Umræðan um útlendinga er oft á mjög almennum nótum. Sumir vilja hafa landið opnara, og tala vel um útlendinga, öðrum líst ekkert á það og tala illa um útlendinga. Stundum finnst mér sem fólki í fyrrnefnda hópnum vanti fleiri konkret stefnumál til að berjast fyrir. Hér eru þrjú sem einföld eru í framkvæmd.
- Dvalarleyfi vegna tímabundins skorts á vinnuafli telji inn í búseturétt. Í dag eru lögin þannig að ef einhver kemur til landsins til að vinna störf sem heimamenn fást ekki í (sem er eitt algengasta tegund dvalarleyfis) þá er hann eða hún á byrjunarreit hvað búsetuleyfi varðar. Þeir sem vinna „ótímabundið“ í landinu í 4 ár eiga bara að fá dvalarleyfi. Til þess þarf bara taka út eitt orð, „ekki“ í setningunni „Leyfi samkvæmt ákvæði þessu getur ekki verið grundvöllur búsetuleyfis.“
- Dvalarleyfi námsmanna telji inn í búseturétt. Samfélag fær varla betri díl en að taka við nýútskrifuðu fólki. Þeir sem taka mastersnám eiga ekki að vera á byrjunarreit þegar kemur að veitingu búsetuleyfis. Það ætti að framlengja námsmannadvalarleyfið þeirra sjálfkrafa í eitt ár, til að hleypa þeim inn á vinnumarkaðinn og þegar heildardvölin nær tilskyldu lágmarki eiga menn bara að fá búsetuleyfi.
- Búa þarf til dvalarleyfi vegna eigin reksturs. Það er of mikið gert ráð fyrir að útlendingar geti bara verið launþegar, en ekki vinnuveitendur. Þeir sem eru með viðskiptaáætlun, tryggða fjármögnun í banka eiga geta fengið dvalarleyfi á eigin forsendum. Þannig er það víða.
Öll þessi mál eiga sér fordæmi á hinum Norðurlöndum og víðar. Ekkert af þessu er sérstaklega róttækt. Það þarf bara að gera þetta.
Tengt:
… og ástæða þess að það verður ekki gert
Pawel Bartoszek skrifar (Sjá alla)
- Ný byggð í Skerjafirði truflar ekki aðflug - 1. mars 2021
- Það vantar ekki alltaf bara meira eftirlit - 22. febrúar 2021
- Markaðurinn vill byggja þétt - 8. febrúar 2021