um þjónustuna Uber sem keppir við hefðbundna leigubíla. Þær deilur verða stormur í vatnsglasi  í samanburði við deilurnar þegar sjálfvirkir bílar fara að taka við sem bílstjórar.

Í iðnbyltingunni var uppi hreyfing sem kennd var við Lúddíta sem barðist gegn því að handverksmenn misstu vinnuna á kostnað vefnaðarvéla. Þeir brutu vélarnar og brenndu hús. Á komandi árum gætum við búið við mikið atvinnuleysi hjá fólki sem hefur misst vinnuna til véla. Það hefur reyndar þegar gerst þegar rýndar eru tölur um fjölda starfandi í ýmsum atvinnugreinum. Það er hættulegur jarðvegur þar sem öfgahugmyndir fá auðveldlega sprottið.

Það er því ljóst að komandi ár og áratugir munu einkennast af gríðarlegum framförum sem gætu hæglega haft mikil samfélagsleg áhrif. Áskorun samfélagsins verður að uppskera af framförunum jafnframt því sem hlúð verður að þeim sem lenda tæknilega á milli skers og báru.

Fyrirlestur Erik Brynjolfsson á TED um komandi öld vélanna.

Áætlanir IBM um næstu skref í þróun á Watson

Latest posts by Óli Örn Eiríksson (see all)

Óli Örn Eiríksson skrifar

Óli Örn hóf að skrifa á Deigluna í september 2004.