Gengisfelling fátæktarhugtaksins

Íslandi, í fréttum um helgina, þá er svarið tvímælalaust já. Vinsælt er núorðið að segja, að bilið milli ríkra og fátækra hafi aukist á Íslandi, og var það t.a.m. boðskapur í nýársávarpi forseta Íslands. Lítill vafi leikur á því að margir hafa efnast vel á undanförnum árum og enn minni vafi er á því að sumir hafa efnast minna. Að því leyti hefur bilið milli „ríkra“ og „fátækra“ breikkað.

Er fátækt alvarlegt vandamál á Íslandi? Ef marka má ummæli Sigrúnar Árnadóttur, framkvæmdastjóra Rauða krossins á Íslandi, í fréttum um helgina, þá er svarið tvímælalaust já. Vinsælt er núorðið að segja, að bilið milli ríkra og fátækra hafi aukist á Íslandi, og var það t.a.m. boðskapur í nýársávarpi forseta Íslands. Lítill vafi leikur á því að margir hafa efnast vel á undanförnum árum og enn minni vafi er á því að sumir hafa efnast minna. Að því leyti hefur bilið milli „ríkra“ og „fátækra“ breikkað.

En verður maður fátækur af því að nánunginn í næsta húsi efnast? Hvað er að vera fátækur? Þegar framkvæmdastjóri Rauða krossins lætur hafa það eftir sér, að tugþúsundir Íslendinga búi við fátækt í dag og hafi líklega aldrei verið fleiri, þá er von að menn reki í rogastans. Og hvernig skyldi nú framkvæmdastjórinn skilgreina hugtakið fátækt í þessu samhengi? Jú, það er þegar fólk nær ekki endum saman um mánaðamót. Og þar sem tugþúsundum Íslendinga tekst það ekki, hljóta þeir að teljast fátækir.

Að ná ekki endum saman í þessu samhengi hefur ekkert að gera með fátækt. Að ná ekki endum saman er að eyða meira en maður aflar, og sú árátta hrjáir fólk í öllum launaflokkum. Fátækir eru þeir hins vegar sem ekki tekst að sjá sér og sínum farborða og komast ekki af án utanaðkomandi aðstoðar. Því miður á þetta við um fólk hér landi, en sem betur fer skiptir það ekki tugþúsundum.

Þeir sem láta slíkt í veðri vaka eru í raun að vinna gegn málstað þess fólks sem býr við verstu kjörin, fólksins sem er virkilega fátækt. Þetta mætti kalla gengisfellingu fátæktarhugtaksins. En framkvæmdastjóri Rauða krossins er ekki einn um þetta, því bæði biskup og forseti Íslands hafa lagt sitt af mörkum í þessari umræðu. Samkvæmt þeirra predikunum er íslenskt þjóðfélag þjakað af óréttlæti og misskiptingu. Þó er það svo, að óvíða á byggðu bóli ríkir eins mikill efnahagslegur jöfnuður með mönnum eins og hér á landi.

Aðalatriði málsins er að fólk temji sér að nota þau hugtök sem við eiga hverju sinni. Það gefur augaleið að hugtakið fátækt þarf að þynna verulega út, eigi tugþúsundir Íslendinga að falla undir það. Betra er að nota önnur hugtök – jafnvel þótt það þýði að viðtalið komist ekki að fyrr en í fjórðu eða fimmtu frétt.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.