Töfrar fótboltans felast í hluttekningunni

Með því að eyða óvissunni, með því að klippa á tengsin milli þess að gera vel og vegna vel, með því að láta úrslit fótboltaleikja hætta að skipta máli, með því að taka keppnisþáttinn úr íþróttinni hættir hún að vera töfrum gædd og verður eins og hver önnur nauðaómerkileg afþreying.

Íþróttir án keppni eru einskis virði. Töfrar fótboltans eru ekki fólgnir í fallegum mörkum eða ótrúlegum einleiksköflum einstakra leikmanna. Töfrarnir liggja í miklu fremur í hinni gegndarlausu hluttekningu áhangenda í sigri og ósigri. Að það sem skiptir auðvitað engu raunverulegu máli skiptir samt öllu máli. Þessa hluttekningu er ekki auðvelt að útskýra. Skiptir þetta virkilega svona miklu máli, er spurt, þegar allt leikur á reiðiskjálfi í sjónvarpsstofunni. Nei, auðvitað ekki, en jú, það gerir það, þetta skiptir öllu máli.

Eftir öfugþróun síðustu ára í enskri og evrópskri knattspyrnu, einkum í rekstri stærstu félaganna, voru tögl og hagldir komin hendur manna sem líta á knattspyrnu eingöngu sem enn eitt form afþreyingar fyrir fjöldann. Hluttekning er þessum mönnum framandi. Það sem þeir hins vegar þekkja og kunna er áhættustýring. Í óvissu felst rekstraráhætta og ef hægt er að eyða óvissu þá er það gott fyrir reksturinn.

Þess vegna datt þeim í hug, stjórnendum þeirra evrópsku knattspyrnuliða sem búa að fjölmennustu stuðningsmannahópunum á heimsvísu, að rotta sig saman og búa til lokaðan einokunarhring fyrir sig, sérstakt mót þar sem þeir einir ættu alltaf tryggt sæti. Engin óvissa, engin áhætta, fyrirsjáanleiki í rekstri, knattspyrnusýning á hæsta leveli fyrir milljarða áhorfenda um allan heim. En þeir gleymdu bara einu; hluttekningunni.

Með því að eyða óvissunni, með því að klippa á tengsin milli þess að gera vel og vegna vel, með því að láta úrslit fótboltaleikja hætta að skipta máli, með því að taka keppnisþáttinn úr íþróttinni hættir hún að vera töfrum gædd og verður eins og hver önnur nauðaómerkileg afþreying. Það heldur enginn heilvita maður með fótboltaliði af því að það skorar flottustu mörkin. Menn halda með fótboltaliði á grundvelli hluttekningar í gegnum súrt og sætt. Það eru töfrarnir. Annars er bara hægt að horfa á Harlem Globetrotters og hafa bara rólegt í sjónvarpsstofunni.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.