Stríðsins volaða helvíti

Rússar hafa nú loksins náð Grozný, eða öllu heldur rústum borgarinnar, á sitt vald. Taka borgarinnar reyndist Rauða hernum dýrkeypt, yfir eitt þúsund hermanna hans féllu í götubardögum við uppreisnarmenn og spurningar hafa vaknað um hernaðarlega getu gamla stórveldisins.

Rússar hafa nú loksins náð Grozný, eða öllu heldur rústum borgarinnar, á sitt vald. Taka borgarinnar reyndist Rauða hernum dýrkeypt, yfir eitt þúsund hermanna hans féllu í götubardögum við uppreisnarmenn og spurningar hafa vaknað um hernaðarlega getu gamla stórveldisins. En borgarhernaður hefur ætíð útheimt miklar mannfórnir, jafnvel þótt hernaðarlegir yfirburðir árásaraðilans séu miklir. Hernaðarsérfræðingar eru þar að auki á einu máli um að borgarhernaður sé hernaður framtíðarinnar, barist verði í borgum en ekki á opnum víðáttum.

Tímaritið Newsweek fjallar um þessi mál nú í vikunni og þar er haft eftir háttsettum embættismanni í bandaríska varnarmálaráðuneytinu, að her þeirra, sá öflugasti í heimi, hefði líklega ekki staðið sig neitt betur en rússneski herinn í Grozný. Reglan hefur sú hjá bandaríska hernum, að forðast borgir í lengstu lög. Ástæðan fyrir því að Vesturveldin hertóku ekki Berlín við lok seinni heimstyrjaldarinnar var ótti þeirra við mikið mannfall. Og sá ótti reyndist ekki ástæðulaus; rúmlega 100.000 rússneskir hermenn féllu í tveggja mánaða áhlaupi á borgina.

Hinn vestræni heimur sættir sig ekki við slíkt mannfall úr röðum hermanna sinna og ekki heldur að andstæðingunum sé eytt með stórfelldu sprengjuregni. Til marks um hið fyrrnefnda er að ekki einn einasti hermaður úr röðum Vesturveldanna féll í umfangsmestu hernaðaraðgerðum í Evrópu frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar, þ.e. íhlutun NATO í Kosovo. Það er því höfuðverkur hernaðarsérfræðinga hvernig finna megi leiðir til þess að hertaka borgir án þess að það kosti miklar mannfórnir. Máttur hinna miklu hervelda nýtur sín best á opnum svæðum, eins og sást hvað bestí Flóabardaganaum, en allt önnur lögmál gilda í návígi borgarhernaðar og því munu herveldin þurfa að endurskipuleggja heri sína og bardagatækni þeirra.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.