Sturlun sem regla

Sturlun er mjög sjaldgæf meðal einstaklinga en hjá hópum, flokkum og þjóðum er hún regla. Einhvern veginn svona hljóðar eitt hinna bráðsnjöllu spakmæla þýska heimspekingsins Friedrichs Nietzsche en safn spakmæla hans er að finna í bókinni Handan góðs og ills (Jenseits von Gut und Böse) í afbragðsgóðri þýðingu Arthúrs Björgvins Bollasonar.

Sturlun er mjög sjaldgæf meðal einstaklinga en hjá hópum, flokkum og þjóðum er hún regla. Einhvern veginn svona hljóðar eitt hinna bráðsnjöllu spakmæla þýska heimspekingsins Friedrichs Nietzsche en safn spakmæla hans er að finna í bókinni Handan góðs og ills (Jenseits von Gut und Böse) í afbragðsgóðri þýðingu Arthúrs Björgvins Bollasonar.

Þessi bók var ein af fáum sem ég hafði meðferðis til vetursetu í frönsku borginni Montpellier haustið 1995, þá nýstúdent úr Menntaskólanum í Reykjavík án þess að hafa nokkurn tímann lært stafkrók í frönsku. Af ástæðum sem ekki er við hæfi að rekja hér náði ég litlum tökum á frönskunni á þessum tíma en þeim mun meiri framförum tók ég í þýsku.

Auk framangreindrar bókar hafði ég meðferðis helstu grundvallarrit heimspekinnar, Frelsið auðvitað og Ríkið, svo eitthvað sé nefnt, en af einhverjum ástæðum varð Nietzsche og torræður textinn í Handan góðs og ills minn förunautur þetta haust, á þá kannski helst spakmælin sem sett eru fram í sérstökum kafla bókarinnar. Þau voru líka þess eðlis að slá mátti um sig með stuttum tilvitnum sem voru í senn ögrandi og djúpar, nokkuð sem ungan mann í útlöndum langar stöðugt að líta út fyrir að vera.

Buona femmina e mala femmina vuol bastone.

Nietzsche hafði þetta spakmæli úr gömlum sögum frá Flórens og setti það fram á ítölsku. Í þýðingu Arthúrs Björgvins var þetta:

Góðar konur, og vondar konur, elska vöndinn.

Annað spakmæli sem var í sérstöku uppáhaldi, af ástæðum sem heldur er ekki við hæfi að rekja sérstaklega hér, var:

Þetta gerði ég, segir minni mitt. Þetta get ég ekki hafa gert, segir stoltið. Að lokum gefur minnið sig.

En þó er það svo að lífsreynslan síðasta aldarfjórðunginn tæpan, frá því að dvölinni í Suður-Frakklandi lauk, hefur fært manni heim sanninn um það að fá, ef þá nokkurt, af spakmælum Nietzsches fela í sér meiri sannleika en það sem vitnað er til í upphafi þessa stutta pistils.

Þeim sem efast um það er bent á að fylgjast með fréttum þessa dagana.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.