Er rétt að ráðast á ömurlegt þing?

Hvað sem fólk segir þá er gagnlegt að bera saman mótmælin á Íslandi 2009 og árás í Bandaríska þinghúsið í janúar 2021. Ekki út af því að þessir atburðir eru eins, þeir eru það ekki, en þeir eru samt nógu svipaðir til að gagn sé af samanburðinum.

Það er gagnlegt að bera þessa atburði saman vegna að báðir fólu í sér kröftug mótmæli fyrir utan þinghús ásamt því að farið var inn í þinghúsið á einum tímapunkti, með ekki svo friðsælum hætti. Stór hópur fólks telur hins vegar að þátttakendur annars þessara atburða hafi siðferðið sínum megin en ekki þátttakendur í hinum. Því er gagnlegt að sjá hvar munurinn liggur, að þeirra mati.

Þetta viðfangsefni má nálgast út frá hugmyndum um siðferðislegt skylduboð. Það er að segja við þurfum að spyrja: Hvaða lögmál á að gilda? Hvernig viljum við að allir hegði sér alltaf? 

Í nýlegri grein á Stundinni “Öll hús skipta máli” týnir höfundurinn, Jón Trausti Reynisson, til ýmis rök fyrir því að hann telji mótmælin á Íslandi alls annars eðlis en mótmælin í Bandaríkjunum, og að munurinn sér búsáhaldabyltingunni hagstæður. Það er fínt að slíkur pistill hafi verið skrifaður því að hann gefur okkur færi á að fara yfir rökin lið fyrir lið. Fyrir það má þakka höfundinum.

Ég ætla að hópa saman rök höfundar, fyrir því að Búsáhaldabyltingin sé miklu betri en árásin á bandaríska þinghúsið og rekja þau frá þeim sístu, til þeirra skástu. Skáletraðara tilvitnanir koma úr grein höfundar.

Lögmálið um að óflokksbundnir mótmælendur séu betri en aðrir mótmælendur

Mótmælendur voru almennir og óflokkspólitískir, en ekki sérstakir stuðningsmenn eins flokks eða stjórnmálamanns.

Þetta eru án efa einhver sístu rökin í umræðunni. Fyrir utan það hvað það að vera “flokkspólitískur” er illa skilgreint er varla hægt að ímynda sér að siðferðislegur dómur um athafnir manna ráðist af því hvort þeir tilheyri flokki og þá hvaða. Félagafrelsi er mannréttindi og á ekki að hafa áhrif á önnur réttindi eða skyldur. Þetta eru ekki góð rök.

Lögmálið um að mótmælendur megi frekar losna við stjórnir sem mælast óvinsælar

“26% studdu ríkisstjórn Geirs Haarde í lok janúar 2009, sem 83% höfðu stutt einu og hálfu ári fyrr.”

Ef við eigum að taka þetta alvarlega sem lögmál þá er valdbeiting réttlætanlegri gagnvart stjórn eftir því sem hún er óvinsælli. En það er bara, með fullri virðingu, ekki þannig sem samfélagssáttmáli okkar virkar! Tökum það fram að um 36% studdu stjórnina í ársbyrjun 2009 þegar mótmælin byrjuðu af raunverulegum krafti. Allar þrjár stjórnir eftir þessa fóru undir þessa tölu á einhverjum tíma. Var réttlætanlegt að bola þeim öllum burt með þrýstingi götunnar? Auðvitað ekki.

Við erum með kosningar með reglulegu millibili. Kosningar eru leiðin til að losna við ríkisstjórnir og fylgissveiflur á milli skipta engu máli upp á umboðið. Trump fékk 47% atkvæða á landsvísu. Biden 51%. En ef könnun í janúar hefði sýnt að 70% væru óánægð með kjör Bidens… hefði þá mátt ráðast inn í þingið? Auðvitað ekki. Tölur í skoðakönnunum, eða einhver mæld eða ómæld stemning í þjóðfélaginu skipta ekki máli.

Lögmálið um réttmæti valdbeitingar gegn ömurlegri stjórn (Byltingarlögmálið)

“Mótmælin komu í kjölfar þess að yfirvöld og helstu forkólfar viðskiptalífsins lugu að almenningi leynt og ljóst. […]

Fjöldi fólks var að tapa eigum sínum, meðal annars með sjálfvirkri eignaupptöku verðtryggingarinnar og annarri beinni eða óbeinni gengistryggingu lánveitenda. […]

Lykilleikendur í stjórnmálum, embættiskerfinu og bankakerfinu að bjarga eigin skinni með aðgengi að innherjaupplýsingum, á meðan almenningur var blekktur um stöðuna.”

Þetta er það lögmál sem ég á erfiðast með. Í fljótu bragði hljóta margir að ímynda sér einhver mörk þar sem réttlætanlegt er að taka með ofbeldi völdin af sitjandi stjórnvöldum. Segjum til dæmis að stjórnvöldin séu að fremja þjóðarmorð. Vaclav Havel gerir tilraun til að setja fram slík skilyrði í grein sinni “Vald hinna valdalausu” þar sem hann talar fyrir nálgun á andóf sem byggist á lagahyggju. Að hans mati er ofbeldi gegn sitjandi stjórnvöldum réttlætanlegt þegar þau eru að fremja ódæði á borð við skipulögð morð og aðrar lagalegar leiðir til að hindra það ekki færar. Augljóslega átti þetta ekki við á Íslandi 2009. Stjórnin var ekki að fremja neitt ódæði.

Aðalvandinn við þetta lögmál er að það treystir um of á réttlætiskennd mótmælandans. Persónulega finnst mér lögmálið “Ekki brjóta rúður í þinghúsum” auðveldara í beitingu “Ekki brjóta rúður í þinghúsum nema að þú teljir þingmenn vera standa sig mjög illa.”

Ef við reynum að spegla nýlega atburði Vestanhafs í þessu lögmáli sjáum við vandann skýrt. Margir mótmælendur þar höfðu heyrt þjóðhöfðingja sinn segja að verið væri að fremja valdarán! Ef við gefum okkur að rétt sé að berjast með ofbeldi gegn stjórnmálamönnum sem eru að fremja slíkt þá er ekki skrýtið að stakir mótmælendur þennan dag hafi talið sig vera að breyta rétt. En vandinn er einmitt sjálft lögmálið um að rétt sé að brjótast í þing sem eru að gera ranga hluti. Lögmálið sjálft er meingallað.

Köllum þetta lögmál “byltingarlögmálið” og komum að því í lokin. 

Lögmálið um alvarleika afleiðingana

“Fimm létu lífið í innrásinni í Þinghúsið í Washington, einum atburði sem tók nokkrar klukkustundir. Búsáhaldamótmælin stóðu yfir í rúma þrjá mánuði, frá 18. október til 31. janúar 2009, þar til viðskipta- og bankamálaráðherra hafði loks sagt af sér, og ólíkt flestum sambærilegum mótmælaöldum erlendis lést sem betur fer enginn og ofbeldisfullu athæfi var jafnan mætt af öðrum mótmælendum til varnar lögreglu.”

Ef við gefum okkur það rétt sé að dæma gjörðir byggt afleiðingunum þeirra þá er þessi röksemdarfærsla ágæt. Og þessi hugsun er auðvitað sterk í okkar réttarkerfi. Ölvunarakstur sem veldur dauða er metinn alvarlegri en ölvunarakstur sem gerir það ekki. Þau okkar sem eru samt eilítið efins um styrkleika þessara raka geta engu að síður bent á að stundum geta hlutir farið úr böndunum. Því skiptir ásetningur máli, ekki bara afleiðingarnar.

Lögmálið um ásetning

Mótmælendur voru að reyna að komast inn á þingpalla, svæði sem er opið almenningi, en ekki inn í þingsal til að yfirbuga þingmennina. […]

Mótmælendurnir höfðu ekki lýst vilja til að lífláta stjórnmálamennina inni í byggingunni og voru ekki með búnað til að handsama þá.

Það má setja spurningarmerki bak við getu pistlahöfunda til að lesa í hug allra mótmælenda í búsáhaldabyltingunni. Hafði engin þeirra neinn illan ásetning eða var fær um að gera nokkuð illt? Það er erfitt að segja. En ef við gefum okkur að þetta sé sanngjarn samanburður þá má telja þessi rök ágætlega sterk. Við dæmum gjarnan athafnir eftir því hver ásetningur þeirra er.

Niðurlag

Til að draga saman þá er rétt að búsáhaldabyltingin sé skárri en óeirðnar í Washington vegna skárri ásetnings mótmælenda og mildari afleiðinga mótmælanna. Rökin sem byggja á bakgrunni mótmælenda og óvinsældum stjórnarinnar eru síðri.

En eftir standa byltingarrökin. Rökin sem menn héldu svo mikið upp á menn reistu minnisvarða þeim til heiðurs og reistu við hlið þingsins og skrifuðu þar þessa setningu: 

Þegar ríkisstjórn brýtur á rétti þegnanna, þá er uppreisn helgasti réttur og ófrávíkjanlegasta skylda þegnanna sem og hvers hluta þjóðarinnar.”

Þetta er gríðarlega sterkt skylduboð en mjög vandasamt. Það spólar fram hjá því að oft hafa þegnarnir þúsund betri, mildari og áhrifaríkari leiðir til að berjast gegn ríkisstjórn sem brýtur á rétti þeirra, aðrar en þá að gera uppreisn. Líklegast er lögmálið meint sem algjör þrautarlending en auðvitað er mjög auðvelt að skilja það ekki þannig. Og þess vegna er lögmálið varasamt. Þetta er varasamt vopn í höndum fólks sem er reitt og telur sig gera rétt.

Ég deili ekki gildismati þeirra með þeim sem segjast lifa eftir þessu lögmáli. Ég deili ekki gildismati þeirra sem hrópuðu þetta lögmál á Austurvelli árið 2009 og létu skrifa það á styttu. Og að sjálfsögðu deili ég ekki gildismati þeirra sem hrópuðu það í Washington snemma á þessu ári. Þetta snýst ekki um það að lögmálinu hafi verið rétt beitt á einum stað en illa á hinum. Hugmyndin sjálf er bara ekki það góð til að byrja með.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.