… og ástæða þess að það verður ekki gert

Á föstudag birtist hér grein um þrjár einfaldar lagabreytingar sem myndu opna á löglegar leiðir fyrir fólk utan Evrópu til setjast löglega að á Íslandi. Þær sneru að því að láta dvalarleyfi vegna náms, tímabundinnar launaðar vinnu og eigin rekstur telja til búsetuleyfis. Síðastnefnda leyfið væri nýtt leyfi, að fyrirmynd annarra landa.

Almennt mældust breytingar vel fyrir hjá þeim sem eru almennt jákvæðir í garð innflytjenda. En hvar er þá stóra andstaðan?

Eru það ófaglærðir bloggarar úr úthverfum og nágrannasveitum Reykjavíkur? Eru útlendingalögin eru eins og þau út af því að gamlar hræddar konur sem sem vilja ekki leigja múslimum íbúðirnar sínar urðu dag einn í meirilhluta í einhverri þingnefnd? Eru skammlíf lúðafélög stuttklipptra idjóta svona valdamikil á Íslandi? Nei, stóru, þýðingarmiklu andstöðuna er að finna annars staðar.

Einn er sá hópur hefur ráðið meiru en flestir aðrir um  innihald íslenskrar útlendingalöggjafar. Sá hópur hefur alltaf verið hafður með í ráðum þegar lögum um útlendinga er breytt og engar stærri breytingar á þeim lögum hafa farið í gegn án þeirra samþykkis. Hópurinn hefur meira segja komið því við að umsóknir um atvinnuleyfi þurfi að fara í umsagnarferli hjá hópnum og beitir því valdi til að reyna stemma stigum við fjölgun útlendinga á Íslandi. Ég er að tala um verkalýðshreyfinguna, með ASÍ í broddi fylkingar.

Á seinasta kjörtímabili var reynt að breyta útlendingalögum án þess ASÍ sjálft væri að skrifa þær breytingar. Niðurstaðan varð frumvarp sem hefðu litli breytt fyrir flest þau atriði sem ég nefndi í pistlinum á föstudaginn. Reyndar var gert ráð fyrir að framlengja mætti dvalarleyfi námsmanns í 6 mánuði meðan á atvinnuleit stæði (en klukkan myndi samt byrja upp á nýtt, námið teldi ekki inn í búsetuleyfið. Skoðun ASÍ á þessari lítilsháttar jákvæðu breytingu var þessi:

“Í 43. gr. segir: „Heimilt er að veita útlendingi, sem lokið hefur háskólanámi eða iðnnámi hér á landi, dvalarleyfi á landinu í allt að sex mánuði frá útskriftardegi til þess að leita atvinnu á grundvelli sérfræðiþekkingar sinnar.“

Að mati ASÍ væri eðlilegt að binda þetta við þrjá mánuði.”

(Sjá hér: http://www.althingi.is/altext/erindi/143/143-486.pdf)

Hin tvö atriðin sem ég nefndi (tímabundin dvalarleyfi sem teldu til búsetuleyfis, dvalarleyfi vegna eigin reksturs) hefðu heldur ekki komist til framkvæmda þótt frumvarpið hefði orðið að lögum. Á nokkrum stöðum voru einhver undanþáguákvæði rýmkuð lítillega, til dæmis þegar kom að dvalarleyfum vegna sérstakra tengsla við landið, fjölskyldutengsla eða starfa fyrir hjálparsamtök.

Öllum þeim litlu rýmkunum mótmælti ASÍ með orðum á borð við þau að verið væri að “bjóða hættunni heim” eða “opna á möguleika að komast undan vinnumarkaðssjónarmiðum.”

Frumvarpið gerði ekki ráð fyrir því að menn utan Evrópu gætu komið til Íslands á eigin vegum til að stunda hér sjálfstæðan atvinnurekstur, svo afstaða ASÍ til slíkra leyfa liggur ekki fyrir. En miðað við aðrar áherslur sambandsins má alveg geta sér til hver hún yrði.

***

Tímabundin atvinnuleyfi vegna náms, vinnu eða reksturs sem teldu til búsetuleyfis myndu opna á löglegar leiðir fólks utan Evrópu til að setjast að á Íslandi. Miðað við viðbrögðin má ætla að einhver hljómgrunnur sé fyrir slíkum lausnum. En til að þær geti orðið að veruleika þarf allavega eitt að gerast af tvennu:

a) ASÍ þarf að láta af vondri stefnu sinni í málefnum útlendinga
eða
b) við þurfum að hætta að taka svona mikið tilllit til skoðana ASÍ.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.