Kirkjuferðir á aðventu og jólum

DSC07303Hann var meðhjálpari í Landakirkju í Vestmannaeyjum og þótti vænt um kirkjuna og kristna trú. Hann var skólastjóri og mikill skólamaður. Hann var með þetta alveg á hreinu. Skólinn sér um fræðsluna en kirkjan um trúboðið og samfélag þeirra sem vilja rækta sína góðu trú.

Þetta var fyrir mörgum árum og umræðan um skóla og kirkju með öðrum hætti en núna vegna þess að samfélagið var öðruvísi en það er í dag.

Í aldir hafði allt verið með svipuðum hætti. Þjóðkirkjan hafði yfirburðastöðu í samfélaginu og þau sem ekki voru innan hennar voru í öðrum kristnum söfnuðum og þar voru fjölmennastir kaþólskir, hvítasunnufólk og sjöundadags aðventistar. Flestir gengu í takt.

Einstaka maður stóð utan trúfélaga og voru álitnir utangátta og öðruvísi en annað fólk. Allt er þetta nú breytt og ekki tiltökumál fyrir fólk að standa utan allra trúarhópa enda segja kannannir í Evrópu og í vestur heimi að það fjölgi mest í hópi þeirra sem telja sig trúlausa.

Áhrif og staða kirkjunnar er ekki sú sem hún var fyrir nokkrum áratugum. Þannig er það og mikilvægt að átta sig á þessum breytingum og það á að vera áskorun til okkar sem teljum að það skipti máli á hvað við trúum að vanda okkur í kirkjulegu starfi og vera reiðubúin til samræðu við fólk. Kirkjan þarf að tala við fólk en ekki til fólks og svo eigum við að treysta fólki sem sér um fræðslu og fólkinu sem annast kirkjustarfið.

Á aðventu og jólum beinist kastljósið að kirkjunni og margir sækja kirkju og það er ómissandi þáttur að heyra lesið jólaguðspjallið. Þetta þekkjum við. Og þegar við erum orðin fullorðin þá höfum við heyrt jólasöguna oft og þekkjum hana vel.

Sagan segir að séra Baldur í Vatnsfirði hafi einhverju sinni á jólafundi kvenfélagsins í sveitinni átt að lesa jólaguðspjallið. Hann hóf lesturinn og sagði: “En það bar til um þessar mundir – og svo framvegis. – þið þekkið þetta.”

En stundum þegar okkur finnst við þekkja allt út í hörgul þá er reyndin oft sú að við áttum okkur á hvað lítið við vitum og skiljum.

Við skulum koma að jötunni líkt og hirðarnir endur fyrir löngu og við horfum á barnið – það ber með sér von en er um leið varnarlaust en friðsælt í jötunni – og við sjáum spegilmynd okkar í augum barnsins vegna þess að við erum öll hans og kynslóðirnar frá upphafi og alla tíð.

Í dagsins starfi og leik heyrum við orð engilsins Verið ekki hrædd – ég boða ykkur frið og náð Guðs. Í öllum tilbrigðum daganna, í gleði og sorg, heyrum við englakór frá himnahöll sem hljómar yfir víða jörð. Gloria in exelsis Deo – dýrð sé Guði í upphæðum.

Við hverfum aftur til lífsins- líkt og hirðarnir sem sneru aftur út í hagann til að gjæta hjarðarinnar og eru síðan úr sögunni.

Við erum öll að vissu leyti hirðar og við reynum í smáu og stóru að standa okkar plikt -gæta þess sem okkur er trúað fyrir – og við öll hvar sem við erum stödd á mælikvarða trúarinnar viljum koma vel fram við aðra og við reynum að efla allt sem gott er.

Og vinur gengur til þín og spyr þig. Hvar hefur þú verið? Ég var í Betlehem, svarar þú. Hvað sástu? -er aftur spurt. Og þú svarar: Ég sá vonarljós heimsins – og hvernig leit það út? er enn spurt – og þú svarar: Það líktist mér og þér.

Þannig viljum við lesa jólaguðspjallið. Það fjallar um okkur. Það fjallar um lífið okkar, vonir og þrár – og það er sagt við okkur þegar við vorum varnarlaus börn og það er sagt við okkur þegar við erum orðin fullorðin – að frelsari er fæddur og því er ekkert að óttast – hann sem á jólum fæddist mun vel fyrir sjá.

Það er von okkar og trú – sem endurnýjast og styrkist á hverjum jólum.

Guð gefi okkur öllum gleðileg jól.

Latest posts by Sr. Kjartan Örn Sigurbjörnsson (see all)