Uppgjörið sem varð kósí

Kosningarnar sem áttu að vera uppgjör við Panama-skjölin enduðu á að vera kósí stöðugleikakosningar um hvernig ætti að ráðstafa öllum peningum sem ríkið hefur tekið af kröfuhöfunum. Bjarni Ben, Katrín Jakobs og Viðreisn eru sigurvegarar kosninganna, Björt framtíð og Framsókn geta lýst yfir varnarsigri og Samfylkingin er taparinn. Flokkur fólksins vann svo 2. deildina, kemst á fjárlög og í notalega innivinnu.

Sumarþokan

Sennilega var það klókara en margir áttuðu sig á þegar ríkisstjórnin náði að ýta kosningunum fram á haustið. Haust í rýmstu merkingu þess orðs, síðustu helgina í október. Lætin frá því í apríl höfðu gengið niður, við tók lengsta og veðursælasta sumarfrí í manna minnum þar sem Ísland vann stórsigra í EM í fótbolta. Allt ofan í efnahagslegan uppgang. Þegar loksins kom að kosningunum hafði minningin um Sigmund Davíð að útskýra fyrir sænska rannsóknarblaðamanninum tilurð Wintris og starfsferil sinn hjá the trade unions vikið fyrir vangaveltum fólks um hversu hratt hagnaðurinn af nýja gistiheimilinu myndi borga niður smálánin af Rauðu myllunni í París.

Eldri kjósendur skila sér

Það óvænta í baráttunni var hrun Pírata á síðustu metrunum og Usain Bolt lokaspretturinn hjá Sjálfstæðisflokknum. Könnun, sem birtist daginn fyrir kjördag, sýndi flokkana um það bil jafna með 21-22% fylgi en niðurstaðan varð 29% á móti 14.5%. Hugsanlega er til staðar einhvers konar kerfisbundið ofmat í skoðanakönnunum á flokki eins og Pírötum, sem eiga helst stuðning hjá ungu fólki, stuðning sem skilar sér ekki í kjörkassana. Sjálfstæðisflokkurinn er hins vegar sterkari hjá eldri kjósendum sem koma kannski síður fram í könnunum en mæta eins og klukka á kjördag, prúðbúnir, nýkomnir úr vöfflukaffi og skila sínu.

Kosningablokkin sem enginn skildi á endanum

Útspil Píratanna um kosningablokk var sérstakt og tók eflaust mið af þessum útblásnu fylgistölum þar sem stjórnarandstöðuflokkarnir fjórir höfðu verið með nokkuð sterkan og stöðugan meirihluta. Við fyrstu sýn leit þetta út fyrir að vera úthugsuð og nokkuð klók leið til að fanga athyglina í aðdraganda kosninga en annað kom heldur betur á daginn. Þetta varð að engu, formennirnir virkuðu vandræðalegir á þessum örfáu fundum og vissu ekkert hvað þeir voru að gera. Eftir á að hyggja stendur upp úr af hverju í ósköpunum þetta var gert. Það hefði verið mjög eðlilegt að þessir fjórir flokkar, stjórnarandstaðan, myndu ræða saman eftir kosningar. En í staðinn var farið að vandræðast með einhverjar viðræður rétt fyrir kosningar sem skiluðu engu nema að Píratar væru tilbúnir að bakka með sitt baráttumál um stutt kjörtímabil. Það hefur ekki verið þeim til framdráttar í fylgistölum en áhrifin á fylgi hinna þriggja flokkanna voru lítil sem engin, þó þetta hafi hugsanlega verið einn af mörgum þáttum í lækkandi fylgi Samfylkingarinnar og girt fyrir möguleika flokksins að sækja fylgi til hægri. Þetta gaf Sjálfstæðisflokknum og Viðreisn hins vegar byr í seglin.

Í raun var þetta ótrúleg leið við að setja pressu á sjálfan sig þegar ekkert tilefni var til. Svolítið eins og maður sem er að keyra heim til sín, fjölskyldan veit að hann er á leiðinni og það er enginn pæla í því hvenær hann kemur. Hann ákveður hins vegar að hringja heim og lofa því hann verði kominn eftir 15 mínútur og verði búinn að kaupa í matinn. Og fólk geti sko treyst því. En okkar maður endar á að koma heim hálftíma síðar og ekki með neinn mat og nær að breyta þægilegri heimferð í vonbrigði.

Sennilega urðu hinir flokkarnir samt pínulítið fegnir þegar Píratar koðnuðu niður á lokametrunum. Það var enginn í alvöru spenntur fyrir að „endurræsa“ allt stjórnkerfið, þurrka út stjórnarskrána og verða uppáhalds ríkisstjórn Julian Assange í heiminum. Þó það muni enginn viðurkenna það út á við.

Næsta stjórn

Nú þarf að mynda ríkisstjórn. Miðað við umræður formannanna í kjölfar kosninga og útilokunar-leikinn er líklegasta lendingin að Sjálfstæðisflokkur, Viðreisn og Björt framtíð fari saman. Björt framtíð og Sjálfstæðisflokkur vinna nú þegar saman í sveitastjórnum í bæði Kópavogi og Hafnarfirði og það eru ýmsir fletir milli þessara flokka. Slík stjórn gæti haft frekar breiða skírskotun varðandi málefni og jafnvel reynt að tryggja samstarf við aðra flokka á þingi um tiltekin mál. Stjórnin væri þó bara með eins manns meirihluta. Hún gæti hins vegar þegar líður á kjörtímabilið og ef með þarf fengið stuðning frá Framsóknarflokknum, t.d. með því að taka flokkinn upp í ríkisstjórn þegar líður á. Að því gefnu að vinnustaðasálfræðingnum, sem er örugglega stutt í að verði kallaður til, gangi vel að ræða við Sigmund Davíð.

Hinn möguleikinn væri að mynda þriggja flokka stjórn Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og VG. Sá möguleiki er flóknari og sennilega ekki raunhæfur nema til að höggva á hnútinn eftir langar viðræður sem hafa engu skilað. Þótt VG og Sjálfstæðisflokkurinn gætu unnið saman á ýmsum sviðum þá væri VG að gefa á sér höggstað á vinstri vængnum, t.d. gæti Samfylkingin byggt sig upp aftur með því að verða stjórnarandstöðuflokkurinn við hliðina á VG sem er í ríkisstjórn með íhaldinu. Sem er ástæðulaust fyrir VG, sem eru með gott fylgi og sterka stöðu núna og helsta keppinautinn á grafarbakkanum. Líklegra er að VG sjái til og bíði hvort það myndist möguleiki á fimm flokka ríkisstjórn undir þeirra forystu.

Kjötkatlarnir aldrei verið heitari

Sæti í næstu ríkisstjórn er hins vegar pólitískt eftirsótt. Ríkissjóður er fullur af peningum og það er beinlínis verkefni næstu ríkisstjórnar að koma þeim peningum í farveg. Einhvers konar nirvana hvers stjórnmálamanns sem getur klippt á borða, tekið skóflustungur og lagt hornsteina sem aldrei fyrr og barið sér á brjóst fyrir að hafa tryggt íþróttahús, jarðgöng og nýjar skurðstofur hingað og þangað.

Framundan er því mikið af fréttatímum með óljósum svörum um hver sé að tala við hvern. En ef um allt þrýtur þá munar okkur náttúrulega ekki um að taka einar kosningar í viðbót – það væru þær tólftu frá 2008.

Ps. Ég gúgglaði „kósí“ því ég var ekki viss hvort það var með –í eða –ý. Google þekkti fleiri dæmi um –í og svo notar Vísindavefurinn þá útgáfu.

 

Árni Helgason skrifar

Árni hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.