Við kunnum ekki á fjarfundarbúnað því allt er svo nálægt

Næst þegar þú, lesandi góður, klárar eitt stykki fund í vinnunni skaltu spyrja þig: “Hefði fólk ferðast milli landa fyrir þennan fund?” Svarið er mjög líklega “nei” sem þýðir mjög líklega að fundurinn var ekki nauðsynlegur. Hann var haldinn af því að það var hægt að halda hann.

Ég hef verið í vinnu þar sem maður talar töluvert við útlendinga í útlöndum. Það er svona: Fundur er boðaður klukkan 9:00. Maður mætir í eitthvað forrit klukkan 9:00. Klárar fundinn 9:30. Og getur snúið sér að næsta verkefni.

Ég hef líka verið í mörgum verkefnum þar sem maður talar aðallega við fólk innanlands. Þá leitar fólk að stað til að hittast á. Annar hópurinn keyrir á staðinn. Tefst í umferð. Leitar að staðnum. Kemur, þiggur kaffi, kemur tölvunni í gangi, leitar að tengisnúru fyrir makka. Fær þráðlausa lykilorðið. Tengist við myndvarpa. Fundurinn er hálftíma of lengi, því það er búið að fjárfesta of miklum tíma í honum hvort sem er.

Ég vinn fyrir Reykjavík og er aðallega á tveimur stöðum: Ráðhúsinu og Höfðatorgi. Ég eyði talsverðum tíma í að hoppa milli þessara tveggja staða. Ég kvarta svo sem ekki en fjarfundir innan sama bæjar ganga auðvitað alveg upp sem hugmynd, þótt ekki nema til að spara óþarfa ferðatíma. En hér er enn aðallega litið á fundi í tölvu sem varaplan ef “samgöngur eru erfiðar” eða “fjarlægðir miklar”.

Við ákveðnar aðstæður, eins og núna, væri auðvitað gott að bjóða fólki að vinna heima hjá sér. Tekið fundi, sótt og haldið fyrirlestra og leyst verkefni. Reyndin er hins vegar sú að talsverður fjöldi gæti þannig séð unnið heima hjá sér, en getur það samt ekki. Af því allt er svo nálægt.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.