Svartálsgöngin í Tarnowskie Góry – og af hverju vinnan er ekki allt

Gengið er eftir hringstiga, nokkra tugi metra niður í jörðina. Komið er niður að þröngum bátagöngum, sem rúma eins og einn árabát í einu, 1-2 metra að breidd. Beggja vegna eru svartir steinveggir. Hér er dimmt. Ekki góður staður fyrir klástrófóba.

Svartálsgöngin (e. Black Trout Adit, pl. Sztolnia Czarnego Pstrąga) í Tarnoskie góry eru um 600 metra löng neðanjarðar-bátagöng. Þessi kafli er hluti af fráfallskerfi náma sem þarna voru, en Slesía héraðið er auðugt af kolum og saga námugraftar orðin nokkuð löng. Þessi tilteknu göng eru frá 19. öld.

Göngin þjóna nú ekki lengur iðnaðartilgangi en hafa verið opin almenningi frá því eftir seinna stríð. Afi minn heitinn vann í þessum göngum og ég fór í nokkur skipti í bátsferðir með honum þegar ég var lítill. Ég sagði öllum krökkum að þetta var það sem afi minn væri: Hann ynni við að sigla á árabáti í myrkri með vasaljós. Öllum fannst það frekar merkilegt.

Afi minn lést skömmu eftir að ég flutti til Íslands og skömmu áður en kommúnisminn féll í Póllandi. Ég fékk ekki að kynnast honum lengi og hann missti af jafnvel skemmtilegri tímum en þeim sem hann fékk að lifa á.

Ég komst reyndar síðar að þetta bátadót væri ekki endilega hans aðalstarf. Hann vann við annað. En þetta var ástríðan. Það sem hann gerði um helgar. Það sem hann var stoltur af. Það sem hann vildi sýna barnabarninu.

***

Það er mikill þrýstingur á að vinna við eitthvað gefandi. Að láta vinnuna skilgreina mann. En það getur verið hættulegt að hugsa þannig og setja þannig þrýsting á fólk. Það munu ekki allir geta unnið við það sem þeir elska. Fólk ræður því ekki alltaf. Og ef að fólk  skilgreinir sig út frá vinnunni einni þá er til dæmis hræðilegt að missa vinnuna.

Að því leitin eru áhugamálin sterkari stoð undir sjálfsmyndina. Þau fara ekki jafnglatt. Manni er ekki bannað að taka ljósmyndir af kirkjum eða hlaupa maraþon með bréfi einhvers yfirmanns.

Þú ert það sem þú vinnur við? Ekki endilega. Það er alveg jafngott að segja: “Þú ert það sem þú elskar að gera. Þú ert það sem þú eyðir helgunum í. Þú ert það sem þú vilt sýna börnunum og barnabörnunum að þú gerir.”

***

Svartálsgöngin í Tarnowskie Góry voru tekin á Heimsminjaskrá UNESCO árið 2017.

Mynd: CC-BY-SA: Stowarzyszenie Miłośników Ziemi Tarnogórskiej

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.