Sumt er gott, annað er slæmt

Áramótauppgjör er ekki ósvipað hálfleiksræðu. Við horfum yfir farinn veg og leggjum mat á hvernig til hefur tekist, hvað stóð uppúr og hvað hefði mátt betur fara. Sumir eru uppteknir af sjálfum sér á þessum tímamótum, hinir vanda um fyrir öðrum.

Sumt er gott, annað er slæmt. Við þurfum að halda áfram að gera það sem er gott og hætta að gera það sem er slæmt.

Hálfleiksræður í fótboltaleikjum eru mismunandi, bæði að efni og framsetningu. Ég hygg að sjaldan hafi verið flutt jafn skýr og skorinorð hálfleiksræða og sú hér að ofan en hún er eignuð þjálfara Skagamanna á ofanverðum 9. áratug síðustu aldar. Sá var ekki ýkja sigursæll en ræðan er góð.

Áramótauppgjör er ekki ósvipað hálfleiksræðu. Við horfum yfir farinn veg og leggjum mat á hvernig til hefur tekist, hvað stóð uppúr og hvað hefði mátt betur fara. Sumir eru uppteknir af sjálfum sér á þessum tímamótum, hinir vanda um fyrir öðrum.

Kjörtímabil ríkisstjórnarinnar er nú tæplega hálfnað. Að baki er stormasamt og viðburðaríkt ár í pólitíkinni. Vinsældir ríkisstjórnarinnar hafa dvínað á árinu en sú er þó reyndin með nær alla valdhafa vestrænum lýðræðisríkjum. Enn nýtur ríkisstjórnin meiri vinsælda en Barack Obama nýtur vestanhafs.

Öllum að óvörum er ríkisstjórnin mjög óvinsæl meðal þeirra sem styðja stjórnarandstöðuflokkana, hina sömu og settu Evrópumet í fylgistapi í síðustu kosningum. Stjórnarmeirihlutinn verður ekki sakaður um að hafa setið auðum höndum. Leiðréttingin mikla er komin til framkvæmdar, illu eða góðu heilli, og hin illræmdu vörugjöld voru afnumin undir lok árs. Hið síðara er kannski stærsta framfaramál ríkisstjórnarinnar á árinu. Þá er mun meiri festa komin á ríkisfjármálin og munar þar eflaust mikið um aukið aðhald af hálfu Alþingis.

En í stjórnmálum gildir auðvitað sú regla að menn þurfa yfirleitt margar ástæður til að vera sáttir við sitjandandi valdhafa en bara eina ástæðu til að vera ósáttir. Af slíkum einstökum ástæðum er nóg þegar litið er yfir árið. Vandræði með aðstoðarmann innanríkisráðherra hafa ekki hjálpað ríkisstjórninni á árinu og flutningur ríkisstofnana út á land virðist misráðinn og vanhugsaður. Svo auðvitað leiðréttingin, eftir því hvaða skoðun menn hafa á þeirri mögnuð aðgerð. Verkföll opinberra starfsmanna, nú síðast lækna, hafa auðvitað verið ríkisstjórninni erfið.

***

Lítum á hvernig einstakir ráðherrar hafa staðið sig.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra: Fáir forsætisráðherra hafa glímt við álíka mótlæti af hálfu fjölmiðla og sá sem nú situr. Ef frá er talinn einn fjölmiðill, sem hvergi slær af í stuðningi sínum við ráðherrann, má segja að fjölmiðlar umgangist forsætisráðherra af lítt dulbúinni fyrirlitningu. Raunar er það ekki alveg laust við að vera gagnkvæmt. Sigmundur Davíð hefur sýnt það að hann er ýmsum kostum búinn en hann fellur alltof oft í þá gryfju að leika mann sem hann er augljóslega ekki. Valdsmannslegt yfirbragð er ekki góð ábreiða yfir pólitískt reynsluleysi. Sigmundur Davíð ætti hins vegar að treysta á sjálfan sig meira. Engum hefði dottið það í hug fyrir fimm árum að hann myndi leiða ríkisstjórn. Hann hefur komið öllum á óvart og það væri fráleitt hjá andstæðingum Sigmundar Davíðs að vanmeta styrk hans.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra: Bjarni hefur átt erfitt uppdráttar á síðustu árum og víst er að hann var nálægt bjargbrúninni í aðdraganda síðustu kosninga. Ef þetta væri uppskeruhátíð yngri flokka þá fengi Bjarni hér verðlaun fyrir mestu framfarir. Hann hefur sýnt allar sínar bestu hliðar í embætti fjármálaráðherra og það hefur jafnframt styrkt hann gríðarlega innan Sjálfstæðisflokksins. Hófsöm en þó einörð málafylgja Bjarna í erfiðum málum undirstrikar hans helstu styrkleika. Þá virðist hann jafnan setja sig mjög vel inn í mál og tjáir sig ekki nema að vandlega hugsuðu máli. Eftir að hafa gegnt veigamesta ráðherraembætti ríkisstjórnarinnar það sem af er kjörtímabili hefur Bjarni fest sig í sessi sem ótvíræður forystumaður íslenskra stjórnmála.

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra: Eftir nokkuð mikið mótlæti í starfi á fyrstu mánuðum sínum í embætti, einkum í tengslum við ESB-málið, hefur Gunnar Bragi styrkt stöðu sína verulega á þessu ári. Hann hefur alls ekki siglt lygnan sjó á árinu en komist vel frá sínu. Mest um vert að mínu viti er staðfesta Gunnars Braga í málefnum Úkraínu. Þrátt fyrir að sterk öfl innan beggja stjórnarflokka hafi reynt að sveigja utanríkisstefnu Íslands í átt að undirgefni við Rússa þá hefur utanríkisráðherra staðið fast á þeirri sannfæringu sinni að framganga Rússa í Úkraínu sé með öll óásættanleg og að vestrænum ríkjum beri skylda til þess að spyrna kröftuglega við fótum. Fyrir þetta á hann mikið hrós skilið.

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra: Hugsanlega sá ráðherra ríkisstjórnarinnar sem mest hefur mætt á undanfarið ár. Erfið fjárhagsstaða heilbrigðiskerfisins og að því er virðist óleysanlegt læknaverkfall gera þennan ráðherrastól virkilega óþægilegan. Kristján Þór hefur hins vegar sýnt það hann er réttur maður á réttum stað. Hann nálgast mál af einstakri yfirvegun og leitar lausna. Hann hefur talað fyrir því að forgangsraða í fjármálum ríkisins í þágu heilbrigðikerfisins og það er alltaf betra þegar stjórnmálamenn ræða um aukin útgjöld til einstakra málaflokka þannig að taka þurfi það fé frá öðrum málaflokkum. Það er bæði heiðarlegt og rétt.

Sigurður Ingi Jóhannson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra: Misráðinn og að því er virðist vanhugsaður flutningur Fiskistofu til Akureyrar hefur sett mark sitt á árið hjá þessum ráðherra. Í stað þess að fara ofan í saumana á því af hverju við þurfum svona risastóra stofnun til að fylgjast með sífellt minni fiskiskipaflota þá er ráðist í það flytja stofnunina út á land, að því er virðist í þeim tilgangi einum að fjölga þar störfum.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra: Hratt vaxandi ferðamannaiðnaður hefur haft mest áhrif á þetta ráðuneytinu á síðasta ári. Í greininni togast á miklir hagsmunir og umræða um svonefndan náttúrupassa hefur verið ráðherranum erfið. Í þessu máli mun ekki nást niðurstaða svo að öllum líki, til þessu vegast á of stórir andstæðir hagsmunir. Ragnheiður Elín hefur staðið sig vel og mun hún eflaust gera tilkall til ríkara forystuhlutverks innan Sjálfstæðisflokksins á allra næstu misserum.

Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra: Eftir afsögn Hönnu Birnu er Illugi ótvíræður forystumaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Í ræðu og riti hefur Illugi á undanförnum árum verið óþreytandi talsmaður grundvallarsjónarmiða Sjálfstæðisflokksins um frelsi og val einstaklingsins. Það hefur þess vegna komið nokkuð á óvart hversu leiðitamur embættismönnum í menntamálaráðuneytinu hann hefur verið í sinni embættistíð en Hvítbókin svonefnda virðist öðru fremur vera afurð af stefnumótunarvinnu embættismanna. Aukin útgjöld til Ríkisútvarpsins eru að sama skapi vonbrigði en vonir höfðu staðið til þess að breyttir tímar hefðu runnið upp þar á bæ.

Eygló Harðardóttir, félagsmálaráðherra: Ef marka má umliðið ár þá virðist Eygló vera mikill aðdáandi Þráins Bertelssonar og bíómynda hans um þá félaga Þór og Danna. Í Löggulífi segir dómsmálaráðherra, leikinn af Rúrik Haraldssyni, eitthvað á þá leið að hann hafi lært það á löngum ferli sínum í stjórnmálum að sá sem geri ekki neitt geri enga vitleysu. Þessi aðferð sem Eygló hefur augljóslega gert að sinni leysir hins vegar ekki brýn og aðkallandi mál sem undir hana heyra, einkum og sér í lagi óverjanlega tilvist Íbúðarlánasjóðs.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra: Annus horribilis. Einn frambærilegasti stjórnmálamaður sinnar kynslóðar er felldur af sínum eigin pólitíska aðstoðarmanni.

Ólöf Nordal, innanríkisrðherra: Innkoma Ólafar í ríkisstjórn var staðfesting á því að Bjarni Benediktsson er fullnuma í íslenskum stjórnmálum. Óvænt og öflugt útspil sem styrkir í senn ríkisstjórnina, Sjálfstæðisflokkinn og stöðu Bjarna sem forystumanns. Það er sérstakt gleðiefni eftir það sem á undan er gengið að sjá Ólöfu setjast í ríkisstjórn.

***

Sumt var gott og annað slæmt hjá ríkisstjórninni á árinu 2014. Besta ráðið sem hægt er að veita á þessum tímapunkti er ráð knattspyrnuþjálfarans sem getið var í upphafi.

Árið 2015 mun ráða miklu um það hvernig ríkisstjórninni reiðir af. Við blasa óleyst mál vegna kjarabaráttu opinberra starfsmanna þar sem vandi heilbrigðiskerfisins er í forgrunni. Stærsta málið hlýtur samt sem áður að vera aflétting gjaldeyrishafta með farsælum hætti og í framhaldinu að finna varanlega lausn á gjaldmiðlamálum þjóðarinnar. Takist það mun þessi ríkisstjórn fá verðugan sess í íslenskri stjórnamálasögu.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.