Þjóðgarður í stað virkjana

Við Íslendingar búum við þann lúxus að eiga fjölmargar auðlindir ólíkt mörgum öðrum þjóðum. Við eigum fiskinn í sjónum og stóra landhelgi. Við eigum hreint og ómengað vatn. Við eigum víðfema óspillta náttúru. Við eigum náttúrundur eins og Geysi og stærsta jökulinn í Evrópu. Eldfjöll sem spúa túristagosi og hjálpa til við auglýsa landið okkar þegar við höfum ekki efni á því. Við eigum heitt vatn sem við notum til að hita upp húsin okkar, sem er einstakt á heimsvísu. Við eigum fallvötnin sem við höfum virkjað og breytt í orku sem gerir okkur að fremsta landi í heimi þegar kemur að sjálfbærni orkugjafa. Við njótum þess á hverjum degi að eiga þessar dásamlegu auðlindir og það er kúnst að njóta og nýta. Hvað á að nýta og hvers á að njóta. Hvað á að vernda og hvernig á að gera það? Náttúrupassi, gistináttagjald, kvóti, virkjun, álver, álþynnuverksmiðja, sílíkonverksmiðja, gagnaver o.s.frv.

Umræðunni um álver og virkjarnir er oft blandað saman eins og þetta tvennt sé af hinu illa. Álver vita flestir að er mengandi atvinnustarfsemi en á sama tíma er hún mjög nauðsynleg, ég meina hver notar ekki álpappír? Einhverjir hafa haldið því fram að það sé umhverfisvænast að hafa sem flest álverin á Íslandi ef maður hugsar um heiminn sem eina heild því að þá eru þau drifin áfram af umhverfisvænum orkugjöfum sem eiga rætur sínar í fallvötnunum okkar en ekki t.d. af kolum í Kína. Það er auðvitað eitthvað til í því en ég vil samt ekki greiða götur fleiri álvera með skattaafslætti, lágu raforkuverði og öðru tilheyrandi. Það er ósanngjarnt gagnvart öðrum atvinnugreinum. Eitt á yfir alla að ganga.

Annar póll í þessari umræðu er að álverin eigi að bjarga landsbyggðinni. Landsbyggðarfólk er ekki að biðja um álver, ég þekki fólk sem býr á landsbyggðinni og er meira segja stolt landsbyggðarkona. Ég held að það væri nær að leggja betri vegi og tryggja betri samgöngur og öflugara netsamband og þá mun landsbyggðin blífa.

Og að virkjunum. Virkjanir eru einn umhverfisvænasti orkugjafi sem völ er á í heiminum og við getum verið stolt af uppbyggingu virkjananna hér á landi en við þurfum að hugsa um fleira en orkugjafann í þessari umræðu. Það eru jafnvel meiri verðmæti falin í fallvatninu en orkan sem við breytum í rafmagn. Kannski er náttúrlega orkan sem fólk fær út úr því að horfa á slíka fegurð sem felst í fallvötnum okkar verðmætari.

Gæti það verið verðmætara fyrir okkur til langframa að sleppa því að virkja miðhálendið og breyta því í þjóðgarð?

Latest posts by Erla Ósk Ásgeirsdóttir (see all)

Erla Ósk Ásgeirsdóttir skrifar

Erla hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2003.