Væntingar og verðmæti

Nú í morgun bárust af því fréttir að hlutabréf á mörkuðum í Asíu væru í frjálsu falli eftir hrun á hlutabréfum í Bandaríkjunum fyrir helgi. Þótt flestir hafi búist við að hlutabréf myndu lækka í verði eftir að tilkynnt var um hækkun verðbólgu vestan hafs í byrjun síðustu viku, er niðursveiflan mun meiri en flesta óraði fyrir.

Nú í morgun bárust af því fréttir að hlutabréf á mörkuðum í Asíu væru í frjálsu falli eftir hrun á hlutabréfum í Bandaríkjunum fyrir helgi. Þótt flestir hafi búist við að hlutabréf myndu lækka í verði eftir að tilkynnt var um hækkun verðbólgu vestan hafs í byrjun síðustu viku, er niðursveiflan mun meiri en flesta óraði fyrir. Þær fjárhæðir sem tapast hafa, eða öllu heldur minnkun verðmæta, eru á mælikvarða sem nær ómögulegt er að hendur reiður á, en tvær trilljónir bandaríkjdala ($2.000.000.000.000) munu hafa þurrkast út í þessum ósköpum.

Nasdaq-vísitalan, sem aðallega mælir gengi fyrirtækja í hátækniiðnaði, féll um fjórðung. Fyrir rúmum mánuði náði þessi vístala methæðum en síðan nemur lækkun hennar 34%. Auðvitað hafa verðbólgutölur og vaxtahækkanir í Bandaríkjunum áhrif en það er þó aðeins hluti af skýringunni. Fyrirtækin á Nasdaq eiga það mörg hver sammerkt, að þau byggja fyrst og fremst á væntingum en síður á áþreifanlegri framlegð. Þetta á sérstaklega við um svokölluð .com-fyrirtæki sem hafa skotið upp kollinum með miklum hamagangi síðustu misseri. Þar er ekkert samræmi milli fjárfestingar og afkomu fyrirtækjanna, sem eru nær öll rekin með umtalsverðu tapi.

Eins sveitalegt og það kann að hljóma, þá hlýtur verðmæti fyrirtækja að ráðast endanlega af arðsemi þeirra. Vissulega skipta væntingar miklu máli og fyrirtæki án framtíðar er auðvitað verðlaust. En væntingarnar einar og sér eru ekki nóg og verður að telja skakkaföllin á hlutabréfmörkuðum nú sterka vísbendingu það.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.