Hvar fæ ég ódýrasta bensínið?

Á hverjum degi, á leið minni með yngra barnið til dagmömmu, ek ég framhjá Atlantsolíu á Sprengisandi.  Það má alveg teljast skrýtið, en ég á það til, svona mér til dægrastyttingar, að telja bílana sem eru þar í röð eftir því að komast að dælunum. Þar eru nefnilega bein tengsl á milli fjölda bíla og lækkunar bensínverðs. Landinn virðist ekki vera lengi að stökkva á lækkað bensínverð og fylgist hann grannt með verðlagsþróun Norðursjávarolíunnar og tregðu íslenskra olíufyrirtækja til að fylgja verðlækkunum á heimsmarkaðsverði. 

Annað hefur þó lækkað mikið undanfarið án þess að vekja jafn mikla eftirtekt og áhuga áðurnefnds landa, nefnilega vextir.  Enginn ætlar að leyfa olíufyrirtækjunum að spila með sig, en er röðin inn í banka jafn löng þessa dagana?

Þetta hlýtur að segja manni að í allt of langan tíma hefur íslenska skólakerfið klikkað á því að kenna fjármál, þennan stóra og mikilvæga þátt í lífi alls fólks.  Og ég sé alveg augabrúnir margra þyngjast „peningar eiga ekki að skipta svona miklu máli í samfélaginu“ og ég skil þann punkt, en staðreyndin er bara sú að þetta skiptir máli.  Fólk virðist skilja það þegar það tekur bensín. Að búa við fjárhagslegt öryggi, og þá er ég ekki að meina að allir eigi að vera ríkir, skiptir bara alveg gífurlega miklu máli. 

Þessa dagana, og svona í ljósi stöðunnar, eru bankarnir að leggja mikla áherslu á það í skilaboðum sínum til viðskiptavina að hægt sé að endurfjármagna lán. Það sé tiltölulega ódýr leið að fara og hagkvæm þegar útlánavextir hafa lækkað jafn mikið og þeir hafa gert upp á síðkastið.

Þetta eru vissulega mikilvæg skilaboð og rétt.  Vextir eru lægri en þeir voru og það mikið lægri að þetta getur skipt marga miklu máli. Bæði þegar litið er til mánaðargreiðsla sem og heilarupphæð sem greidd er í vexti á viðkomandi láni.  En þekkingarleysið og það dýpi sem viðskiptavinur er að leggja út í við það að afla sér upplýsinga getur reynst allt of erfitt.  Staðan er nefnilega sú að það er ekki gefið að þegar haft er samband við lánastofnanir að starfsfólk gefi sér þann tíma sem til þarf til að upplýsa viðskiptavini.

En það má þó spyrja sig að því hvar ábyrgðin liggur.  Liggur hún hjá þeim sem aldrei lærði fjármálalæsi eða í ætluðu hlutleysi lánaráðgjafa

Meginókosturinn í dag er þó sá að á löngu tímabili voru meðalstórar eignir seldar á um 8-10 milljónum hærra verði en skráð fasteignamat þeirra.  Einstaklingar fá þá lán fyrir þeim eignum upp í allt að 85% af kaupverði. En það er t.a.m. staðan hjá stærstum hluta þeirra sem eru að kaupa sína fyrstu eign.  Þetta fólk gæti í mörgum tilfellum lækkað mánaðarlega lánabyrgði sína um marga tugi þúsunda ef það endurfjármagnaði í dag.  En kröfurnar sem lánastofnanir setja fram eru þær að við endurfjármögnun er miðað við fasteignamat, ekki kaupverð. Og endurfjármögnun er kannski aðeins leyfð sé lánsupphæð undir 70% af fasteignamati.  Það er því augljóst að einstaklingur í þeirri stöðu á ekki séns í endurfjármögnun nema hann sé í stöðu til að greiða góðar upphæðir aukalega inn á lánið – þ.e. valmöguleikinn er ekki allra og kannski allra síst þeirra sem á því þurfa að halda.

Lántakendur hafa þegar staðist greiðslumat, í mörgum tifellum kannski greitt af lánunum til einhverra ára, lánshæfi gott, hafa efni á bensíni og allt í orden. Því ætti ekki að vera nokkurt mál að breyta þessu – án þess að auka á áhættu lánastofnananna. Lægri vextir þýða lægri afborganir og fleiri standa undir greiðslum.  Þetta getur því haft áhrif á stöðu margra, bæði næstu mánuði sem og til framtíðar.  Og því til viðbótar þá er þetta er dæmi um manneskjulega ákvörðun – öllum til góða. 

En til að svara spurningunni sem ég kasta fram í titli greinarinnar:  Ég hef ekki hugmynd um það hvar ódýrasta bensínið fæst, þótt það væri vissulega til fyrirmyndar!

Latest posts by Helga Margrét Marzellíusardóttir (see all)

Helga Margrét Marzellíusardóttir skrifar

Helga Margrét hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2010.