Þyrnirósarleiðin og eftirjólaútsölur

Það eru engin tíðindi að efnahagslífið er skrykkjótt. Eftir blómaskeið koma iðulega niðursveiflur. Gjaldmiðlar sveiflast upp og niður. Netbólur springa og flugfélög missa hæð milli þess sem toppum er náð. Meðan einn geiri blómstrar er annar í krísu. Ástæðurnar þessara sveiflna eru misjafnar og síbreytilegar en við getum næstum gengið að þeim jafnvísum og flóði og fjöru eða eftirjólaútsölum. Þrautin er að koma auga á orsakirnar í tíma og tímasetja þær.

Eitt grundvallarlögmála hagfræðinnar er tímavirði peninga: Króna í dag er verðmætari en króna í framtíðinni. Það á aldrei betur við en í kreppum, því það sem skilur á milli feigs og ófeigs við slíkar aðstæður er aðgangur að fé til að halda rekstrinum gangandi gegnum brimskaflinn þar til landi er náð. 

Illa stödd og óhagkvæm fyrirtæki verða þannig meðal hinna fyrstu til að fara í kaf; kreppan flýtir hinu óumflýjanlega. Næst í röðinni eru svo nýstofnuð fyrirtæki eða þau sem hafa farið í miklar fjárfestingar ásamt þeim sem eru með háan fastan kostnað. Vel rekin fyrirtæki til áratuga geta þannig vel orðið undir.

Þeir sem eru séðir í fjármálum óska sér helst peninga og gjafakorta í jólagjöf og kaupa sér svo eitthvað sjálfir á eftirjólaútsölu. Kreppur eru útsölur efnahagslífsins. Þeir sem eiga peninga geta keypt á hagstæðu verði rekstur eða fasteignir þeirra sem urðu uppiskroppa með lausafé.

Gjarnan gegna bankarnir lykilhlutverki í þessu efnahagslega hlaupið í skarðið. Í bankahruninu réðu þeir til að mynda örlögum þeirra sem ekki gátu staðið í skilum af lánum sínum. Fólk og fyrirtæki sem spenntu bogann of hátt lentu í vandræðum. Einnig þeir sem voru svo óheppnir að hafa keypt nýja íbúð áður en náðist að selja þá gömlu. Af þessu eru til margar sorgarsögur. Á hinni hlið krónunnar eru svo þeir sem áttu reiðufé til að kaupa útsölueignirnar. Þeir voru sigurvegararnir. Mögulega ásamt endurreistum bönkum, sem töpuðu mun minna á lánum sínum en áætlað var í upphafi.

Nú reynir aftur á bankana. Þeir eiga meðal annars að veita brúarlán til „lífvænlegra fyrirtækja“ til að koma þeim í gegnum brimrótið. Þeir eru settir í þá stöðu að meta hvaða fyrirtæki munu ná landi og hver ekki. Í kjölfarið munu þeir sem eiga reiðufé skella sér í perlukafarabúninginn og plokkaverðmætin af þessum hafsbotni hagkerfisins. 

Það verður ekki auðvelt verkefni fyrir bankafólk að taka þessar ákvarðanir, ákvarða forsendur og meta reksturinn. Hvert og eitt einasta mál verður umdeilt. Ofarlega í huga starfsfólks bankanna er eflaust að nú bera þeir persónulega ábyrgð ef þeir fara ekki eftir reglum í einu og öllu. Mögulega einnig á reglusetningunni ef hún þykir ekki málefnaleg. Það er ef til vill eðlilegt, en ekki til þess fallið að flýta fyrirákvarðanatöku.

Ef til eru aðrar leiðir til að styðja við fólk og fyrirtæki í vanda væri þess virði að kanna þær. Hver geiri atvinnulífsins og hver tegund fyrirtækja hefur sín lögmál. Það er þó gjarnan þannig að laun, leiga og fjármagnskostnaður eru stór hluti kostnaðar. Hjá leigufélögum er fjármagnskostnaður langstærsti hlutinnog frysting lána forsenda þess að þau geti lækkað leigu. Það gæti þannig verið gott að nota stærri hluta fjárins sem ætlað er til björgunar til þess að styðja bankana við að frysta lán og stuðla þannig að lægri fjármagns- og leigukostnaði. Þetta er auðveldara nú þegar stærstur hluti bankakerfisins er í eigu ríkisins. 

Ef hægt er að svæfa hluta fyrirtækja Þyrnirósarsvefni á meðan erfiðleikarnir ganga yfir gætum við verið mun fljótari að spyrna við fótum aftur. Tíminn, orkan og peningarnir sem fara í gjaldþrot og enduruppbyggingu fyrirtækja er mikil sóun. Vonandi er það ein af lexíunum sem við lærðum af bankahruninu. Einhvers konar Þyrnirósarleið gæti þannig mögulega hjálpað þeim fyrirtækjum sem eiga eigið fé, en lítið lausafé, að komast í gegnum þessa krísu.

Við vitum að það er engin ein töfralausn og í mörgum tilfellum er ekki hægt að svæfa reksturinn með öllu. Við vitum að hvaða leiðir sem við veljum verða einhverjir undir. Markmiðið ætti að vera að lágmarka þann fjölda og fletja út kúrfuna. Á meðan hvetjum við þá sem bíða eftir útsölunum að styðja frekar við græðlinga í nýsköpun með skattaafsláttum.

Latest posts by Brynjólfur Ægir Sævarsson (see all)