Mig skorti kjarkinn í að segja NEI

Í gegnum mína ekki svo löngu ævi hef ég alltaf verið með sterkt bein í nefinu, sagt nei við því sem ég vil ekki. Á unglingsárunum drukku allir vinir mínir, og þeir drukku mikið og oft, mikið var reynt til að fá Stellu til að fá sér smá í tána, en ég bara hafði enga löngun til þess. Í dag drekk ég ekki, og hópþrýstingurinn er heldur betur enn í fullu fjöri, enn segi ég nei. Ég hef þorað að vera í fremstu víglínu í félagslífi, pólitík og vinnu og ekki látið það að stoppa mig að menn mér „æðri“ vilji hafa hlutina á ákveðinn hátt, ef ég er ósátt við það hef ég alltaf þorað að segja eitthvað. Af þessum sökum hélt ég að ég myndi aldrei vera í þeirri stöðu að þora ekki að segja NEI.

Eitt sinn sat ég á skrifstofunni, inn kemur samstarfsfélagi, við höfum alltaf verið miklir félagar, við hlægjum saman og spjöllum um málefni líðandi stundar. Ekkert er samt okkar á milli í rómantísku deildinni, við erum samstarfsfélagar, það er allt og sumt. En svo einn daginn þá tekur hann það upp á sitt einsdæmi að haga sér óviðeigandi á vinnustaðnum gagnvart mér. Hann ákvað að snerta mig á stöðum sem ég vil ekki vera snert af hverjum sem er, hann ákvað að segja hluti við mig fyrir framan samstarfsfélaga sem ég kæri mig ekkert um. Í huga mínum var ég búin að sjá að ég myndi alltaf segja manni sem léti svona til syndanna, en ég bara fraus, ég sagði EKKERT. Hvar var Stella sem er svo sterk? Hún bara hvarf.

Ég hef mikið velt þessu fyrir mér, ekki var þetta stóvægilegt mál, ég hélt bara áfram að vinna og ræddi þetta við nokkra vinnufélaga sem komu með nokkur ráð en almennt voru allir sammála því að viðkomandi hafi farið yfir strikið en það kom þeim jafnt og mér á óvart að ég sagði ekkert, stúlkan sem liggur sjaldan á skoðunum sínum.

Hvað gerist ef ég lendi í einhverju verra? Líkurnar á því að það gerist eru því miður ansi miklar, því rannsóknir sýna að 1 af hverjum 3 konum lendir í kynferðislegu ofbeldi. Ég lenti samkvæmt minni upplifun alls ekki í ofbeldi, ég lenti í einhvers konar áreitni. En ef ég fraus í þessum aðstæðum þá hlýt ég að frjósa í hinum.

Faðir minn kenndi mér þegar ég var unglingur að ef ég væri ein á ferð ætti ég að ganga með lyklana mína á milli fingranna og kýla þann sem myndi reyna að brjóta á mér, móðir mín predikaði að ég ætti að passa upp á drykkinn minn ef ég færi út á lífið, og svo var brýnt fyrir mér að vera ekki ein með einhverjum sem ég þekkti ekki. Ég þakka foreldrum mínum að hugsa svona vel um mig, en svo lendir maður í nokkuð sakleysislegum aðstæðum og allar varnarræðurnar fjúka út um gluggann, því við erum mennsk og við ráðum víst ekki við þetta.

En hvað voru foreldrar mínir að undirbúa mig fyrir? Í heimi þar sem það þarf greinilega að öskra svo hátt NEI að heimurinn allur heyri það skilmerkilega til þess að réttarkerfið líti á það sem glæp. Ef ég gat ekki sagt NEI í mínu litla tilviki þá er hæpið að sá kraftur komi yfir fórnarlömb í miklu verri aðstæðum. Því vil ég senda skilaboð til dómstóla, ríkisvaldsins og samfélagsins í heild: þögn er ekki sama og samþykki, og núna er tíminn fyrir dómstóla og ríkisvald að taka sig saman og breyta því að fórnarlömb þurfi að svara fyrir það afhverju þau sögðu ekki skilmerkilega NEI.

Við verðum að bregðast við þessu, strax!

 

Latest posts by Stefanía Sigurðardóttir (see all)

Stefanía Sigurðardóttir skrifar

Stella hóf að skrifa á Deigluna í nóvember 2004.