Trillurnar sem björguðu breska hernum

Um þessar mundir eru sextíu ár liðin frá því að bærinn Dunkirk á norðurströnd Frakklands féll í hendur þýska hersins eftir þriggja vikna umsátur.

Um þessar mundir eru sextíu ár liðin frá því að bærinn Dunkirk á norðurströnd Frakklands féll í hendur þýska hersins eftir þriggja vikna umsátur. Þetta var í sjálfu sér ekki hernaðarlega mikilvægur bær en einhverra hluta vegna höfðu þangað safnast 340.000 breskir hermenn og 100.00 franskir á undanhaldi sínu frá leiftursókn þýska hersins. Um var að ræða lungann úr breska hernum og í raun alla þá franska hermenn sem enn voru bardagafærir vorið 1940. Fyrir Þjóðverjum vakti vitaskuld að koma höndum yfir þennan fjölda, eða eyða honum einfaldlega, því með því hefði stórt skarð verið höggvið í breska herinn. Það hefði gert hernám Bretlands að raunhæfari möguleika en raun varð.

Og þetta tókst næstum því. Breski flotinn sendi skip sín yfir Ermasundið til að ná í mennina en skipin komust ekki nægilega nálægt landi til að hægt væri að bjarga mönnunum beint um borð. Auk þess lá flotinn undir áföllum vegna sífelldra árása þýsku Stukas-flugvélanna. Þúsundir fórust þarna í fjörunni í flóttatilraunum. En þegar allt virtist ætla að fara í vaskinn fékk breski aðmírállinn Bertram Ramsey, sem stjórnaði björgunaðgerðunum, mjög furðulega og allt að því fáránlega hugmynd, sem hann hrinti á framkvæmd á nokkrum klukkustundum.

Þannig háttar til á Englandi, að grafnir skurðir voru á þessum tíma og eru að hluta til enn, mikilvægar samgönguæðar. Því var til staðar mikill fjöldi fljótabáta, sumir notaðir í atvinnurekstri en mun fleiri sem einskonar sumarbústaðir. Almennt höfðu Bretar haft „bátafólkið“ að háði og spotti en á örskömmum tíma breyttist þessi afslappaði samfélagshópur í fullkomna þátttakendur í meiriháttar stríðsrekstri. Þúsundum saman sigldu litlu trillurnar yfir sundið og í heila viku, undir sífelldu sprengjuregni og skothríð, undan ströndum bæjarins Dunkirk, fluttu þær breska og franska hermenn úr helgreipum þýska hersins yfir í stærri herskip fyrir utan.

Þannig var aðgerðin Dynamo, sem borin var uppi af flatmagandi frístundadúttlurum, einn af vendipunktum síðari heimsstyrjaldarinnar. Auðveldlega er hægt að álykta, að Þjóðverjar hefðu frekar reynt innrás á Bretland ef þessi kjarni úr breska hernum hefði ekki verið til staðar. Þá áttu þessir hermenn, sem bjargað var frá Dunkirk, eftir að skipa hersveitir þær sem nokkrum árum seinna hröktu Þjóðverja frá hernumdu löndunum. Þeir 100.000 frönsku hermenn, sem þarna var bjargað, mynduðu her Frjálsra Frakka undir stjórn Charles de Gaulle, en sá hér lék stórt hlutverk í frelsun Frakklands og raunar annarra Evrópulanda.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.